22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4440 í B-deild Alþingistíðinda. (3722)

423. mál, viðskiptabankar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er allviðamikið og á þessu stigi ætla ég ekki að ræða einstakar greinar þess. Ég er eiginlega dálítið hissa á því að seðlabankafrv. skuli ekki liggja þegar fyrir og ég óska eftir því að þetta frv. verði ekki afgreitt úr nefnd fyrr en frv. um Seðlabanka Íslands hefur verið vísað einnig til fjh.- og viðskn.

Ég vil líka óska eftir því, og beini því til hæstv. viðskrh., að fyrir liggi áður en seðlabankafrv. kemur hér til umræðu hvort og þá hvernig sé fyrirhugað að fækka ríkisbönkunum svo að hægt sé að ræða þau mál um leið og seðlabankafrv. verður tekið hér fyrir. Ég man ekki betur en hæstv. viðskrh. eða bankamálaráðherra hafi sagt frá því t. d. að ekki standi til að leggja niður Útvegsbankann eða hrófla við honum á neinn hátt. Sé það rétt munað þá er ekki nema um tvo banka að ræða og þá er spurningin hvorn þeirra á að leggja niður eða hvernig á að standa að því að sameina þessa banka ef það er fyrirhugað enn.

Ég vil enn fremur fara fram á það að þm. fái í hendur umsagnir ríkisbankanna um þau frv. sem milliþinganefndin um bankamálin samdi, bæði um Seðlabankann, ríkisbankana og sparisjóðina. Þetta eru nauðsynleg gögn fyrir þm. til að hafa í höndum og raunar hefði það verið eðlilegast að a. m. k. eitthvað úr þessum umsögnum hefði verið hér í grg. eða sem fskj. við þetta frv. sem við erum að ræða um.

Hv. 2. landsk. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var enn að tala um þetta leyndarmál sem hún telur að hafi verið upplýst í sambandi við bílafríðindi bankastjóra og telur að hér hafi komið upp hneykslismál sem sé þannig að ég held að það sé í hennar munni einsdæmi. Hvað halda menn að sé langt síðan að þessi fríðindi bankastjóranna voru tekin upp? Hvað halda menn að það sé langt? Ég hygg að það séu 50–60 ár síðan þessi fríðindi voru tekin upp, þ. e. bankastjórarnir höfðu aðgang að bifreiðum sem bankarnir áttu fram til 1970. Þá var gerð kerfisbreyting á þessu. Því miður er ég ekki með í höndum nú, en verð með það þegar þessi mál verða rædd síðar, bréf sem er gott að þm. fái hér að heyra. En hver var bankamálaráðherra þegar þessi breyting var gerð? Hver var bankamálaráðherra þá? Það var fyrrv. formaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason. Vilja hv. þm. Alþfl. halda því fram að Gylfi Þ. Gíslason hafi verið að gera eitthvert óhæfuverk þegar hann var að breyta þessu? Ég hygg líka að hægt væri að upplýsa það að þeir sem að því stóðu, þáv. fjmrh. Magnús heitinn Jónsson og Gylfi Þ. Gíslason, hafi talið sig vera að stíga þar skref til réttrar áttar frá því sem áður var. Og hver skyldi hafa verið formaður bankaráðs Landsbankans sem hefur yfirleitt verið forustubankinn í sambandi við öll launakjör bankastjóranna og fríðindi? Hver skyldi það hafa verið 1970? Baldvin nokkur Jónsson. Ég held að það væri betra fyrir þessa hv. þm. Alþfl. að athuga hvað er verið að tala um. Ég hygg að þeim þyki hart undir að liggja, Baldvini Jónssyni og Gylfa Þ. Gíslasyni, þeim umræðum sem hér hafa farið fram vegna þess að í sjálfu sér er fyrst og fremst verið að núa þeim um nasir að þeir hafi framið einhver óhæfuverk, því að það sem gert var nú var ekkert annað en formbreyting frá því sem áður var. Það var ekkert nýtt. Mér er ómögulegt annað, fyrst verið er að ræða þetta sí og æ hér, en að segja þessi orð. En ég skal ræða betur við þessa hv. þm. síðar.