18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4359 í B-deild Alþingistíðinda. (3674)

336. mál, frelsi í útflutningsverslun

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Sú till. sem hér er til umræðu og flutt er af þm. Alþfl. gerir ráð fyrir því að veruleg breyting verði gerð á tilhögun útflutningsverslunar okkar. Hún gerir ráð fyrir algeru frelsi í útflutningi, að þar reyni hver sem best hann getur að koma okkar vörum á hinn stóra erlenda markað. Þarna er ég sammála flm., að vissu marki þó. Ég verð að hryggja þá með því að ég er það mikill íhaldsmaður enn þá að ég vil gæta þarna varúðar við vissum þáttum. Ég tel sjálfsagt að hefja sterka markaðsleit erlendis fyrir landbúnaðarvörur okkar, t. d. okkar úrvalsdilkakjöt. Ég er viss um að við getum náð markaði fyrir þá vöru ef sölumennskan er sett í öndvegi og varan afgreidd pökkuð á þann hátt sem hinn erlendi neytandi vill fá hana, en ekki eins og við viljum endilega afgreiða hana, eins og hér hefur verið margoft um rætt, í gömlu grisjupokunum og heilum skrokkum. Það á að gera þessa vöru að neytendavöru beint inn í stórmarkaðina og ég hvarfla ekki frá því að þessu má ná fram sé vel að því staðið.

Í þessari grein hefur verið því sem næst einokun. Þeir einstaklingar, sem hafa verið að reyna að koma þessari vöru á markað og hafa haft fulla trú á því að hann mætti finna, hafa að sögn ekki fengið kjötið keypt hér heima til slíkrar markaðsleitar vegna tregðu þeirra aðila sem fara með sölumálin hér innanlands og hafa verið einráðir um útflutninginn. Og þetta gerist þrátt fyrir alla umframframleiðsluna sem er á dilkakjötinu. Þetta er mjög alvarlegt mál og á því þarf að ráða bót.

Á sama hátt er nauðsynlegt að efla sölumennsku sem allra mest og nýta alla sölutækni út í æsar til þess að koma iðnaðarvörum okkar og alls konar nýjungum á sviði iðnaðarframleiðslu á erlenda markaði. Það er eitt af okkar brýnustu verkefnum til þess að renna sem sterkustum stoðum undir gjaldeyrisöflun okkar og þar af leiðandi efnahagslíf. Markaðsleit og markaðskönnun fyrir óþekkta íslenska framleiðslu hlýtur að verða eitt af okkar höfuðverkefnum á næstu árum.

Sú framleiðsla sem þjóðin hefur fengið 7–75% af sínum gjaldeyri fyrir hefur verið fiskur og fiskafurðir. Fyrr á árum gekk á ýmsu með sölu á þessum afurðum okkar. Framan af ríkti algert frelsi í útflutningi á þessum vörum, sem voru þá nær eingöngu í formi saltsíldar og saltfisks og auk þess ísvarinn fiskur á ferskfiskmarkaðina eins og er í dag.

Á kreppuárunum — ég verð að fara svo langt aftur og í kjölfar þeirra fór þetta kerfi algerlega út um þúfur vegna markaðstregðu og undirboða sem fylgdu. Þá tók löggjafinn rögg á sig fyrir áeggjan framleiðenda og sett voru á stofn sölusamtök, fyrst samtök íslenskra fiskframleiðenda, sem lifa enn og heita SÍF, og tóku þau að sér sölu á öllum saltfiski framleiðenda. Síðan kemur síldarútvegsnefnd, sem tók að sér alla okkar saltsíldarsölu sem hafði verið komin í megnasta ólestur. Þetta geta Alþfl.-menn örugglega lesið sér til um í sögu síns flokks þegar þeir fletta því upp.

Sagan sýnir okkur að smátt og smátt gerbreytti þetta fyrirkomulag á sölu aðalframleiðsluvöru okkar því ástandi sem ríkt hafði. Þessi fyrirtæki hafa verið rekin af miklum myndarskap allt fram á þennan dag. Núna held ég að það séu fáir framleiðendur sem vilja gera þar breytingu á. Í mín eyru hefur enginn framleiðandi saltsíldar minnst á það einu orði að síldarútvegsnefnd væri ekki nauðsynleg sölusamtök á vegum þeirra framleiðenda. Á sama hátt held ég að óhætt sé að fullyrða að það séu fáir aðilar í saltfisk- og saltfiskflakaframleiðslu sem vilja breyta því fyrirkomulagi sem þar ríkir. Þess vegna vara ég við því að taka of stór stökk í þessum efnum til að breyta þeim markaðslögmálum sem hér hafa ríkt. Það á ekkert skylt við frelsi eða höft. Þetta eru frjáls samtök þeirra aðila sem framleiða vöruna og þeir óska sjálfir eftir að vera í þessum samtökum.

En víkjum að frysta fiskinum og markaðsuppbyggingu hans. Á fimmta áratugnum hófst að marki vinnsla á frystum fiski hér á landi. Í byrjun voru pakkningar og vinnsluaðferðir frumstæðar miðað við það sem við þekkjum í dag og nær eingöngu selt á Evrópumarkað. Verð vörunnar miðaðist við þá hálfunnu vöru sem þá var framleidd. Stærsta og örlagaríkasta sporið fram á við í þessum efnum var stigið þegar harðduglegir og framsýnir menn brutust inn á Ameríkumarkaðinn með frystar fiskafurðir og varð þar ótrúlega ágengt í markaðsöflun. Þetta átak var gert á vegum sölusamtaka frystihúsanna sem framleiðendur höfðu stofnað. Öll þekkjum við þróunarsöguna. Ameríkumarkaðurinn hefur verið og er nú okkar öflugasti fisksölumarkaður fyrir hraðfrystan fisk. Íslenskur fiskur er búinn að vinna sér þann sess þar að hann er seldur á hæsta verði þrátt fyrir harða samkeppni annarra innflytjenda, eins og Kanadamanna, Norðmanna og Dana. Þetta byggist ekki hvað síst á vel uppbyggðu sölumannakerfi og góðum samböndum sölufyrirtækja okkar við hinar stóru verslunarkeðjur þar í landi.

Eftir áratuga starf og uppbyggingu þessa markaðar hefur myndast traust á milli kaupenda og seljenda. Þess vegna vara ég mjög við því að raska því jafnvægi með því að smáaðilar komi inn á markaðinn til að selja sams konar vörur. Ég vil benda á það í leiðinni, og það held ég að ætti einnig að athuga, að það er ekki alveg út í hött að t. d. frændur okkar, smáþjóðin Færeyingar, leggja ekki út í það að fara einir inn á þessa markaði. Þeir hafa ágætisvöru en ekki mikla framleiðslu á móti okkur. Þeir leggja ekki í það að fara að keppa á þessum markaði heldur selja þeir sína vöru að langstærstum hluta í gegnum SH. Vinir okkar Færeyingar eru bisnessmenn og þeir mundu örugglega gera þetta ef þeir teldu sig hafa verulegan hag af því, að fara einir og sjálfstæðir inn á þennan þunga Ameríkumarkað.

Tveir aðilar eingöngu flytja út nær allt það sem hægt hefur verið að selja á Ameríkumarkaðinn, þ. e. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sjávarafurðadeild SÍS. Auk þess eru tvö eða þrjú önnur fyrirtæki, sem þangað flytja út og þá einkum sérvörur eins og t. d. hörpudisk. Ég álít Ameríkumarkaðinn svo viðkvæman að ég vara mjög við því að á þann markað verði fjölgað leyfum nema um væri að ræða nýjar tegundir eða framleiðslu sem raskar ekki því sölufyrirkomulagi sem við höfum byggt þar upp. Ég gæti t. d. hugsað mér að sala á ferskum fiski, sem nú færist mjög í vöxt að sé fluttur út með flugvélum, sé gefin frjáls að meira eða minna leyti. Það sem ég á við er að við förum ekki að raska hinum gömlu, hefðbundnu söluaðferðum sem þarna eru orðnar rótgrónar og hafa öðlast þarna mjög fastan sess. Það er enginn vandi að fá eitthvað hærra verð fyrir eina og eina smásendingu en það er ekkert að vita hvað verður um þá næstu. Það þekkjum við í þessum bisness. En ég held að sölu á ferskum fiski og ýmsum sérunnum vörum sem nú er byrjað að framleiða, krabbategundir og fleira sem verið er að fitja upp á, mætti gefa algerlega frjálsa svo að menn finni þá bestu markaði sem þeir geta fundið fyrir þá vöru. Það ætti ekki að rugla það sem heitir „Iceland cod“ á ameríska markaðnum og hefur unnið sér þar ákveðið nafn, því að við eigum margir sérafurðir úr sjávarafla sem við getum nýtt betur en við gerum og eigum eftir að vinna markaði fyrir.

En eins og ég sagði, þá gegnir að mínu mati öðru máli um frystar afurðir okkar t. d. á Evrópumarkaði. Þar er hægt að koma við meira frelsi en nú er og er sjálfsagt að kanna möguleika þar. Þeir hafa sín sérviðhorf, Evrópubúarnir, og eru töluvert frábrugðnir Bandaríkjamönnum í þessum efnum.

Það hefur vissulega verið gert mikið átak af hálfu sölusamtakanna á síðustu árum. En betur má ef duga skal og ég get vel tekið undir það með síðasta ræðumanni að hjá sölusamtökunum, sem við ræddum hér um, hefur gætt vissrar stöðnunar. Það þarf að fylgjast með því að þau vinni sem best og á sem réttastan veg og þau eiga að bjóða nýjum mönnum upp á það að komast að í ákveðinn tíma til að spreyta sig í sölumennsku og öðru. Þetta mál þarf allt að kanna. En kerfinu sjálfu vil ég ekki breyta á þessu stigi málsins og tel ekki nokkur rök fyrir því að svo sé gert.

Það kann að koma mönnum spánskt fyrir eyru en ég held að við getum vel átt von á því á næstu árum að svo mikil eftirspurn verði eftir íslenskum fiski að það verði ekki mikill vandi að selja hann. Japansmarkaðurinn er t. d. núna að byrja að lifna og ég geri mér miklar vonir þar. Það teldi ég kjörið tækifæri fyrir menn í markaðsleit að leita nýrra markaða þar austur frá og í fleiri löndum til þess að ryðja nýjar brautir.

Rússland er okkur nauðsynlegt viðskiptaland vegna ákveðinna tegunda af fiski sem framleiddur er. Það er því miður ekki um að ræða þar, þótt við fegnir vildum, að innleiða frelsi á þeim markaði. sovétmenn fást ekki til að kaupa nema af einum aðila. Þeir hafa gert þá kröfu t. d. í sambandi við mjöl og annað, sem þangað hefur verið selt, að það væri flutt út á hendi eins aðila. Það þýddi ekkert fyrir einn og einn að reka viðskipti þar. Þeirra skipulagi er þannig háttað, og það er auðvitað þeirra mál, en þetta verðum við allt að beygja okkur undir, þannig að það eru í þessu ýmsar leiðir.

Með þessum orðum mínum vil ég fyrst og fremst vara við því að raska því kerfi sem búið er að byggja upp á Ameríkumarkaðnum á þann veg sem geti skaðað okkur. Þessi fyrirtæki hafa unnið mikið og gott starf og þó að þau hafi oft legið undir gagnrýni, það er ósköp eðlilegt með slíka starfsemi, þá er hún í flestum tilvikum byggð á mikilli skammsýni og þekkingarleysi. Það vilja allir gera vel í þessum efnum. Þess vegna er ég sammála frv. að því leyti að við eigum að auka sem mest frelsi í útflutningi á þeim mörkuðum sem það hentar og afla nýrra markaða fyrir nýjar framleiðsluvörur í sjávarútvegi, en varast að skemma það sem fyrir er. Ég hef reyndar þá trú að það sé ekki meining flm. heldur. Svo má benda á það í viðbót sem kom hér fram áðan í sambandi við útflutning á iðnaðarvörum að iðnaðarvörur tengjast einnig sjávarútvegi. Það hefur talsverða þýðingu hjá fiskveiðiþjóðum að héðan er nú flutt út töluvert mikið af vélum sem hér eru framleiddar og hugbúnaður alls konar sem byggist á reynslu okkar í sjávarútvegi. Þetta ber einnig að athuga því að þetta er algerlega frjáls markaður að því er ég best veit.