22.04.1985
Efri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4414 í B-deild Alþingistíðinda. (3699)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Forsaga þessa máls er sú, að sett var bráðabirgða ákvæði í lög nr. 1 11. febr. 1983, um Olíusjóð fiskiskipa, þess efnis að Alþingi skyldi kjósa fjóra menn í nefnd til að endurskoða lög um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Mál þetta er því komið upp vegna forgöngu Alþingis og hefði á vissan hátt verið eðlilegra að sjútvn. hefði flutt það, en af því gat ekki orðið og er því málið flutt sem ríkisstjórnarfrv. Á sínum tíma kaus Alþingi hv. þm. Matthías Bjarnason, Garðar Sigurðsson og Sighvat Björgvinsson og Martein Friðriksson forstjóra í þessa nefnd. Sjútvrh. skipaði Jón Sigurðsson formann nefndarinnar og síðan voru tilnefndir frá hagsmunasamtökum þeir Ingólfur Stefánsson, Kristján Ragnarsson, Óskar Vigfússon og Sigurður Einarsson. Síðar tók hv. þm. Pétur Sigurðsson sæti Matthíasar Bjarnasonar í nefndinni.

Frv. það sem hér um ræðir er samhljóða því frv. sem nefndin skilaði af sér og eru breytingar helstar þessar: Í fyrsta lagi er fækkað fulltrúum í ráðinu úr tólf í átta. Í öðru lagi er sett inn nýtt lagaákvæði er heimilar

Verðlagsráði að gefa verðlagningu á tilteknum fisktegundum frjálsa ef sérstaklega stendur á að mati ráðsins, enda sé um það einróma samkomulag. Það þykir rétt að hafa slíka heimild ef þannig stendur á. Það er að sjálfsögðu ekki vitað í hvaða tilvikum slíkt gæti orðið, en þó er það svo, að ef sérstakar aðstæður koma upp, markaðserfiðleikar og önnur slík atriði, getur verið eðlilegra að hafa verðið frjálst fremur en að verðlagningin standi í vegi fyrir veiðum og vinnslu. Það er þó sett það skilyrði að um þetta sé einróma samkomulag í ráðinu.

Í þriðja lagi er nýtt lagaákvæði sem kveður á um að Verðlagsráð skuli haga verðákvörðunum sínum þannig að þær stuðli að bættri meðferð afla þannig að ávallt verði tekið mið af gæðum sjávarafla við verðákvarðanir eftir því sem markaðsaðstæður bjóða.

Í fjórða lagi verði í lögin bætt nýju ákvæði þess efnis að þegar Verðlagsráð vísar ágreiningsatriðum til yfirnefndar skuli fylgja grg. um þau atriði sem samkomulag er um.

Í fimmta lagi er að ákvæði um skipan sérstakra fulltrúa við verðlagningu á rækju, hörpudiski og grásleppuhrognum verði fellt niður.

Hér er um allnokkrar breytingar að ræða, en þó verður starfsemi Verðlagsráðs með svipuðum hætti og áður. Hér er því fyrst og fremst um breytingar að ræða sem menn telja eðlilegar í ljósi reynslunnar. Hins vegar kemur skýrt fram í þessu frv. að þeir, sem að samningu þess standa, telja eðlilegt að verðlagning sjávarafla verði með svipuðum hætti og verið hefur.

Það hefur komið fram hjá ýmsum aðilum að ástæða sé til að ekki séu nein slík afskipti höfð af verðlagningu sjávarafla og eðlilegra sé að sú verðlagning sé algerlega frjáls. Ég tel að slíkar hugmyndir séu mjög vanhugsaðar þar sem við búum við þær aðstæður hér á landi að markaðir eru mjög litlir. Ýmist getur það verið þannig eða að í einu byggðarlagi sé aðeins einn fiskverkandi og 1–2 skip sem veiða fyrir viðkomandi fiskverkunarstöð. Það hljóta allir að sjá að ekki er um það að ræða að koma á uppboðsmarkaði við slíkar aðstæður.

Ég vil einnig taka það fram að það er mikill misskilningu að verðlagningin sé meira og minna með afskiptum stjórnvalda. Það er að vísu rétt að formaður yfirnefndar er skipaður af stjórnvöldum. Hins vegar hefur hann mikið sjálfstæði í sínum ákvörðunum. Hann leitast við að ná sem víðtækustu samkomulagi á hverjum tíma með tilliti til rekstraraðstæðna og markaðsaðstæðna. Það er alls ekki rétt að hann beri ákvarðanir sínar undir stjórnvöld. Hann þarf að sjálfsögðu að hafa mikið samráð við ríkisstjórnir á hverjum tíma vegna mikilvægis sjávarútvegsins í landinu, en ég tel af þeirri reynslu sem ég hef haft af þessum málum að sjálfstæði hans sem formanns yfirnefndar sé miklu meira en almennt kemur fram í umr., enda tel ég það eðlilegt.

Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.