22.04.1985
Efri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4420 í B-deild Alþingistíðinda. (3709)

407. mál, Sementsverksmiðja ríkisins

Flm. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 669 um Sementsverksmiðju ríkisins sem við flytjum Alþb.-mennirnir í Ed.

Við umr. um stjfrv. um Sementsverksmiðju ríkisins, þar sem lagt er til að fyrirtækið verði gert að hlutafélagi, lét ég þau orð falla í lok ræðu minnar að ég teldi vel farið með það mál ef hv. iðnn., sem hefði það til umfjöllunar, gæti tekið upp það frv. sem hæstv. iðnrh. flutti hér á þingi í fyrra um Sementsverksmiðjuna og að það yrði það frv. sem við gætum síðan samþykkt. Til þess að svo mætti verða flytjum við það frv. sem ég er hér að fjalla um. Það er að vísu nokkuð breytt frá því frv. sem ráðh. lagði hér fram í fyrravor, en að meginhluta samt það frv.

Á árinu 1983 skipaði Sverrir Hermannsson iðnrh. nefnd til þess að semja það frv. sem var lagt fram á vordögum. Í þeirri nefnd voru Ásgeir Pétursson bæjarfógeti og núverandi stjórnarformaður Sementsverksmiðjunnar, Björgvin Sigurðsson og Eiríkur Tómasson hæstaréttarlögmenn. Ef það frv., sem þeir sömdu og lagt var fram í fyrravor, hefði verið lagt fram aftur í þinginu, eins og nefnt var í aths. með þessu frv., er líklegt að með nokkrum breytingum hefði það hlotið samþykki Alþingis og ábyggilega ef þm. Framsfl. og Sjálfstfl. hefðu staðið að því stjfrv. eins öfluglega og þeir standa með flestum öðrum stjfrv.

Sömu rök fylgja frv. okkar og fylgdu því frv. sem lagt var fram . . . (Gripið fram í: Hvað meinar þm.?) Ég geri ráð fyrir að frv. ráðh. frá því í fyrravor mundi hafa verið samþykkt hefði það gengið hér fram á eðlilegan máta og hefði það verið stutt jafnrösklega og framsóknarmenn og sjálfstæðismenn styðja önnur stjfrv. Ég reikna með því að það hefði átt sér stað. Og ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. Davíð Aðalsteinsson hefði skotið sér þar nokkuð til hliðar heldur staðið þar öflugt bak við.

Það eru sömu rök sem fylgja þessu frv. og fylgdu því frv. sem ég hef nefnt hér áður. Þau voru þau fyrst og fremst að þörf væri á því að Sementsverksmiðjan fengi sérstök lög, en hún hafði starfað eftir heimildarlögum frá 1948 og því væri orðið tímabært að sefja verksmiðjunni heildarlög um rekstur hennar og stjórnun. Áður hafði reyndar verið skipuð nefnd til að semja lög um Sementsverksmiðjuna og skilaði hún frv. 1970, en það frv. varð ekki að lögum. Frv. þessu er ætlað að leysa af hólmi fyrrgreind heimildarlög og setja fyrirtækinu varanlegan starfsgrundvöll. Er því í þessu frv. að finna ýmis nýmæli um rekstur og stjórnun, atriði er varða fjármál, öryggismál, heilbrigðiskröfur, ráðstafanir gegn mengun og önnur sambærileg efni.

Með samþykkt þessa frv. okkar Alþb.-manna verða Sementsverksmiðjunni sett lög sem skapa fyrirtækinu framtíðarstarfsgrundvöll.

Ítrekuð er staða þess sem ríkisfyrirtækis, starfsfólki tryggður réttur til að hafa áhrif á stjórn þess, tekinn upp sá háttur að fyrirtækið haldi ársfund þar sem Alþingi og rn. fái aðstöðu til að fylgjast með starfsemi fyrirtækisins og ræða hana, um leið og aðrir viðskipta- og hagsmunaaðilar geta komið með ábendingar sínar um hvaðeina sem betur má fara hjá verksmiðjunni. Með ársfundi fengju stjórn og framkvæmdastjórar fyrirtækisins aukið aðhald og æskilegan vettvang til að gera almenningi grein fyrir gerðum sínum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara yfir hverja grein þessa frv. Um stöðu Sementsverksmiðjunnar var rætt ítarlega við umræðu um frv. ráðh. Ég legg til að við lok þessarar umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.