18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4376 í B-deild Alþingistíðinda. (3683)

339. mál, bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Að því hníga þung rök að íslensk skáld séu hjartfólgnari þjóð sinni en gerist með milljónaþjóðum, enda er skáldskaparhefð okkar rík og jafngömul fyrstu byggð hér á landi. Tungan er torlærð og skilin af fáum mönnum erlendum svo að þeir geti notið bókmennta okkar til hlítar. Hvort tveggja veldur því að þjóðinni er annt um sóma skálda sinna á erlendum vettvangi, en þau eru hins vegar ekki metin af verkum sínum þar eins og þau eru skrifuð á íslensku.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru veitt árlega og ber hverri þjóð að leggja fram tvö skáldrit á þeim tungum sem talaðar eru í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð. Finnar hafa þá sérstöðu að ríkismálin eru tvö, sænska og finnska, og margir þeirra jafnvígir á hvort þeirra sem er, enda eiga þeir athyglisverða bókmenntahefð að baki á þeim tungum báðum. Færeyingar skrifa dönsku og færeysku jöfnum höndum enn sem komið er. Af þeim sökum er auðvelt fyrir finnskt skáld eða færeyskt að fá verkum sínum snúið á sænsku eða dönsku og leiðrétta þýðingarnar og lagtæra eftir því sem þörf krefur.

Þetta horfir öðruvísi við okkur Íslendingum. Sænsk tunga hefur aldrei fest hér rætur og enginn stafur er fyrir því að hún sé okkur tamari en til að mynda enska, franska eða þýska þó svo að við höfum deilt konungi með Dönum svo öldum skiptir.

Að sjálfsögðu hljótum við Íslendingar að minna á að íslenskan geymir ein sem lifandi mál elstu skáldverk og bókmenntir norrænna manna. Fyrir þá sök ætti metnaður allra norrænna þjóða að standa til þess að íslensk tunga sé virt til jafns við aðrar tungur norrænar þegar að því kemur að úthluta bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs. Skiptir í því efni ekki máli þótt Íslendingar séu færri en Danir, Norðmenn eða Svíar.

Þótt það sé glöggt af íslenskum sjónarhól að íslenska skuli jafngild öðrum tungum norrænum til bókmenntaverðlauna eru flm. við því búnir að andmælum verði hreyft gegn því af mörgum þm. í Norðurlandaráði svo að málið dagi þar uppi eða falli. Þær mótbárur hafa m. ö. o. heyrst að íslenskan sníði öðrum þjóðum á Norðurlöndum of þröngan stakk, þ. e. þær yrðu að ganga undir það jarðarmen að í dómnefnd veldust einungis þeir sem vald hefðu á þessari fjarlægu tungu, íslenskunni, þvílíkir menn séu fágætir svo að valið yrði einhæft um of þegar til lengdar léti. Með sömu rökum má segja að úrval þeirra, sem færir eru um að snúa íslenskum skáldritum á tungur Dana, Norðmanna eða Svía, sé bundið við fáa einstaklinga svo að hætt sé við að þýðingarnar verði einhæfar þegar fram í sækir. Flm. óttast m. ö. o. að íslenskan fái ekki að njóta sannmælis enn um sinn þó svo að íslensk skáld og rithöfundar gjaldi þess.

Að þessu sinni völdu Íslendingar „36 ljóð“ eftir Hannes Pétursson og „New York“ eftir Kristján Karlsson vegna veitingar bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1985. Hannes Pétursson lagði stund á germönsk fræði og bókmenntir í Þýskalandi. Kristján Karlsson bjó um árabil vestanhafs og hefur gefið út ljóð á íslensku og ensku, enda jafnvígur á þær tungur báðar. Eins og skilyrðin eru var sú leið lokuð að hann sneri ljóðum sínum sjálfur á ensku sem þó verður að ætla að gæfi dómnefnd bókmenntaverðlauna ekki síður hugmynd um gildi ljóða hans en þýðing annars manns á sömu ljóðum á nýnorsku. Höfundareinkenni hljóta að dofna þegar annar maður en höfundur kemur til sögunnar, orðar alla hugsun að nýju og ræður hinni endanlegu gerð ljóðsins.

Einhverjir bestu þýðendur á íslenska tungu, Einar Benediktsson, Skuggi, Magnús Ásgeirsson og Helgi Hálfdanarson spreyttu sig allir á Ferhendum tjaldarans eða Rubáiyát og eru þýðingarnar allar snjallar, en bera þó skýr höfundareinkenni sinna þýðenda. Gunnar Gunnarsson skrifaði nær allar bækur sínar á danska tungu og Einar Kvaran, Magnús Ásgeirsson og Halldór Laxness íslenskuðu þær í rómuðum þýðingum, en þó var Gunnar ekki í rónni fyrr en hann hafði sjálfur lokið því sama verki.

Flm. hafa ekki séð þær þýðingar sem að þessu sinni voru lagðar til grundvallar við úthlutum bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og hafa ekki ástæðu til að ætla annað en að þær séu góðar. Þessi till. má því ekki skoðast sem gagnrýni á Inge Knutsson og Knut Ødegård.

Ef þm. í Norðurlandaráði treysta sér ekki til að falla frá andstöðu við íslenskuna er einsýnt að látið sé á það reyna hvort þeir unni íslenskum skáldum og rithöfundum þeirrar sanngirni að vera ekki rígbundnir við tungur Dana, Norðmanna og Svía. Fyrir þá sök er hér lagt til að Íslendingum verði heimilt að leggja verk sín fram á ensku, frönsku eða þýsku. Með því næst að vísu ekki fullur jöfnuður, fjarri því, en það yrði samt spor í átt til jafnaðar.

Herra forseti. Þetta er grg. sem fylgdi till. til þál. um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs svohljóðandi: „Alþingi skorar á ríkisstj. að beita sér fyrir því að reglum um tilhögun bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs verði breytt á þann veg að Íslendingar leggi bókmenntaverk sín fram á íslensku. Að öðrum kosti sé þeim heimilt að leggja fram þýðingar á ensku, frönsku eða þýsku engu síður en dönsku, norsku eða sænsku.“

Þessi till. er mjög hógvær og grg. sömuleiðis. Það olli mér því miklum vonbrigðum þegar ég frétti af og hef nú lesið undirtektir íslenskra alþm., sem í Norðurlandaráði sátu, við þessa till. Ég held að alþm. hljóti að vera kunnugt að þeir eru fágætir og hafa verið fágætir þeir menn sem hafa með fullri reisn getað snúið íslenskum skáldverkum, ég fala ekki um ljóðum, með þeim hætti á erlendar tungur að sómi sé að. Ég get tekið sem dæmi hið breska skáld Auden, sem þýddi ýmis ljóð úr Sæmundar-Eddu. Væri það nú skoðun Íslendinga í Norðurlandaráði að þvílíkt höfuðskáld væri ekki þess virði, ef hann legði fyrir sig að snúa ljóðum samtímaskálda yfir á enska tungu, þá væri hann óverðugur þess að hægt væri að leggja hann fram til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs til rökstuðnings því að íslensk skáld hefðu mikinn boðskap að flytja og þá andagift sem hann hrífur með sér?

Mér er t. d. kunnugt um að annað þeirra skálda sem að þessu sinni áttu bók sem valin var vegna bókmenntaverðlauna, Kristján Karlsson, hefur verið í nánu sambandi við mann sem hefur snúið verkum hans á enska tungu. Ég get ekki skilið að það gæti orðið neinum Íslendingi til tjóns þó svo að slík þýðing yrði lögð fram til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs til stuðnings og styrktar því að menn annarra þjóða geti skilið hver sé boðskapur, hvert sé ágæti og hver séu helstu einkenni hinna íslensku skálda. Ég get vel komið til móts við það sjónarmið, sem ég sé að hinn finnski menntmrh. hygg ég að hann sé hefur, að það kunni að vera svo að þeir menn sem veljist til þess að kjósa skáldverk til bókmenntaverðlauna kunni ekki skil á þessum höfuðtungum þrem Evrópubúa, þýsku, frönsku og ensku. En er þá nokkuð því til fyrirstöðu að við sjáum svo um að úrvalsþýðingar verði lagðar fram samtímis þýðingum á skandinavísku, þegar við vitum það líka að þær þýðingar hafa verið mjög misjafnar og stundum svo að þýtt er stafrétt og menn kannast ekki við að umsnúningurinn á þessi mál fyrirfinnist í viðkomandi móðurmáli? Ég get tekið sem dæmi það sem hv. þm. Árni Johnsen hafði yfir í sjónvarpsþætti, þegar það var þýtt stafrétt að sólin stafar geislum. Mér skilst að þar hafi verið notuð sögnin „að skrifa“ í hinni dönsku þýðingu. (Menntmrn.: Þetta er orðrétt þýðing.) Orðrétt þýðing? Er ekki í hinni dönsku þýðingu „skriver“? Var það ekki sagt? (Gripið fram í: Var þetta ekki á norsku?) Var það á norsku? Ekki skiptir það máli. (Gripið fram í: Það skiptir máli að það er orðrétt þýðing, þm.) Það er nú ekki orðrétt þýðing. Í fornu máli þýðir sögnin að skrifa að mála. Það er talað um það í Egilssögu. Ef við förum til upprunans, þá er í Egilssögu notað orðið „skrift“ í merkingunni ...(Gripið fram í: Geislar hennar út um allt... Kann þm. þá vísu?) (ÁJ: Það var ekki verið að þýða það.) Geislar hennar út um allt... (Gripið fram í: eitt og sama skrifa.) Var það sama og „sólin stafar geislum,“ ha? Orðin „stafur“ í íslenskri tungu — eigum við að nota óvirðulegt orð og segja að stafur merki þarna hið sama og prik? Þetta eru lóðréttir stafir þar sem sólin kemur niður, hinir lóðréttu geislastafir sem menn hafa oft og iðulega séð. Ég tala nú ekki um þegar maður í íslenskuþætti í útvarpinu fer að reyna að útskýra að sólin sé önnum kafin við að drita niður bókstöfum. Ég hef nú aldrei vitað til þess að einn einasti íslenskumaður skildi þetta með þeim hætti. En við skulum alveg sleppa þessu máli.

Við skulum á hinn bóginn harma að íslenskir alþm. skuli vanhugsað setja fótinn fyrir það á þingi Norðurlandaráðs að auka rétt íslenskra skálda til þess að þeirra boðskapur fái að njóta sín á erlendum tungum og í huga erlendra manna. Sú till. sem ég flutti hér ásamt mínum flm. er ekki flutt af einhverri tilgerð. Hún er ekki mín hugarsmíð. Hún er flutt vegna þess að það hefur komið fyrir að íslensk skáld og rithöfundar hafa verið meidd í sínum þýðingum sem lagðar hafa verið fyrir Norðurlandaráð. Það er ástæðan. Þetta er ekki einhver pjatttillaga. Og ætlar einhver þm. að halda því fram t. d., svo að við tökum eitt það mál sem mér skilst að Norðurlandaráð hafi gaman af að fjalla um íslensk skáldverk á, sem er nýnorska, — hvað ætli margir íslenskir menn geti skilið ljóð á nýnorsku svo að þeir geri sér grein fyrir því hvort vel eða illa sé þýtt? Ég þekki íslenska menn sem hafa viljað kynnast skáldum sem yrkja á nýnorsku sem frummáli. Þeir njóta þeirra kvæða betur í þýðingum á önnur mál vegna þess að þeir hafa aldrei heyrt nýnorsku talaða og kunna ekki að meta hana sem bókmenntamál. Ætlar einhver maður hér í þessum sal að halda því fram að danskur maður skilji boðskap á nýnorsku fremur en íslenskur sem aldrei hefur heyrt hana talaða né alist upp við hana? Ætla íslenskir alþm. að gerast sérstakir boðberar þess að það sé eitthvert ágæti að láta íslensk skáld ganga undir það jarðarmen að ljóð þeirra séu þýdd á afdalamál sem hvergi er talað og það jafnvel stundum af manni sem ólst upp á allt öðru málsvæði? Þetta held ég að sé kjarni málsins.

Ég ætla ekki að standa í langri dellu um þetta mál. Ég veit að þm. munu hugleiða þessa till. Ég veit líka að innan Rithöfundasambandsins hefur þessi till. áhangendur vegna þess að í henni felst engin fyrirlitning á grönnum okkar. — Og niðurlagið á ræðu hv. þm. 5. landsk. þm. Eiðs Guðnasonar í orðaskiptum um þetta mál á Norðurlandaþingi var þess efnis að það var lítt til sóma og ef forseti hefði verið þar sem ber virðingu fyrir sínu embætti hefði hann veitt honum áminningu.

Ég vil líka vekja athygli þingheims á því að hvorugur þeirra þm., ætli það hafi ekki verið tveir, sem mæltu gegn þessari till. á Norðurlandaráði hafði fyrir því að ræða við mig um þetta mál áður og var þeim þó kunnugt um fsp. hv. þm. Árna Johnsen.

Herra forseti. Ég vil að lokum aðeins ítreka þetta: Með þessum tillöguflutningi mínum gengur mér það eitt til að reyna að finna leiðir til þess að íslensk skáld og rithöfundar standi sem næst jafnfætis skáldbræðrum sínum á öðrum Norðurlöndum, við reynum að finna einhverja leið til þess að komast yfir þann þröskuld sem okkar tunga er þegar aðrar þjóðir eru að reyna að kynnast verkum okkar listamanna. Reynslan sýnir að framboð á góðum þýðurum á skandinavísk mál er ekki sem skyldi og þar að auki eigum við skáld sem yrkja á tveim tungum, íslensku og ensku, sem valin hafa verið vegna Norðurlandabókmenntaverðlauna. Ég hef ekki heyrt einn einasta mann halda því fram að það gæti orðið í neins manns huga Íslendingum til hneisu þó t. d. maður eins og Kristján Karlsson hefði lagt ljóðabók sína fram vegna bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs jafnframt á enskri tungu. Sjálft skáldið, sjálfur höfundurinn, yrkir á þessum tungum báðum. Og ég vil spyrja að því: Er það móðgun í huga einhverra manna hér ef hann hefði gert það? Ef við erum að tala um bókmenntaverðlaun fyrir öll Norðurlönd get ég líka fallist á að við skulum reyna að stuðla að því að þau verk, sem þar eru lögð fram, séu þýdd á þessar tungur, dönsku, sænsku og norsku. Við skulum þá líka meina dönsku, sænsku og norsku sem þar eru talaðar. En ég vil segja: Til viðbótar hljótum við að ætlast til þess að fá að leggja þessar þýðingar fram á íslensku. Og ég vil enn fremur segja: Ef íslenskt skáld hefur þýðara á önnur tungumál, höfuðtungur Evrópu, ensku, þýsku og frönsku, þá getur það ekki spillt neinu fyrir neinum, orðið neinum til skammar, rýrt þjóðernisstolt eins eða neins þó þeir menn fái að snúa þessum verkum og þau séu enn fremur lögð fram. Það getur ekki verið ósanngjarnt, ef þeir sem dæma um málin skilja ekki frumtunguna, þótt skáldinu sé gefinn kostur á því að leggja fram tvær þýðingar af sínum verkum, þó svo að önnur þýðingin yrði á ensku eða þýsku.

Ég vil leggja til, herra forseti, að þessari till. sé vísað til hv. allshn.