12.10.1984
Sameinað þing: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Til mín var beint spurningu, sem mér þykir rétt að svara nú, m.a. vegna þess að ég varð að fá leyfi frá þingstörfum kl. 6 vegna fundar sem við fjmrh. munum þá eiga með forustumönnum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Ég hefði gjarnan viljað að hv. 3. þm. Reykv. væri hér í salnum og óska eftir að hann verði sóttur.

Til mín var í fyrsta lagi beint þeirri spurningu af hv. þm. Eiði Guðnasyni hvort það væri afdráttarlaust, hygg ég að hann hafi orðað það, að ekki mætti leita eftir undanþágu frá verkfallinu með samkomulagi við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Nei, það er alls ekki svo. Það má leita undanþágu frá verkfallinu með slíku samkomulagi. Um þetta var allítarlega rætt á fundum ríkisstj., bæði s.l. þriðjudag og í gær, í framhaldi af þeirri greinargerð sem fengin var frá Benedikt Sigurjónssyni hrl. Það er niðurstaða ríkisstj. að aðilum beri að hlýða fortakslaust úrskurði kjaradeilunefndar, en það útiloki þó ekki að samkomulag geti orðið um vinnu á milli deiluaðila. Á þessum fundi var ákveðið að sú nefnd, sem fjmrh. og félmrh. eru fyrir innan ríkisgeirans, ákveði í hvaða tilfellum á að leita samkomulags við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um slíkt. Ég vil taka það fram að að sjálfsögðu er þetta hin venjulega leið þegar um kjaradeilur er að ræða. Hins vegar gilda í þessu tilfelli sérstök lög m.a. um kjaradeilunefnd og þess vegna nauðsynlegt að ræða þetta. Í því tilfelli sem um var að ræða, þ.e. Ríkisútvarpið og bréf hæstv. menntmrh., þá stangast þetta á engan máta á. Þar er tekið fram að hlýða beri úrskurði kjaradeilunefndar.

Jafnframt óskaði hv. þm. eftir því að ég svaraði þeirri spurningu hvort deila væri innan ríkisstj. um sáttatilboð til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það er ekki. Ég skal verða við þeirri ósk sem hefur komið fram að ég fari nánar yfir þær hugmyndir sem ég hreyfði hér í gær.

Ég vil í fyrsta lagi taka fram að á fundi ríkisstj. í gær var m.a. rætt um þann grundvöll sem samkomulag gæti byggst á. Menn voru á því að hann ætti að vera kaupmáttur kauptaxta í lok ársins 1983, eins og gert var ráð fyrir þegar samið var í febr. s.l. og sem í þeim rökstuðningi sem fram hefur komið fyrir uppsögn samninga 1. sept. hefur yfirleitt verið nefndur sem ástæða fyrir uppsögn. Þetta kom fram, eins og ég sagði í minni ræðu í gær, m.a. hygg ég í 11. Fréttablaði ASÍ 1984, þar sem segir að þessi kaupmáttur hafi ekki náðst og því beri að segja upp samningum.

Ég tók fram í gær að ég telji að semja eigi til ársloka 1985, enda hlýtur það að vera sanngjarnt ef skattalækkanir verða stór liður í þessum samningum. Og ég sagði jafnframt að ég teldi að leggja bæri til grundvallar að tryggja kaupmátt kauptaxta fjórða ársfjórðungs 1983.

Ég sagði jafnframt að ég telji að þetta beri að gera með blandaðri leið launahækkana og skattalækkana og nefndi sem dæmi að peningalaunahækkun gæti verið á bilinu 6–10%. Og ég tel að hún ætti í upphafi ekki að vera meiri en 6% vegna þess að ég óttast að annars muni of mikill þrýstingur verða á gengið eða m.ö.o. erfiðleikar atvinnuveganna of miklir. Ég vil reyndar taka það fram að ég teldi æskilegt að peningalaunahækkun væri sem minnst og þá skattalækkun sem mest.

Ég lagði svo í öðru lagi til að tekjuskattur og útsvar yrði lækkað þannig að ofangreind kaupmáttarviðmiðun náist að meðaltali á árinu 1985.

Ef um þetta gæti orðið samkomulag og þar með aflétt því verkfalli sem nú er, þá á Bandalag starfsmanna ríkis og bæja að sjálfsögðu skv. lögum rétt á því að fjallað verði áfram um sérkjarasamninga. Það er beinlínis gert ráð fyrir því í lögunum og það verður alls ekki af þeim tekið. Þess vegna lagði ég til að saman færi, því Bandalag starfsmanna ríkis og bæja ber það mjög fyrir sér í sinni miklu kröfu, samanburðarathugun á launum á hinum almenna markaði og meðferð sérkjarasamninga. Ég benti jafnframt á að í svipaðri deilu við verslunarmenn fyrir fimm árum varð samkomulag um að setja þennan samanburð í gerð og það tel ég að komi vel til greina.

Ég skal ekkert um það segja hver niðurstaða yrði af slíku, en ég vil taka undir það, sem fjölmargir hafa sagt hér, að það á að leggja áherslu á að hækka lægstu launin. En um það skal ég ekkert nánar segja. Um það hafa ekki verið út af fyrir sig mjög háværar kröfur að þessu sinni.

Ég sagði svo loks að mér fyndist eðlilegt að samráð yrði með ríkisstarfsmönnum og aðilum vinnumarkaðarins um að fylgjast með þróun kaupmáttar út þetta tímabil. Það sem ég sagði hér átti að sjálfsögðu fyrst og fremst við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, en má að ýmsu leyti heimfæra upp á hinn almenna vinnumarkað. T.d. hljóta þeir að njóta góðs af skattalækkunum ekki síður en aðrir. Og því mundi ég vona að heildarsamningur, sem ég lagði reyndar áherslu á, næðist eftir svipuðum línum.

Fyrst ég er staðinn upp skal ég fara nokkrum orðum um það sem hér hefur verið sagt. Ég heyrði ekki margt hjá hv. 3. þm. Reykv. sem mér þótti svaravert. Hann hóf þetta þing á sama máta og hann lauk síðasta þingi, með skítkasti og rógburði um mig. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja. Ég verð hins vegar að segja það að við störfuðum saman í 31/2 ár, og lítill hef ég þá verið mannþekkjari, því mér þótti að mörgu leyti ágætt að starfa með þessum manni og hélt hann satt að segja dreng sæmilegan. Ég ætla ekki að fara að tala t.d. um það hvar hann var þegar hin skæða læknadeila var í okkar ráðherratíð. Hvar ætli hv. þm. hafi verið þá? (SvG: Ég var á þingi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.) Þm. var erlendis, það er rétt. Þm. var erlendis. En ég var sannfærður um að hv. þm. gekk þannig frá sínum málum að þau væru í öruggum höndum. Ég treysti hæstv. þáverandi ráðh. til að gera það. Mér dettur ekki í hug að vefengja það eða að eyða ræðutíma Alþingis í umræðu um það.

Það vekur athygli mína að í umr. hér, svo að ég tali um það almennt, virðist lítið tekið tillit til þess áfalls sem íslenska þjóðarbúið hefur orðið fyrir. Ég hygg að það sé ómótmælanlegt, að þjóðarframleiðslan hefur fallið um u.þ.b. 9–10% á þremur árum. Og ég hygg að því verði ekki á móti mælt að a.m.k. heildartekjur í þjóðfélaginu hljóti að hafa lækkað nema menn vilji halda þeim uppi með erlendri lántöku. Á því höfum við ekki lengur efni. Hitt er svo annað mál, hvernig þessu er skipt. Ég get tekið undir það að skiptingin við þessar aðstæður er ekki réttlát. Og ég skal mjög gjarnan taka undir það að því miður hefur þróast hér neðanjarðarhagkerfi. Það eru allt of margir sem sleppa frá því að taka sinn þátt í að greiða kostnað við að reka þetta þjóðfélag, enda hafa margir hinir ágætustu menn fengist við að uppræta slíkt eða a.m.k. draga úr því. Mér er t.d. kunnugt um að fjmrh. Ragnar Arnalds gerði tilraun til þess og hafði fullan stuðning, og allir fjmrh. sem ég hef þekkt. En því miður hefur þetta ekki tekist. Þeir eru allt of margir sem sleppa fram hjá.

Það er fyrst og fremst af þessari ástæðu sem Alþingi samþykkir s.l. vor að draga mjög úr eða fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum. Ég er alinn upp við það að telja að tekjuskattur sé eðlileg tekjujöfnunarleið í þjóðfélaginu. Og ég verð að segja það að það tók mig töluvert langan tíma að fallast á að fella niður tekjuskatt. En ég er horfinn að því ráði nú af því að ég hef séð svo marga reyna að koma í veg fyrir þau skattsvik, sem ég veit að því miður eiga sér stað, og mistakast að ráða við þau.

Ég verð að segja það jafnframt að það er svo sannarlega von og ætlan þessarar ríkisstj. að gera allt sem hún getur til þess að kaupmátturinn geti aukist og svo fljótt sem unnt er. Ég sagði í minni ræðu að ég tel eitt hið mikilvægasta í þessu þjóðfélagi að fá svigrúm til þess að koma hagvextinum af stað á ný, fá svigrúm til þess að hér komi á fót ýmsar greinar sem hafa, skulum við segja, meiri verðmætasköpun í för með sér en þær greinar sem við byggjum á nú.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson flutti hér mjög athyglisverða ræðu í gær. Hann velti m.a. upp þeirri mjög athyglisverðu spurningu hvernig má á því standa að þjóðartekjur á mann eru hér ekki miklu lægri a.m.k. en á Norðurlöndum. Engu að síður eru kauptaxtar hér á hvern klukkutíma aðeins um það bil helmingur. Þetta er mjög góð spurning. En hv. þm. svaraði henni sjálfur. Hann sagði: Hér á landi vinna menn tvöfaldan vinnutíma. Hér á landi vinna fleiri konur úti en í nokkru annarra Norðurlandanna. Eða m.ö.o., við höfum skapað þessar þjóðartekjur með gífurlega mikilli vinnu. Þess vegna er náttúrlega eðlilegra að bera saman tekjur fjölskyldunnar hér og tekjur fjölskyldna á Norðurlöndum. Það kann vel að vera að þær séu eitthvað lægri samt. Hins vegar sagði hann að skattar á Norðurlöndum væru miklu hærri en hér. Ég held satt að segja að það sé mjög mikið umhugsunarefni hvort við Íslendingar fáum haldið góðum lífskjörum til langframa á atvinnugreinum sem ekki skapa meiri verðmæti en því miður fiskvinnslan gerir, miðað við þær vinnustundir sem í hana eru lagðar. Staðreyndin er sú, að í flestum löndum eru vaxandi ýmsar atvinnugreinar með mjög mikilli verðmætasköpun og það hefur hækkað tímakaupið. Þess vegna held ég að þótt sjávarútvegurinn verði í framtíðinni ein meginstoð íslensks atvinnulífs, þá sé okkur lífsspursmál að fleiri og sem flestar greinar atvinnulífs með hærri verðmætasköpun fái fest hér rætur þannig að tímakaupið geti hækkað.

Hér var nefnt að mjög erfitt væri nú víða um land. Það er rétt og það er skiljanlegt. Erfiðleiki okkar stafar af erfiðleikum á sviði sjávarútvegsins og vitanlega lenda þeir erfiðleikar fyrst þar sem þungi sjávarútvegsins er mestur. Þetta liggur í hlutarins eðli. Þegar uppganga sjávarútvegsins var mikil fyrir örfáum árum voru tekjur manna t.d. á Vestfjörðum þær hæstu yfir allt land. Þetta helst í hendur. Þetta held ég að mönnum hljóti að vera ljóst.

Ég ætla út af fyrir sig ekki að flytja hér langt mál. Ég vona að þessi deila við BSRB leysist fljótlega. Ég skal ekki segja hvort sá fundur sem ég nefndi í upphafi sé mikilvægt spor í þá átt. En ég fagna því að ákveðið hefur verið að forustumenn BSRB hitti okkur fjmrh. og ég vona a.m.k. að það verði spor í átt til lausnar á þessari deilu. Og ég vona einnig enn að umr. hérna verði spor í átt til lausnar á deilum í landinu um kaup og kjör, verði spor í átt til heildarlausnar í kjaramálum.