18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4385 í B-deild Alþingistíðinda. (3686)

339. mál, bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ekki ætla ég að þrátta um það við hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur hvort okkar er betra í norsku (GHelg: Nei, það fer nú ekki milli mála.) En ég get viðurkennt að ég kann meira í færeysku en norsku. (GHelg: Það er annað mál.)

Það var einkennilegt að heyra ræðu hv. þm. og minnti mig á vísu eftir Steingrím Thorsteinsson. Slík var snilli þm., yfirburðavitneskja og miðlun á upplýsingum. „Má ég upplýsa“ sagði þm. oft. Vísan er svona, með leyfi forseta:

Þegar runninn af þér er

ídealski sviminn,

neðst við askbotn undu þér

með asklok fyrir himin.

Og þarna komum við kannske að ákveðnum hlut sem á sér stað í norrænni samvinnu sem er um margt góðra gjalda verð en ekki algild ein og sér. Mönnum hættir einmitt til þess, finnst mér, að festast í norrænni samvinnu undir askloki stóru bræðranna þriggja. Og það finnst mér hv. þm. hafa gert í sínum málflutningi.

Við erum að tala um reisn, rétt og virðingu íslenskrar tungu. Og við sem erum talsmenn íslenskrar tungu kaupum ekki slíkar dylgjur og fullyrðingar eins og hafa komið fram hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og hv. þm. Páli Péturssyni. Orð skal standa, orð skal þýða það sem það á að þýða og það á ekki að rugla saman málum endalaust eins og gert er og ég mun víkja að aðeins síðar í mínu máli.

Það er einnig undarlegt að heyra það hjá íslenskum þm. að það sé dónaskapur við norrænar frændþjóðir okkar að tala fyrir íslenskri tungu, tala fyrir rétti hennar á vettvangi Norðurlandasamstarfs. Það var undarlegt að heyra íslenskan þm. segja að hann þyrfti að þvo hendur sínar af slíkri till., eins og hv. þm. Páll Pétursson, forseti Norðurlandaráðs, hefur látið í ljós. Það er ekki langt síðan ungur íslenskur rithöfundur, Jakob Ásgeirsson, fjallaði um það í grein í Morgunblaðinu að tveir menn, Jón Sigurðsson forseti og Grímur Thomsen, hefðu fjallað á sínum tíma um rétt og stöðu íslenskrar tungu gagnvart öðrum Norðurlandamálum. Þeirra mál kemur heim og saman við þann málflutning sem við talsmenn íslenskrar tungu höfum haft uppi í þessum efnum.

Það kom fram hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að menn væru hér með hroka og nöldur og að Íslendingar hefðu fengið nógu mörg verðlaun. Það er enginn að tala um verðlaun í þessu sambandi þegar rætt er um rétt íslenskrar tungu. Verðlaunin skipta minnstu máli í þeim efnum. En að tvær þjóðir eða fleiri geti staðið jafnréttis, jafnfætis og uppréttar, það er spurning um það. Það er spurning um að halda stöðu okkar þjóðfélags og okkar samfélags á alþjóðavettvangi en vera ekki með, eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns, undirlægjuhátt gagnvart erlendum þjóðum. Það er mergurinn málsins og skylt að leggja áherslu á.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði að ef höfundur kærði sig um gæti hann lagt fram verk sitt á íslensku og þyrfti ekki að leggja það fram á neinu öðru máli. Honum stæði til boða þýðing á sænsku, dönsku eða norsku. Hins vegar tæki hann þá áhættu að menn skildu ekki það sem lagt væri fram. Til hvers er þá af stað farið? Þetta þykir mér ekki góð pólitík hjá Húnvetningum sem eru nú vanir að vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð. Eða til hvers er að leggja fram gögn ef enginn skilur þau? Er það ekki mergurinn málsins að menn skilji það sem um er að ræða í bókmenntum sem öðru?

Þm. vitnaði einnig í finnska og grænlenska tungu. Ég ætla ekki í mínu máli að fjalla um rétt þeirra tungumála á þessu sviði. Það er rétt að heimamenn á þeim vígstöðvum geri upp við sig hvað þeir vilja. En það má benda á að bæði grænlenska og finnska eru af allt öðrum málstofni en íslenska, sænska, norska og danska og ekki kannske eins mikil hætta á að þar ruglist saman meiningar manna í þeim efnum, hugmyndir og orð í þýðingum.

Það er ástæða til þess að rifja hér upp setningar sem ég setti upp og komu reyndar fram í sjónvarpsþætti sem flm. þessarar þáltill. vitnaði til, setningar sem undirstrika nauðsyn þess að íslensk tunga standi með sama rétti og aðrar norrænar tungur, sé ekki hliðar- eða aukabúgrein í þeim búskap, vegna þess að þær þrjár tungur sem Norðurlandaráð viðurkennir formlega, sænska, norska og danska, eru að ýmsu leyti orðnar eins konar víkingaenska. Má þar kannske sérstaklega vitna til dönsku og norsku. Við skulum taka þessi dæmi sem ég vék að:

Man accepterer ikke denne attitude hvis det har stor konsekvens for systemet. Hvað er enska, hvað er danska, hvað er franska? Hvað eru menn að mikla fyrir sér að leyfilegt sé að leggja fram þýðingar á ensku eða frönsku og við höfum svona staðreyndir fyrir okkur í löggiltum, opinberum norrænum þýðingum? — Når vi har sott bagasjen på stasjonen så kan vi gå i swimmingpoolen om week-enden. Löggilt þýðing.

Það er ekki langt síðan ég ræddi við einn mann sem starfar á norrænum samstarfsvettvangi, í Nordisk Industri Fond. (Gripið fram í.) Já, ég læt mér í léttu rúmi liggja með áherslur í þessum efnum úr þessum ræðustól. — Það hefur komið fram þar oft á fundum að Norðmenn ættu illt með að þola enskar slettur í umsóknum til sjóðsins, þó svo kannske að sumt í umsóknunum væri mjög tæknilegt og væri erfitt að orða það nema á ensku. Og þegar minnst er á tæknileg orð og þróun í þeim efnum þá er það a. m. k. engin þjóð á Norðurlöndum sem hefur eins mikið varað sig á því að slengja enskum slettum inn í málið þó að þar megi margt með betur fara. En það hefur einnig komið fram á þessum fundum skv. orðum þessa nefndarmanns að Finnum finnst mikið hagræði að því að geta skilað umsóknum á ensku. En það finnst Norðmönnum óhæfa. Þeir mundu t. d. vilja þýða ensku setninguna „Electronic Control System for Chemicals“ yfir í „Elektronisk Kontrolsystem for Kjemikalier“. Þetta er nú stoltið og sniildin í norrænu tungunum sem menning Íslands á að byggjast á út á við og njóta réttar til jafns við aðrar norrænar tungur.

„Rafstýrð kerfi fyrir efnasambönd“. Þetta skilur að vísu ekki nokkur lifandi maður á Norðurlöndum. Menn verða bara að horfast í augu við það að Ísland stendur ekkert jafnfætis öðrum. Menn líta ekkert á Ísland eða íslenska menningu eða aðra þætti hjá íslenskri þjóð sem fullgilda þátttakendur í norrænu samstarfi. Það er bara mergurinn málsins, hvað sem menn eru að reyna að sýna á yfirborðinu og hvað sem menn þegja þunnu hljóði og vilja gerast miklar undirlægjur í þessum efnum og þora ekki að standa fyrir málstað íslenskrar tungu. Þetta vita allir sem hafa unnið á norrænum vettvangi. Og það hef ég gert ekkert síður en hv. þm. Guðrún Helgadóttir þó hún telji sig mun betri í norsku en ég. Það skiptir ekki máli. En með þessari þýðingu, „Elektronisk Kontrolsystem for Kjemikalier“, þá er ugglaust þjóðarstolti hinna norsku víkinga fullnægt.

En eigum við að kyngja því að yfir á þessa bjögun sé æskilegt að þýða okkar stóru höfunda eins og t. d. Halldór Laxness og segja: Takk og aftur takk? Nei, það er spurningin um rétt íslenskrar tungu sem þetta mál snýst um, ekki verðlaun eða einhvern hégóma. En að standa með reisn í svip í samstarfi með öðrum þjóðum.

Það er líka borðliggjandi staðreynd að margir sem starfa á norrænum vettvangi telja að þeir séu að tala norsku, dönsku eða sænsku, svona eftir því hvernig landið liggur, standa í þeirri meiningu, en eru að tala það sem kallast og er skandinavíska. Stundum er það 90% danska og 10% íslenska. Stundum er það 10% danska og 90% íslenska. Þetta er upp og niður eins og gengur. Ef við ætlum að fletja alla hluti út þá gerum við það með þessu móti.

Ég er sammála því að það sé æskilegt að menn tali þau mál sem flestir skilja á hverjum stað. Ég er sammála því að ef góður norskumaður eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir er að tala í Noregi, þá sé ekkert við því að segja að hún tali norsku. Það á ekki endilega að vera metnaðarmál hv. þm. að tala íslensku. En það er allt annað mál hvort við erum að tala um jafnan rétt og viðurkenningu á þeim rétti og síðan meti menn eftir efnum og ástæðum hvernig þeir eiga að skila sínum málflutningi svo með sóma sé, bæði fyrir hönd Íslands gagnvart þeim hugmyndum sem liggja að baki og gagnvart þeirri virðingu sem á að sýna íslenskri tungu á norrænum vettvangi.

Það er full ástæða til að hvetja til þess að þessi þáltill. verði samþykkt. Hún er hvorki nöldur eða hroki. Hún er einfaldlega spurning um það hvort menn hafa áhuga á því að halda uppi virðingu íslenskrar tungu.,Það eru farin að fljóta inn ýmiss konar orð. Í útvarpsauglýsingum fyrir nokkrum vikum heyrði ég auglýsingu frá skemmtistað eða- veitingastað í Reykjavík um að í hádeginu yrði „jassbröns“. Þetta er ekki óalgengt orð í Skandinavíu í auglýsingum. „Jassbröns“ er væntanlega hádegisverðatími þar sem leikinn er jass og boðið er upp á hlaðborð margra rétta, sem í Bandaríkjunum er kallað brunch, jazzbruns.

Að okkur stefna úr öllum áttum slík aðskotaorð. Og ef við stöndum ekki vörð um íslenska tungu í því samstarfi sem við sinnum mest, á Norðurlöndum, þá er hætt við að flæði skjótt að okkur úr öðrum áttum. Þess vegna er ástæða til að menn standi saman um það og horfi yfir hégómann og undirlægjuháttinn og samþykki hér þessa till.