18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4392 í B-deild Alþingistíðinda. (3688)

339. mál, bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég ætla að byrja með því að fara með tvær vísur þm. til upprifjunar, með leyfi forseta. Ég held að þær séu eftir Hannes Hafstein. Þær eru svona:

Blessuð sólin elskar allt,

allt með kossi vekur.

Haginn grænn og hjarnið kalt

hennar ástum tekur.

Geislar hennar út um allt

eitt og sama skrifa

á hagann grænan, hjarnið kalt:

Himneskt er að lifa.

Læt ég svo útrætt um þessa skrift sem hefur orðið mönnum að umtalsefni hér.

Hér hefur verið af hálfu flm., hv. þm. Halldórs Blöndals og Árna Johnsen, farið að mínum dómi með furðulega rökfræði og ég held að þegar þeir hugsa sig um og fari að lesa það sem þeir hafa sagt muni þeir finna við vandlega íhugun ofurlitla fljótfærni á einstöku stað í málflutningi sínum.

Hitt líkar mér verst þegar verið er að gera okkur hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og öðrum þm. í Norðurlandaráði upp skoðanir og fullyrða það í þskj. að við séum að sýna af okkur einhverja andstöðu við íslenska tungu. Því mótmæli ég algerlega og vil ekki sitja undir því og ber það hér með til baka. Auðvitað viljum við öll sömul reisn, rétt og virðingu íslenskrar tungu.

Ég minnist þess ekki heldur að hafa sagt það og ég hygg að það sé útúrsnúningur út úr mínum orðum að ég hafi nokkurn tíma kallað það dónaskap að tala á íslenska tungu. Það er fjarri mér. Ég held hins vegar að skynsamlegar ræður til uppihalds og virðingar íslenskri tungu séu mjög þakklætisverðar. Hins vegar er hægt að haga orðum sínum óskynsamlega, jafnvel þó í góðri meiningu sé gert.

Hv. þm. Árni Johnsen — ja, ég ætla nú ekki að fara langt út í þýðingar hans eða umfjöllun um norðurlandamálið — kom með prósentureikning á skandinavískunni okkar, hvernig hún væri til komin, og ég ætla ekki að mótmæla því. Við tölum ekki allir kórrétta dönsku, t. d. hvorki ég eða hv. þm. Árni Johnsen, því miður. (Gripið fram í.) Ég held þó að okkur takist að gera okkur skiljanlega á þeirri skandinavísku sem við tölum, ég a. m. k. þykist verða þess var að ég geti gert mig skiljanlegan og ég skildi hv. þm. Árna Johnsen líka og varð ekki var við annað en að menn skildu orðin sem hann sagði. Hins vegar hefur verið, ekki reyndar í þessari umræðu heldur í umræðum sem hafa spunnist út af þessari till., stungið upp á því að við töluðum íslensku á fundum Norðurlandaráðs. Það kemur til greina og ekkert bannar okkur það og það hefur verið gert af fyrrverandi menntmrh. Vilhjálmur Hjálmarsson flutti ágæta ræðu á íslensku.

Hins vegar er mjög kostnaðarsamt að þýða með túlk. Sá háttur hefur verið hafður á að þeim íslenskum ræðum, sem fluttar hafa verið, hefur verið dreift vélrituðum til fundarmanna. Það fylgir því geysimikill kostnaður að túlka allar ræður á þinginu, eins og gert er fyrir Finna. Hins vegar höfðum við skemmtileg orðaskipti á milli tveggja Finna á síðasta Norðurlandaráðsþingi þar sem einn finnskur þingmaður hvatti finnsku sendinefndina eða þá finnskumælandi Finna sem þar voru að tala á finnsku til þess að ekki yrði hætt þessum túlkunum. Nú er það þannig að finnsku fulltrúarnir núna munu líklega allir nema einn hafa flutt mál sitt eða a. m. k. framsöguræður sínar á sænsku. Annar finnskur þingfulltrúi svaraði þessu og taldi að þeim væri meira í mun að gera sig skiljanlega og láta hlýða á mál sitt og þau viðhorf sem þeir væru að túlka en að halda í þýðingar. Ég er á sama máli. Ég held að okkur sé nauðsyn að gera okkur skiljanleg og reyna að gera það með þeim hætti sem best við kunnum.

Ég er ekki að draga í efa að hv. flm., sem hér hafa tekið til máls, séu báðir stórkostlegir íslenskumenn og alls góðs maklegir, en mér finnst nú kenna nokkurs yfirlætis og þótta, t. d. í máli hv. þm. Árna Johnsen og reyndar þeirra beggja, þegar þeir eru að tala um sig sem hina mestu uppihaldsmenn íslenskrar tungu. Það eru fleiri þm. hér sem láta sér annt um þetta fallega mál.

Ég held að það væri gott og gaman ef við hefðum á því efni að gangast fyrir kennslu eða námskeiðahaldi í íslenskri tungu meðal þessara frændþjóða okkar. Sænskur maður, Ragnar Lassinantti, hafði forgöngu um það á sínum tíma að stofna til námskeiða fyrir fólk af öðrum Norðurlöndum að læra sænsku og allmargir Íslendingar hafa notið þar fræðslu og haft gagn af. Mér skilst af mönnum sem til þekkja að það sé t. d. ekki mjög mikil vinna fyrir sæmilega næma Norðmenn að öðlast þá þekkingu á íslenskri tungu að þeir geti lesið hana sér til gagns. Og einn af starfsmönnum Norðurlandsráðs, íslenskur starfsmaður, sem búsettur er í Osló og hefur unnið þar að menningarmálum, hefur mjög athyglisverðar hugmyndir í því sambandi að reyna að útbreiða íslenska tungu eða skilning á íslenskri tungu í Noregi. Ég held að það væri gaman ef við hefðum efni á því og þeim peningum væri betur varið en fara að eyða peningum í það að þýða á ensku, frönsku eða þýsku fyrir Norðurlandabúa.

Að endingu vil ég, áður en ég lýk máli mínu og þar sem hér hefur sannast mjög rækilega hversu miklir íslenskumenn hv. flm. eru og hversu annt þeir láta sér um tunguna, stinga upp á því við þá að þeir taki upp hinn íslenska nafnasið. Nú er það svo með hv. þm. Halldór Blöndal að hann heitir að vísu íslensku ættarnafni, kennir sig við ágætan dal fyrir norðan þaðan sem hann er upprunninn og er því plássi eðlilega til sóma, en íslenskara væri nú að hann kenndi sig við föður sinn og kallaði sig hreint og beint Halldór Lárusson. Eins væri með hv. þm. Árna Johnsen. Ég finn ekki betur en þetta sé skandinavískt ættarnafn sem maðurinn heitir.