18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4382 í B-deild Alþingistíðinda. (3685)

339. mál, bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið. Ég vil aðeins bæta örfáum atriðum, sem hér skipta máli, við það sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði áðan.

Það eru tvær ástæður til þess að bækur, sem lagðar eru fram í Norðurlandaráði, eru þýddar á eitthvert hinna norrænu mála. Fyrst til þess að dómnefndarmenn eigi auðveldara með að lesa þær, þeir sem ekki lesa íslensku, en ekki síður eru þær þýddar í því skyni að þær séu tilbúnar til útgáfu á Norðurlöndunum. Menningarmálanefnd Norðurlandaráðs veitir á þessu ári 405 þús. danskar kr. til að koma þessum bókum út. Meiningin með verðlaunum Norðurlandaráðs er ekki síst sú fyrir utan að veita höfundum viðurkenningu að kynna bókmenntir milli þessara landa sem standa að því sem við köllum Norðurlönd. Það er þess vegna tæplega hægt að ætlast til þess að norræn samvinna og stofnanir hennar séu að eyða fé í að þýða bækurnar á önnur tungumál en Norðurlandatungumálin því að til þess er leikurinn gerður, að kynna bókmenntir Norðurlandanna á Norðurlöndum öllum. Þetta hélt ég að hver einasti maður vissi.

En fyrst hefði ég auðvitað átt að geta þess að hér í till. til þál. er skorað á ríkisstj. að beita sér fyrir því að reglum um tilhögun bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs verði breytt á þann veg að Íslendingar leggi bókmenntaverk sín fram á íslensku. Það er gert. Það er heldur ekkert sem bannar hvorki Kristjáni Karlssyni né öðrum að láta fylgja með til dómnefndanna enska, franska, ítalska eða hvers konar þýðingu sem er. Hins vegar er fé veitt til að þýða þessar bækur á norræn tungumál vegna þess að það er leitast við að gefa þær út á Norðurlöndunum. Það hefur ekki verið síst það gagn sem íslenskir rithöfundar og íslensk menning, íslensk þjóð, hefur haft af þessari verðlaunaveitingu, hvort sem verkin hafa fengið verðlaun eða ekki, að þau hafa verið gefin út.

Þetta þrennt, sem ég hef hér minnst á, gerir þessa till. hreinlega með öllu óþarfa. Það er algjör óþarfi að samþykkja þessa till. vegna þess að það er ekkert í henni sem ástæða er til að samþykkja. Þá er kannske nær að tala um grg. Sannleikurinn er sá að hún er í raun og veru enn þá sorglegri. En áður en ég vík aðeins að því vil ég endilega leyfa mér, vegna þess að það kann vel að vera að hv. þm. Árni Johnsen telji sig kunna norsku, að halda því fram að ég sé ögn betri í norsku en hann. Ég held að hv. þm. Halldór Blöndal hefði átt að fletta upp í orðabók áður en hann notaði kunnáttu hv. þm. og flokksbróður síns, Árna Johnsen, sem heimild. „Solen skriver“ á norsku þýðir „sólin stafar“. „Solskrivning“ á norsku þýðir „sólstafir“. Það er líka til annað eldra orð sem heitir „solskrev“. Ég vona þá að þm. séu sammála því að þetta dæmi sem hv. þm. Árni Johnsen tók um slæma þýðingu er algjörlega út í hött, þetta er m. a. s. orðrétt þýðing. Þá er það upplýst og verður ekki rengt, ég vísa til orðabókar.

En þá ætla ég aðeins að snúa mér að þessari grg. Hún hefst á því „að íslensk skáld séu hjartfólgnari þjóð sinni en gerist með milljónaþjóðum“. Þetta er mikil fullyrðing. Svo hjartfólgin eru þessi skáld hinu háa Alþingi að hér inni eru nú staddir í þessari þýðingarmiklu umr. sjö, átta þm. fyrir utan forseta og skrifara. Fyrir fimm mínútum síðan var hér í salnum enginn nema ræðumaður, forseti og skrifari. Ég held að íslenskri ritlist sé enginn greiði gerður með svona þjóðrembu. Sem betur fer eru skrifaðar bækur á Íslandi og ég ætla að vona að því verði haldið áfram. Við skulum hins vegar horfast í augu við að þjóðin les ekkert betri bækur hér uppi á Íslandi en aðrar þjóðir gera. Það er ekkert sem liggur fyrir um það. Það er meira keypt af bókum hér en víðast hvar annars staðar en lestur er ekki endilega spurning um magn heldur um gæði þess sem lesið er. Ég tel þess vegna að svona þjóðrembuyfirlýsingar séu gjörsamlega út í hött og engum til gagns.

Hver segir að íslensk tunga sé torlærðari en aðrar tungur? Ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt nokkurn málfræðing halda því fram að íslensk tunga sé eitthvað torlærðari. Venjulega er það svo að erlend tunga er öðrum þjóðum torlærð og þess vegna liggur það í hlutarins eðli að skáldverk verður aldrei alveg eins á annarri tungu, það liggur alveg ljóst fyrir. Jafnvel þó að Kristján Karlsson þýddi sjálfur ljóð sín á enska tungu er ensk tunga að allri gerð svo gjörólík íslenskri að þar gæti aldrei verið um sama skáldskapinn að ræða, auk þess sem ég hef þá tröllatrú — og hef svo sem fræðimenn fyrir mér í því — að engin manneskja getur verið gjörsamlega tvítyngd. Annað málið verður alltaf nær henni en hitt. Auðvitað eru því blæbrigði milli tungumála sem ekki er hægt að þýða svo að sama verkið verði eftir.

Þess vegna er það alrangt, sem hér stendur, að í Finnlandi séu tvö mál og þess vegna eigi Finnar auðvelt með að kanna hvort þýðing á verkum þeirra á sænsku sé eins og hún eigi að vera. Í fyrsta lagi eru hundruð þúsundir Finna sem kunna ekkert í sænsku. Ég vænti þess að þm. viti hversu lítill hluti finnsku þjóðarinnar er sænskumælandi. Við sem sitjum í Norðurlandaráði verðum að sætta okkur við það að þar sitja með okkur í nefndum menn sem einungis tala finnsku. Og við kvörtum ekkert yfir því, þeirra mál er þýtt yfir á eitthvert tungumál, venjulegast sænsku að vísu. En ég held að það sé alveg sama vandamálið fyrir Finna að skila sínum verkum inn í Norðurlandaráð til verðlaunaveitinga eins og fyrir Íslendinga og ekki betra.

Fullyrðing eins og sú að dönsk tunga hafi aldrei fest hér rætur kann rétt að vera, sem betur fer. En að dönsk tunga eigi hér engar meiri rætur en franska, þýska og enska er fjarstæða, þó ekki sé nema fyrir þá einföldu staðreynd að næstum því hvert einasta íslenskt barn lærir að lesa og skrifa dönsku. Ég er hrædd um að eldri kynslóðin, sem hér kaupir dönsk vikublöð í hundruð þúsunda tali hvern einasta mánuð, sé ansi nær danskri menningu en franskri eða þýskri. Og ég get upplýst hv. þm. Halldór Blöndal að gömul og góð vinkona mín, sem er á áttræðisaldri, brá sér til Bandaríkjanna og dvaldist þar í góðu yfirlæti. Hún skrifaði mér bréf og sagði að það væri yndislegt að vera í Ameríku. En það væri eitt sem væri alveg afleitt. Dönsku blöðin fengjust bara ekki í New York. Ég er ansi hrædd um að hún sé nær danskri menningu en enskri eins og gefur að skilja, enda væri það auðvitað með ólíkindum að svo væri ekki þar sem Kaupmannahöfn var höfuðborg Íslands um aldabil. Við skulum ekkert afneita þeim áhrifum sem þaðan komu því að þau voru ekki öll vond og áreiðanlega eiga menn eftir, þegar þeir hafa jafnað sig af þjóðarrembunni, að skrifa um það sanngjarnar bækur þó síðar verði.

Um þetta mætti ræða lengi. En ég held að það sé ekki til gagns, hvorki norrænni samvinnu né íslenskri menningu, að halda uppi hroka á borð við það sem hér stendur. Einhvern veginn liggur að baki þessu nöldri, sem mér finnst þessi grg. vera, að Íslendingar, þessi yfirgengilega bókmenntaþjóð, skuli ekki hafa fengið verðlaunin nema tvisvar. Mér finnst það satt að segja aldeilis nóg og við megum vel við una. Það er ekki síst því að þakka að þeir höfundar, sem fengu verðlaunin, áttu því láni að fagna að hafa einhvern besta þýðanda af íslensku á norræn mál sem ég held að völ sé á og verði um langt skeið, sem er sænska skáldið Inge Knutson. Svo mikils er hann metinn fyrir þau verk sín í föðurlandi, Svíþjóð, að hann er á starfslaunum eingöngu við að þýða íslenskar bókmenntir og gerir satt að segja ekki mikið annað. Hann hefur full laun til þess. Við sem höfum verið svo heppin — og þá m. a. ég svo að ég veit nokkuð hvað ég er að tala um — að hann hefur þýtt verk okkar á aðrar tungur megum svo sannarlega vel við una.

Það er ekki ástæða til að kvarta yfir þeim vinnubrögðum.

Hvað eigum við að segja, sem í Norðurlandaráði sitjum, við setningu eins og þessari sem hér er í lokum grg., með leyfi forseta?:

„Ef þm. í Norðurlandaráði treysta sér ekki til að falla frá andstöðu sinni við íslenskuna“ — Hvers konar yfirlýsingar eru þetta nú? — „er einsýnt að látið sé á það reyna hvort þeir unni íslenskum skáldum og rithöfundum þeirrar sanngirni að vera ekki rígbundnir við tungur Dana, Norðmanna og Svía.“

Þetta er vanþekking, hv. flm. Íslenskir rithöfundar eru ekkert rígbundnir við þessar tungur. Þeir mega svo gjarnan til frekari upplýsingar leggja verk sín fram fyrir utan sitt íslenska verk á hvaða tungu sem er. Gallinn er hins vegar sá að ég býst við að fæstir þeirra vilji standa í því að kosta það sjálfir. Það eina, sem ég hygg að menningarmálanefndin sé ekki sérstaklega ginnkeypt fyrir, er að eyða peningum í að þýða verkin fyrst á einhverjar heimstungur og síðan á tungur Norðurlandaþjóða vegna þess að tilgangurinn er að bækurnar séu gefnar út svo að ekki aðeins örfáir menn og bókmenntafræðingar í dómnefndunum lesi þær heldur lesendur á Norðurlöndum. Þess vegna eru þær þýddar á Norðurlandamál. Er þetta nú ekki að verða aðeins skýrara?

En ég held að það sé alveg ástæðulaust að kvarta fyrir hönd Kristjáns Karlssonar að hann hafi ekki mátt leggja sína bók fram jafnframt á ensku. En ég efast hins vegar um að Norðurlandaráð hefði viljað borga fyrir þá þýðingu. Ég get að lokum upplýst hv. alþm. um að nýlega efndu norrænir skólabókaverðir til verðlaunaveitingar fyrir barnabækur á Norðurlöndum. Svo vildi til að ein bóka minna var þar tilnefnd. Ég get glatt hið anglosaxneska hjarta Halldórs Blöndals með því að ég sagði þessum skólabókavörðum að ég ætti raunar enska þýðingu á þessari bók. Henni var tekið með mestu þökkum vegna þess að það var jú ekki önnur þýðing til. Það er því engin móðursýki á Norðurlöndum gegn bókum á öðrum tungumálum. Þetta er bara svo einfalt að Norðurlandaráð er til þess stofnað að vinna að norrænni samvinnu og kostar þar af leiðandi ekki þýðingar bókmenntaverka nema á norrænar tungur.

Ég held þess vegna að hversu góður hugur sem er að baki þessari till. til þál. hljóti hún að verka afskaplega ruglingslega á alla þá sem koma nálægt norrænni samvinnu og menn standi einfaldlega uppi, eins og sýnilegt var á þingi Norðurlandaráðs, og skilji bara ekkert í til hvers þessi till. er flutt. Þess vegna held ég að Alþingi Íslendinga sé enginn sómi gerður með því að vera að samþykkja hana og legg hreinlega til að sú nefnd, sem fær hana til meðferðar annaðhvort setjist fast á hana eða leggi til að hún verði felld.