22.04.1985
Efri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4412 í B-deild Alþingistíðinda. (3697)

397. mál, veitinga- og gististaðir

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni frv., eins og hæstv. ráðh. kom inn á, sem er býsna einfalt í sniðum, en kveður nánar á um réttindi og skyldur þeirra sem við þennan rekstur fást. Fljótt á litið virðist margt til bóta þar. Þó verð ég ævinlega tortrygginn sé ætlunin að setja lagaramma sem felur í sér fyrst og fremst að vísa í reglugerðir sem ráðuneytin sjá alfarið um, svo sem segir í 14. gr. þessara laga. Ég viðurkenni að eflaust er erfitt að setja allt saman inn í lagagr., en með þessu reglugerðafargani, eins og ég vil kalla það, er Alþingi í mörgu að afsala sér valdi. Þess eru jafnvel dæmi, sem Alþingi er lítill sómi að, að úr ágreiningi hafi verið leyst í þingnefndum um túlkun eða skilgreiningu á einhverju með því að setja stutt og laggott inn í lagagr. setninguna: nánari ákvæði skulu sett í reglugerð. Ég kem inn á þetta hér vegna þess að það er ljóst að meginmálið og framkvæmdin felast í þeirri reglugerð sem ráðh. setur. Samband veitinga- og gistihúsa og Hollustuvernd ríkisins eiga að vísu að koma við sögu og er ekkert nema gott um það að segja. En vissulega er nauðsynlegt, sem ég hef vakið athygli á hér áður, að þingnefndir fái aftur til meðferðar og skoðunar reglugerðir við hin ýmsu frumvörp sem við erum hér að samþykkja og færa út alla framkvæmd þeirra og geta jafnvel orkað tvímælis varðandi lagagreinarnar sjálfar. Nú kemur þetta frv. t. d. ekki beinlínis inn á viðkvæm atriði sem snerta áfengislöggjöf okkar, vínveitingar og leyfi til þeirra, þannig að ég fer ekki inn á það mál, en með ákveðinni flokkun, sem kemur svo nánar inn í reglugerð örugglega skv. 9. gr., er gefin vísbending um hvernig að þessum málum skuli staðið.

Það vekur athygli að í aths. með 10. gr. frv. segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Mjög takmarkaðar tölulegar upplýsingar eru til um ýmsa þætti ferðaþjónustunnar. Háir þetta allri skipulagningu greinarinnar. Er vilji bæði meðal einkaaðila og opinberra til að bæta þar úr“, og er nú gott ef rétt er með farið.

Þá er kannske komið tilefnið þess að ég kvaddi mér hljóðs og ætla að segja hér örfá orð. Það varðar kannske ekki frv. sjálft í eðli sínu, en mjög nátengt því er málið engu að síður.

Aðstaða og aðstæður varðandi öll þessi mál eru ákaflega misjafnar hér á landi. Að reka gistihús í alfaraleið eða á afskekktum stöðum er sitt hvað. Hótelrekstur á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni yfirleitt er líka sitt hvað. Á síðustu þingum höfum við hv. þm. Skúli Alexandersson og Steingrímur J. Sigfússon flutt till. um athugun á leiðum til aðstoðar og úrbóta á þeim stöðum sem verst eru í sveit settir, en eru þó með gistiþjónustu af einhverju tagi og þurfa að reka þá þjónustu allan ársins hring til þess að unnt sé að veita ferðalöngum, þó fáir kunni að vera, nauðsynlegan beina og gistingu. Þessi till. hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að leita allra tiltækra leiða til að tryggja þeim aðilum, er veita þjónustu á landsbyggðinni með gistingu og greiðasölu, sem bestan grundvöll til uppbyggingar og rekstrar. Ríkisstj. skal í þessu efni leita samráðs við þá er helst eiga hagsmuna að gæta, svo sem ferðamálaráð, sveitarfélög og rekstraraðila.“

Ég minni á þessa till. í tengslum við heildarlagaramma um veitinga- og gististaði, svo mjög sem þetta mál brennur á mönnum víða úti um land. Oft er þar yfir sumarið nægilegt ferðamannamagn til þess að standa nokkurn veginn undir rekstrargjöldum, en veturinn getur aldrei fært neinar þær tekjur sem duga þó að allt sé í lágmarki í tilkostnaði þann tíma. Ég held að að þessu þurfi að huga miklu meira en gert hefur verið. Ég veit að ferðamálaráð hefur, eitthvað fjallað um þetta mál, a. m. k. gert könnun á því, en ég hef ekki séð neinar tillögur frá því um leiðir til úrbóta til þess að gera þessa nauðsynlegu þjónustu mögulega á afskekktum stöðum þannig að hún sé viðunandi.

Þjónustan verður að vera fyrir hendi. Þetta hafa sveitarstjórnarmenn víða gert sér ljóst og sveitarfélögin hafa þannig víða komið inn í þessa mynd til hjálpar. Mér hefur dottið í hug að vissulega væri ástæða til að taka einhvers konar jöfnunargjald af þessum rekstri í heild. Ég efast ekki um að það yrði óvinsælt af þeim sem besta hafa aðstöðuna og græða þá um leið hvað mest, en það væri vissulega ástæða til þess að vera með einhvers konar jöfnunargjald af þessum rekstri sem kæmi til aðstoðar þeim sem þurfa að reka þessa þjónustu, þessa lífsnauðsynlegu þjónustu vildi ég jafnvel nefna það, víða úti á landsbyggðinni sem engan veginn getur staðið undir sér. Ég veit að þetta er vandamál mjög víða. Ég veit líka að Alþingi hefur verið með á fjárlögum sérstaka afgreiðslu á ákveðnum stöðum, — sem snertir ekki beint veitinga- og gististaði, en áningarstaði skulum við segja, — en í mjög takmörkuðum mæli. Það er ljóst af samtölum við þá aðila sem ég þekki til að þeir standa hreinlega ekki undir þessum rekstri, þeir geta ekki við hann staðið, og það þarf því að leita einhverra leiða til að aðstoða þá og finna eitthvert það form sem væri þeim til framdráttar til þess að geta stundað sína nauðsynlegu þjónustu.

Ég gat ekki stillt mig um að vekja athygli á þessu um leið og frv. um veitinga- og gististaði er rætt í heild sinni.