18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4373 í B-deild Alþingistíðinda. (3680)

336. mál, frelsi í útflutningsverslun

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það hafa komið fram nokkrar mjög athyglisverðar og ég vil segja merkilegar upplýsingar í þessum umræðum. Í fyrsta lagi fer það ekki leynt hvað sumir hv. þm. eru hræddir við Framsfl. Ég þarf ekki að fara frekari orðum um það nema ég gæti vitnað í hv. þm. Stefán Benediktsson og hv. formann þingflokks Alþb. Það voru líka alveg nýjar og óvæntar upplýsingar að hv. 6. þm. Reykv. væri í þingflokki Sjálfstfl. Og í þriðja lagi var það mjög merkilegt og athyglisvert að sú reglugerð sem hv. 3. þm. Reykn. er að gera hér að umræðuefni og skammast út af er einmitt sett af honum sjálfum. Allt er þetta merkilegt.

En ég stóð ekki upp fyrst og fremst til að vekja athygli á þessum atriðum. Ég stóð hér upp vegna þess að hv. 2. þm. Reykn. virtist ekki vera vel heima í hvernig málum er háttað í sambandi við útflutning á landbúnaðarafurðum. Svo er háttað þeim málum að það er ekkert sláturhús sem hefur leyfi samkv. erlendum reglum til að flytja út t. d. kindakjöt nema sláturhús sem eru á vegum þeirra kaupfélaga sem Sambandið hefur umboðssölu fyrir. Þó að þessi till. hv. þm. Alþfl. mundi verða samþykkt er engin breyting á þessu.

Ég vil benda á það t. d. að fyrirtæki norður á Sauðárkróki hefur keypt gærur og þvegið þær, kallað það piklaðar gærur og til skamms tíma selt þær til Póllands. Nú er það lokað.

Ég fór fyrir nokkrum árum til Noregs og ræddi þar við ráðamenn út af útflutningi kindakjöts þangað. Þar er einn maður sem hafði leyfi til að flytja inn kjöt frá Íslandi. Ég hef verið að þreifa fyrir mér, bæði gagnvart honum og ráðh., hvort ekki væri hægt að vinna þetta heima, setja þetta í aðrar umbúðir o. s. frv. Það er sett alveg blátt bann við því. Bændasamtökin í Noregi vildu hafa þetta svona og það kom ekki til greina að Norðmenn tækju við okkar kjöti. Þetta var mikilvægasti útflutningur okkar þá eins og hv. þm. muna eftir. Það var ekki talað um annað en að flytja þetta út í grisjum og þeir ynnu þetta sjálfir. Menn verða að athuga hvernig að þessum málum er staðið. Hafa menn virkilega trú á því t. d. með saltsíldina að haldast mundi uppi það verð sem síldarútvegsnefnd hefur tekist að fá fyrir síldina ef margir aðilar væru að bjóða síldina á þessum þröngu mörkuðum sem við þurfum að semja um verðið á? Halda menn það?

Menn verða að passa sig á því að vera ekki svo trúaðir á frelsið að það hangi eins og myllusteinn við hálsinn á þeim.

Ég vil bæta því við að fyrir nokkrum árum varð Sambandið fyrir aðkasti hvað eftir annað á stéttarsambandsfundum út af því hvernig það stæði að útflutningi á landbúnaðarvörum og sett var nefnd sem átti að rannsaka þetta. Nefndin fór töluvert mikið um og sendi menn til að reyna að athuga þá markaði sem sögusagnir voru um að væru fyrir hendi. En hver var árangurinn? Árangurinn sýndi að þetta var fleipur eitt. Þessari nefnd, sem lagði sig fram að reyna að finna þá, tókst það ekki, því miður.

Þó að ég segi þetta er ég alveg með því að menn spreyti sig á því að reyna að finna markað og ég tek undir það sem hv. 2. þm. Reykn. sagði um viðskiptafulltrúa á vegum utanrrn. í öllum sendiráðum. Það er bara allt annað mál. En við megum ekki vera svo trúaðir á frelsið að við stefnum okkar framleiðsluvörum í hættu hvað verð snertir. Sumir af þeim mönnum sem nú eru í viðskiptum eru óprúttnir að selja sína vöru eða kaupa sína vöru. Væri hægt að ræða þau mál frekar bæði hér og annars staðar.

Ég vil að þetta komi hér fram vegna þess að menn ræða um t. d. útflutninginn á landbúnaðarvörum á þann veg að það leynir sér ekki að menn þekkja það ekki nógu vel. Við vitum hvernig þessi mál standa í flestum löndum í nágrenninu. Það er sú landbúnaðarpólitík t. d. í Noregi að þar eru milli 30 og 40 mismunandi styrkir til bænda, t. d. í sambandi við sauðfjárafurðir. Bændur í Noregi fá verulega mikið hærra verð fyrir t. d. sínar sauðfjárafurðir en bændur á Íslandi.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Við þurfum á öllu okkar að halda til þess að reyna að halda uppi sem hæstu verði á okkar framleiðslu og haga okkur þannig að við séum ekki í hættu með það. Í sumum tilvikum er þetta það þröngt og svo viðkvæmt að ekki er hægt að hafa það nema á einni hendi. Hitt er það að það getur vel verið að ekki sé óskynsamleg lausn að koma á kerfi eins og er t. d. í Noregi. Það vill svo til að formaður útflutningsráðs Norðmanna, sem þekkir marga á Íslandi, er giftur íslenskri konu. Hann hefur dvalist hér, dvaldi hér á stríðsárunum öllum. Þennan mann þekki ég persónulega. Hjá Norðmönnum er mjög skynsamlega að þessum málum staðið. Það eru margir aðilar í þessu ráði. Þar eru margs konar hagsmunir í veði. Margir eiga aðgang að þessu ráði og hafa þar a. m. k. umsögn í sambandi við þau vinnubrögð sem þar eru höfð í frammi.