22.04.1985
Efri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4421 í B-deild Alþingistíðinda. (3712)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Enn er þetta hitamál komið til umr., hefur raunar lengi verið á dagskrá hér í deild. Ég vil fyrst finna að því að hér skuli ekki vera viðlátinn hæstv. viðskrh., en ef ég man rétt óskaði 9. þm. Reykv. eftir því að fram kæmu við þessa umr. peningapólitísk markmið ríkisstj. og raunar ýmis önnur markmið sem varða þetta frv. Ég vil þess vegna fyrir hans hönd og raunar mína eigin jafnframt mælast til þess að viðkomandi hæstv. ráðh. geri við þessa umr. grein fyrir því sem um var beðið og ég var að nefna. Ég held að það hljóti að vera útlátalítið og raunar útlátalaust að slíkar upp lýsingar, sem þar var beðið um, komi fram við umr. Ég ætla að vona að hæstv. ráðh. hafi verið gert viðvart um þessa umr. Nú er mér ekki kunnugt um hvort hann er í húsinu eða ekki.

Það má segja að erfitt sé að ræða þessi mál svona slitrótt, ef ég má svo að orði komast. Það er langt síðan mælt var fyrir nál. og þess vegna óhægara um vik en ella að ræða málið. Mér þykir nokkuð áberandi í allri umr., og ekki síst af hálfu flm. þessa frv. sem hér er um að ræða, að lítið er gert úr þeirri stjórnunaraðgerð sem innlánsbindingunni var a. m. k. ætlað að vera á sínum tíma. Það þarf ekki að rekja það hér, það hefur svo margoft komið fram, að um 1980, enda þótt þá væri 28% binding í reynd, virkaði bindingin ekki sem það stjórntæki sem ætlast var til, einfaldlega vegna þess að útstreymi fjár til þjónustu við atvinnuvegina var meira en sem nam innlánsbindingunni. Ástæðan fyrir því að þá voru veittar auknar heimildir til innlánsbindingar, sem voru að vísu aðeins notaðar að hluta, var einmitt þessi. Hitt er nokkuð athyglisvert að í lögunum frá 1957, þegar Landsbanka var skipt upp í viðskiptabanka og seðlabanka, voru engar takmarkanir á slíkum heimildum, þ. e. innlánsbindingu. Að vísu var hún ekki framkvæmd fyrr en eftir stofnun Seðlabankans. Heimildir voru til 25% bindingar. Það var 1979, eins og kunnugt er, sem þessi prósenta var hækkuð upp í 28%.

Ég hygg að það megi lengi della um til hvers slík binding leiðir, hvað hún er virkur þáttur í almennri efnahagsmálastjórn. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur lengi gert lítið úr innlánsbindingu og telur hana raunar undirrót margs ills þó ég kveði ekki fastar að orði. Hinu getum við ekki litið fram hjá að innlánsbinding af líku tagi og hér er er viðhöfð sums staðar þar sem peningamarkaður er vanþróaður (Gripið fram í: Þetta er rangt, algjörlega rangt.) eins og hér.

Nú geri ég ráð fyrir því að sá samanburður sem er í huga hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar sé fyrst og fremst varðandi þau lönd sem næst eru, vestræn ríki þar sem peningamarkaðir eru alla jafna þróaðri en hjá okkur. Og það er laukrétt, sem fram hefur komið hjá honum, að hlutverk seðlabanka í þessum löndum er að mörgu leyti mjög frábrugðið því sem hér er. En í þessari umr. um frv. hefur verið vikið að því að lög um Seðlabanka væru í endurskoðun, þar af leiðandi hlutverk Seðlabankans yfirleitt, og einhvern veginn finnst mér eðlilegt að bíða með svo miklar breytingar eins og hér er raunar gert ráð fyrir þangað til a. m. k. frumvarpsdrög um Seðlabanka liggja fyrir.

Nú vil ég taka það fram að ég hef ekki enn þá fengið nægjanlegan rökstuðning fyrir innlánsbindingarprósentu eins og staðan er í dag. Þó sýnist mér að sú innlánsbinding, 18%, sem kemur núna til framkvæmda sé lágmark með tilliti til ýmissa okkar aðstæðna. Ég veit að hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni er fullkunnugt um að að hluta til stendur þessi innlánsbinding undir okkar gjaldeyrisforða og að hluta til skuldum viðskiptabankakerfisins við Seðlabankann. Þá er ég ekki með afurðalán í huga.

Mér þótti nokkuð einkennileg afstaða hv. þm. Ragnars Arnalds, hv. 3. þm. Norðurl. v., í þessu máli. Ég get ekki að því gert. Mér fannst rökstuðningur hv. þm. bókstaflega þannig að nú hefðu ríkisstj. og stjórnarflokkarnir aukið allt frjálsræði í peningamálum til mikillar óþurftar, og fyrst stjórnarflokkarnir hefðu tekið þessa ákvörðun væri eðlilegast að gefa allt laust. Mér fannst rökstuðningurinn þannig. — Það skyldi þá bara taka því og því styddi hann þetta frv. og styddi það að 2 milljörðum yrði varpað hér út á hinn frjálsa peningamarkað. Ég biðst forláts mistúlki ég þá röksemdafærslu sem mér virtist hv. 3. þm. Norðurl. v. viðhafa.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að tala um þetta lengi. Það hefur verið vikið að því að vinnubrögð n. hafi verið mjög vönduð. Ég ætla alls ekki að fara að halda því fram að vinnubrögðin hafi verið óvönduð. Mér dytti aldrei í hug að halda því fram. Hins vegar sakna ég þess að í nál. skuli ekki vera sagt frá viðhorfum þeirra mektugu fulltrúa sem sóttu fundi n. Það er getið um að forsvarsaðilar viðskiptabankanna hafi mælt með því að þetta frv. næði fram að ganga, en það er ekki eitt orð um viðhorf þess aðila sem stjórnar fyrst og fremst þeirri stofnun sem lagðar eru ýmsar skyldur á herðar skv. lögum um Seðlabanka. En ég segi: Með frv. er verið að hluta til að kippa burtu að hluta til þeim myndugleika sem sú stofnun hugsanlega getur sýnt um stjórnun peningamála. Menn geta deilt um stefnur.

Ég gat þess í upphafi míns máls að hér hefði verið beðið um að hæstv. viðskrh. gæfi upplýsingar. Hv. 9. þm. Reykv. gerði það. Ég hafði raunar gert það líka fyrr við þessar umr. Reyndar fékk ég málinu frestað á sínum tíma vegna þess að mér þótti peningapólitískt markmið ríkisstj. ekki liggja nógu skýrt fyrir. Nú hef ég engin plögg í höndunum um það efni. Hins vegar hef ég leitast við að afla mér upplýsinga um það og ekki síst í samtölum við hæstv. ráðh. Ekkert hefur komið fram sem mér virðist réttlæta það að samþykkja þetta frv. Þetta frv. er ekki smámál. Ég vara við því að þm. láti stjórnast í afstöðu sinni til þess af einhverjum tilfinningahita til ákveðinna stofnana í landinu.

Ég fer fram á að skýr rödd hæstv. viðskrh. komi fram við þessar umr.