22.04.1985
Efri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4397 í B-deild Alþingistíðinda. (3690)

49. mál, vinnumiðlun

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um vinnumiðlun sem er 49. mál Nd. Frv. hefur verið afgreitt í Nd. með tiltölulega litlum breytingum. Sú breyting, sem þar var gerð, var fyrst og fremst við 3. gr. þar sem BSRB er bætt við þá aðila sem eiga að vera í ráðgjafarnefnd þeirri sem frv. gerir ráð fyrir.

Það blandast víst fáum hugur um að Íslendingar lifa á umbrotatímum. Á vissan hátt má segja að íslenskt þjóðlíf standi á tímamótum. Við höfum fram til þessa byggt sókn okkar til bættra lífskjara m. a. á mikilli fjárfestingu í fiskiskipum og fiskvinnslu sem um skeið leiddi til aukins afla. Það er mat margra að við núverandi skipulag fiskveiða höfum við náð hámarks afrakstri fiskimiða í kringum landið. Þess vegna verði bætt lífskjör að byggjast á betri nýtingu þeirra hráefna sem við höfum, hagnýtingu nýrrar tækni við framleiðsluna og bættri menntun og þjálfun mannaflans. Mín skoðun er að um ókomna framtíð byggist afkoma í þessu landi á afrakstri sjávarútvegs og fiskvinnslu, arður þessara starfsgreina muni áfram ráða lífskjörum á Íslandi. Þótt sjávarútvegurinn eigi við tímabundna erfiðleika að etja megum við ekki láta það hafa þau áhrif að dregið verði úr fjárfestingu í nýrri tækni og betri tækjum í þessari atvinnugrein.

Ef sjávarútvegur og fiskiðnaður dragast aftur úr leiðir það til enn verri afkomu þess fólks sem starfar við þessar undirstöðugreinar í þjóðfélagi okkar. Ef það gerist er hætt við að lítið verði til skiptanna fyrir aðrar starfsstéttir. Það er eins og ýmsir séu hættir að skilja þessar einföldu staðreyndir í þjóðfélaginu. Þess vegna legg ég áherslu á það að fjárfesting í nýjum tækjum, ekki síst í fiskvinnslunni, svo og öðrum atvinnugreinum er forsenda bættra lífskjara.

En það er ekki nóg að fjárfesta í nýjum tækjum og auka fjölbreytnina í atvinnulífinu ef ekki er fyrir hendi starfsfólk sem hefur rétta menntun og síðast en ekki síst þjálfun til að takast á við ný verkefni sem ný tækni og nýjar atvinnugreinar krefjast. Þar er þörf á menntun og hvers kyns þjálfun. Þjóð, sem ætlar og verður að stofna til nýsköpunar og aukinnar fjölbreytni í atvinnulífinu, verður að átta sig á samhengi hlutanna. Það er ekki hægt að stofna til nýsköpunar í atvinnulífinu, nýsköpunar sem krefst menntunar, ef ekki er til starfskrafturinn til að koma slíku í framkvæmd.

Fjölbreytni í atvinnulífi krefst betur menntaðs og sérhæfðara starfsfólks. Af þessum ástæðum er margt sem bendir til þess að sífellt erfiðara verði fyrir atvinnurekendur að fá það starfsfólk sem reksturinn krefst og fyrir launþegann að fá vinnu við sitt hæfi. Það er hér sem vinnumiðlun hefur gífurlega miklu þjóðhagslegu hlutverki að gegna. Meginhlutverk hennar á að vera að leiða saman launþega og atvinnurekanda og stuðla þar með að sem allra bestri nýtingu mannafla og atvinnutækja, þ. e. að sú menntun og starfsþjálfun, sem launþegi hefur, nýtist sem best þegar út í atvinnulífið er komið og að flóknum og dýrum atvinnutækjum stjórni þeir sem hafa til þess rétta þjálfun.

Þetta hlutverk hefur íslensk vinnumiðlun ekki rækt sem skyldi. Starf hennar fram til þessa hefur í allt of ríkum mæli takmarkast við skráningu tölulegra upplýsinga og því skrifræði sem tengist greiðslu atvinnuleysisbóta. Á þessu verður að verða breyting. Þess vegna er flutt það frv. um vinnumiðlun sem hér er á dagskrá.

Fyrsta löggjöfin, sem snertir vinnumiðlun, voru lög nr. 57/1928 um atvinnuleysisskýrslur. Í þeim lögum, sem voru aðeins fjórar greinar, var bæjarstjórnum gert skylt að safna fjórum sinnum á ári skýrslum um atvinnu og atvinnuleysi sjómanna, verkamanna, verkakvenna og iðnaðarmanna. Mikill misbrestur mun hafa verið á þessari skýrslusöfnun utan Reykjavíkur og eftir þrjú ár gafst Hagstofan upp við að innheimta skýrslurnar. Fyrir bragðið er nánast engin vitneskja fyrir hendi um atvinnuástand utan Reykjavíkur í tölfræðilegum gögnum frá kreppuárunum upp úr 1929.

Á árunum eftir 1929 verða menn varir við böl atvinnuleysisvofunnar. Sú reynsla verður þeim sem það upplifðu víti til varnaðar. Eymd, vonleysi, glötun tímaskyns, missir sjálfsvirðingar, slakari heilsa voru sjúkdómseinkenni atvinnuleysisins. Það var upp úr þessum jarðvegi sem skilningur á mikilvægu hlutverki vinnumiðlunarinnar spratt. Í ársbyrjun 1935 samþykkti Alþingi fyrstu lögin um vinnumiðlun lög nr. 4 frá 9. jan. 1935. Í þeim er kveðið á um það að í hverjum kaupstað skuli stofnuð vinnumiðlunarskrifstofa eftir ákvörðun bæjarstjórnar eða atvinnumálaráðherra.

Enn voru sett lög um vinnumiðlun 1951, lög nr. 41. Í 1. gr. þeirra er gerð sú meginbreyting að skyldu sveitarfélaga til að reka vinnumiðlun er breytt í heimild. Auk þess er kveðið á um það að þær vinnumiðlunarskrifstofur, sem þá voru starfandi skv. lögum frá árinu 1935, skuli hætta störfum frá 1. mars 1951.

Loks voru sett ný lög um vinnumiðlun árið 1956, lög nr. 52. Voru þau sett í tengslum við nýja löggjöf um atvinnuleysistryggingar það sama ár.

Það er því orðið löngu tímabært að endurskoða vinnumiðlunarlögin og laga þau að þeim gífurlegu þjóðfélagsbreytingum sem hafa átt sér stað frá setningu þeirra, ekki síst frá árinu 1971 þegar hrein bylting hófst í byggða- og atvinnumálum hér á landi.

Með bréfi dags. 22. okt. 1981 skipaði fyrrv. félmrh. nefnd er skyldi endurskoða lög nr. 52/1956, um vinnumiðlun, með síðari breytingum. Í nefndina voru skipaðir Sigurður Guðgeirsson prentari, formaður, Björn Björnsson viðskiptafræðingur, Bragi Friðriksson framkvæmdastjóri, Eyjólfur Jónson framkvæmdastjóri og Garðar Sigurgeirsson viðskiptafræðingur. Eftir fráfall Sigurðar Guðgeirssonar var Þóra Hjaltadóttir hagfræðingur skipuð formaður í hans stað. Óskar Hallgrímsson, deildarstjóri vinnumálaskrifstofu félmrn., var skipaður ritari nefndarinnar.

Í skipunarbréfi nefndarinnar var henni falið að kanna sérstaklega eftirfarandi atriði:

1. Hver sé eðlileg verkaskipting ríkis og sveitarfélaga hvað vinnumiðlun og atvinnuleysisskráningu snertir.

2. Hvernig tryggja megi sem virkasta vinnumiðlun sem hafi jafnan haldgóðar upplýsingar um þau atvinnutækifæri er í boði eru á hverjum tíma víðs vegar um landið.

3. Hvort það eigi að vera verkefni vinnumiðlunar að sinna þörfum fólks með sérþarfir, t. d. öryrkja eða aldraðra, eða hvort fela beri það verkefni öðrum aðilum.

4. Hvernig efla megi tengsl vinnumiðlunar í landinu við aðila vinnumarkaðarins og Atvinnuleysistryggingasjóð með það fyrir augum að koma á virkara samstarfi þessara aðila.

Enn fremur var nefndinni falið að kynna sér löggjöf um vinnumiðlun á öðrum Norðurlöndum með það sérstaklega í huga að Ísland gerðist aðili að samningi um sameiginlegan vinnumarkað á Norðurlöndum og að æskilegt yrði af þeim ástæðum að samræma ákvæði laga hér á landi því sem þar gildir.

Í grg. með tillögum að lagafrv., sem nefndin sendi félmrh. 28. mars 1984, kemur fram sú sameiginlega skoðun hennar að vinnumiðlun og atvinnuleysisskráning þurfi að vera fyrir hendi um land allt og framkvæmdin eigi að vera verkefni sveitarstjórna en yfirstjórnin hjá Vinnumálaskrifstofu félmrn. Þá kemur fram sú einróma skoðun nefndarinnar að mjög þurfi að auka þá þjónustu sem vinnumiðlun lætur í té, bæði gagnvart atvinnuleitendum og atvinnurekendum, og gera vinnumiðluninni kleift að sinna þeim fjölþættu verkefnum sem í raun eru á hana lagðar.

Nefndin telur mikið skorta á að vinnumiðlunin hafi sinnt því þjónustuhlutverki sem hún á að sinna. Hún bendir á í grg. að góðu heilli hafi atvinnuástand víðast hvar verið með þeim hætti síðustu árin að ekki hafi reynt alvarlega á vinnumiðlunina. Hins vegar leggur nefndin áherslu á það, sem fram kom hér að framan í þessari framsöguræðu minni, að í þjóðfélagi, sem sífellt tekur yfir fjölþættari atvinnustarfsemi, verði þörfin fyrir virka vinnumiðlun meiri með hverju ári burtséð frá því hvort um atvinnuleysi er að ræða eða ekki. Nefndin telur að eðlileg hreyfing vinnuafls milli atvinnugreina þurfi að geta átt sér stað og komi til kasta vinnumiðlunar um upplýsingagjöf, bæði til atvinnurekenda og þeirra sem óska eftir að breyta um vinnu. Atvinnuleit fyrir fatlaða og aðra hópa með sérþarfir þurfi einnig að stórauka, m. a. með samvinnu við samtök og stofnanir er fari með málefni þeirra.

Endurskoðunarnefndin er sammála um það að veigamikill þáttur í starfi vinnumiðlunar eigi að vera fólginn í því að veita stjórnvöldum og öðrum, sem á slíku þurfa að halda, tímanlega vísbendingu um hreyfingar á vinnumarkaði, hvort sem um er að ræða þenslu eða samdrátt. Nefndin telur að í þessu skyni sé nauðsynlegt að vinnumiðlunin fái sem gleggstar upplýsingar um atvinnuástandið á vinnumarkaði, þ. á m. um laus störf. Til að ná þessu markmiði leggur nefndin til að komið verði á véltæku gagnavinnslukerfi undir yfirumsjón Vinnumálaskrifstofu félmrn. Ég vík nánar að þessum þætti síðar í ræðu minni.

Varðandi eflingu vinnumiðlunarinnar leggur nefndin eftirfarandi til:

— að skylda til að annast vinnumiðlun verði takmörkuð við sveitarfélög með a. m. k. 500 íbúa

— að landinu verði skipt í atvinnusvæði eftir atvinnuháttum og staðháttum

— að sveitarfélögum á hverju svæði verði gert að hafa samstarf um allt er lýtur að vinnumiðlun

— að stefnt verði að því að koma upp véltæku gagnavinnslukerfi sem m. a. auðveldi fámennari sveitarfélögum að annast vinnumiðlun án óhóflegs kostnaðar og skrifræðis.

Endurskoðunarnefndin fjallar um stjórn vinnumiðlunarinnar í grg. sinni og telur rétt að aðilar vinnumarkaðarins fái beina aðild að yfirstjórn vinnumiðlunarinnar með þeim hætti að Vinnumálaskrifstofunni verði sett sérstök ráðgjafarnefnd. Hlutverk ráðgjafarnefndarinnar er að gera tillögur um stefnumörkun í þeim málum sem undir Vinnumálaskrifstofuna falla. Þá telur nefndin eðlilegt að heildarsamtök sveitarfélaga og Atvinnuleysistryggingasjóður fái aðild að ráðgjafarnefndinni. Enn fremur er það álit hennar að aðilar vinnumarkaðarins fái beina aðild að stjórnarnefndum þeim sem gert er ráð fyrir hjá hverri sveitarstjórn sem skylt er að annast vinnumiðlun, sbr. 9. gr. frv. Með þessu telur nefndin að unnt eigi að verða að koma á virku samstarfi ríkis, sveitarstjórna og aðila vinnumarkaðarins um atvinnumál á breiðum grundvelli.

Nefndin víkur stuttlega í grg. sinni að samningi um sameiginlegan vinnumarkað Norðurlanda sem var undirritaður 6. mars 1982 og tók gildi 1. ágúst 1983, en skv. honum njóta norrænir ríkisborgarar sama réttar og heimamenn varðandi þjónustu af hálfu vinnumiðlunarinnar. Ofangreind atriði eru kjarninn úr grg. endurskoðunarnefndarinnar sem hún lét fylgja með tillögum sínum um ný lög um vinnumiðlun.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að eyða tíma hér til að útskýra einstakar greinar frv., en út frá þessari skilgreiningu tel ég eðlilegt að vinnumiðlunin sjái um þjónustu við aðila vinnumarkaðarins í samvinnu við og undir yfirstjórn Vinnumálaskrifstofunnar vegna þess að hún er í beinum tengslum við vinnumarkaðinn. Hins vegar fari Vinnumálaskrifstofa rn. með samskipti við stjórnvöld vinnumála á hinum Norðurlöndunum og beri ábyrgð á að sinna þeim skyldum sem samningurinn milli Norðurlandanna felur í sér gagnvart þeim.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á c-lið 11. gr. sem fjallar um sérstaka þjónustu vinnumiðlunarinnar. Skv. þessum lið geta unglingar, fatlaðir og aldraðir leitað til vinnumiðlunar og óskað aðstoðar hennar við leit að vinnu við þeirra hæfi.

Í IV. kafla frv. er nýmæli. Hann fjallar um gagnavinnslukerfi. Í 13. gr. frv. er heimildarákvæði fyrir félmrh. um að hann geti ákveðið, að höfðu samráði við hlutaðeigandi aðila, að vinnumiðlun taki upp véltæka gagnavinnslu allra upplýsinga um atvinnuástand, atvinnuleysi, atvinnutækifæri og atvinnuleysisbætur. Skv. greininni er gert ráð fyrir að Vinnumálaskrifstofan hafi yfirumsjón með gagnavinnslukerfi vinnumiðlunar og setji nánari reglur um meðferð þess og rekstur í samvinnu við sveitarfélög og Atvinnuleysistryggingasjóð.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að félmrn. hefur í samvinnu við Reykjavíkurborg, Atvinnuleysistryggingasjóð og fjmrn. þegar hafið undirbúning að stofnun véltæks gagnavinnslukerfis vinnumiðlunar. Veturinn 1983–1984 voru hannaðar fyrstu tillögur að slíku kerfi. Þessar tillögur hafa verið til nánari athugunar. Enn fremur hafa starfsmenn félmrn. bæði kynnt sér þá tölvuvæðingu sem hefur átt sér stað á þessu sviði í Finnlandi og Svíþjóð í tengslum við vinnumálafundi sem haldnir hafa verið í þessum löndum og tekið þátt í starfshópum Norrænu vinnumarkaðsnefndarinnar sem hefur það sérstaka verkefni að fjalla um notkun tölvutækni við vinnumiðlun á Norðurlöndum. Rn. hefur þannig þegar dregið saman nokkurt magn upplýsinga um þetta málefni.

Það er ljóst að hér er um umfangsmikið verkefni að ræða sem verður ekki leyst nema með náinni samvinnu við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins. Það er enn fremur ljóst að mesta vinnan liggur í því að skilgreina þau verkefni og þá þjónustu sem gagnavinnslukerfið á að annast. Hér er okkur Íslendingum nokkur vandi á höndum vegna þess hvað starfsemi vinnumiðlunar er frumstæð. Þess vegna er það spurning hvort ekki sé rétt að fulltrúar ríkisvaldsins, sveitarfélaganna og aðilar vinnumarkaðarins setjist niður og ræði um framtíðarskipulag og starfshætti vinnumiðlunarinnar á grundvelli þess lagafrv. sem hér liggur fyrir og í framhaldi af því verði unnið að skipulagningu gagnavinnslukerfis vinnumiðlunar. Ég legg áherslu á að ríkisvaldið hefur áhuga á framgangi þessa máls. Í því sambandi vil ég benda á að í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir að 1.5 millj. kr. verði varið til þessa verkefnis.

Í 14. gr. er einnig að finna nýmæli sem að vísu var ekki samstaða um í endurskoðunarnefndinni. Þar er kveðið á um það að þegar vinnumiðlun hefur komið á véltæku gagnavinnslukerfi geti ráðherra með reglugerð ákveðið að öllum, sem hafa með höndum fastan atvinnurekstur með aðkeyptu vinnuafli og hafa fjóra eða fleiri starfsmenn í þjónustu sinni, skuli skylt að tilkynna hlutaðeigandi vinnumiðlun öll laus störf á þeirra vegum, enda sé tryggt að vinnumiðlunin geti tekið við slíkum upplýsingum með viðunandi hætti. Áður en slík reglugerð er gefin út á að leita umsagna helstu samtaka atvinnurekenda og verður þetta ekki gert nema um það verði fullt samkomulag. Á þetta vil ég leggja áherslu.

Virðulegi forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til þeirrar grg. sem með sama frv. fylgir. Ég gat þess í upphafi máls míns að íslenskt þjóðfélag hafi tekið stakkaskiptum frá því núgildandi lög um vinnumiðlun voru sett. Fjölbreytnin í atvinnulífinu hefur aukist og menntun einstaklinga orðið margbreytilegri. Vinnumiðlunin á að sjá til þess að atvinnurekandinn fái þann starfskraft sem reksturinn krefst og einstaklingurinn fái atvinnu í samræmi við þá menntun og starfsreynslu sem hann hefur. Hlutverk vinnumiðlunarinnar á einnig að vera að stuðla að nægri og jafnri vinnu um land allt og auka hreyfanleika vinnuaflsins á milli atvinnugreina. Á þennan hátt getur vinnumiðlun tryggt sem besta nýtingu framleiðslutækja og mannafla og á þann hátt aukið afrakstur þjóðarbúsins sem er öllum þegnum til hagsbóta. Það frv. til l. um vinnumiðlun, sem hér er fylgt úr hlaði, miðar að þessu. Það byggir á þeim grundvallarsjónarmiðum að vinnumiðlun eigi að vera frjáls, hlut-. laus og endurgjaldslaus þjónusta við þá sem óska liðsinnis hennar. Það byggir á því sjónarmiði að sjálfstæði sveitarfélaganna eigi að vera sem mest og þess vegna eigi þau að annast þennan málaflokk undir yfirstjórn félmrn. Til þess að minnka skrifræði og gera vinnumiðlunina sem skjótvirkasta gerir frv. ráð fyrir hagnýtingu véltæks upplýsingakerfis.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.