22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4450 í B-deild Alþingistíðinda. (3730)

149. mál, siglingalög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég leyfi mér hér að mæla fyrir frv. til siglingalaga.

Þetta frv. er mikill lagabálkur upp á 243 greinar. Það var lagt fram í Ed. Alþingis á síðasta þingi og þá tók ég fram við framlagningu málsins að ég ætlaðist ekki til að það yrði afgreitt á því þingi, en mundi endurflytja það aftur á haustþingi sem ég og gerði og því var vísað fyrstu daga nóvembermánaðar til samgn. Mér finnst frv. þetta hafa verið æði lengi í vinnslu hjá n. í þeirri deild. Á því voru gerðar nokkrar breytingar, í raun og veru afar lítilfjörlegar efnisbreytingar, meira lagfært málfar, og liggur frv. nú fyrir eftir meðferð þess í Ed.

Mér þykir rétt að fara örfáum orðum um þennan mikla lagabálk.

Á síðasta áratug 19. aldar eignuðust Norðmenn, Svíar og Danir samræmda siglingalöggjöf sem var árangur norrænnar samvinnu á því sviði, en það var árangur af starfi samnorrænnar nefndar sem árið 1883 var skipuð til að vinna að undirbúningi nýrra samræmdra siglingalaga meðal Norðurlandaþjóða. Íslendingar tóku ekki þátt í þessu starfi. Skömmu eftir að stjórn Íslandsmála fluttist inn í landið var þó farið að huga að setningu íslenskra siglingalaga, en fram til þess tíma giltu hér að mestu úrelt ákvæði Jónsbókar, hinnar fornu lögbókar Íslendinga, um siglingar og siglingamálefni, einkum ákvæði í svokölluðum farmannalögum Jónsbókar.

Ný siglingalög voru sett árið 1913 sem að öðru verulegu leyti voru samin að fyrirmynd hinna norrænu siglingalaga. Þessum lögum var breytt næsta ár eftir gildistöku og þá gefin út í heild sem lög eða árið 1914. Meginstofn þeirra laga stóð allt til ársins 1963 er gerðar voru talsverðar breytingar á lögunum og þau síðan gefin út sama ár og sjómannalögin sem við ræddum áðan. Með þeim lögum var m. a. leitast við að samræma lögin ýmsum alþjóðasáttmálum á sviði siglinga. Enn fremur var haft mið af þeim breytingum sem gerðar höfðu verið á norrænni siglingalöggjöf. Lögunum frá 1963 hefur ekki verið breytt að neinu marki síðan. Þó hefur ákvæðum um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna verið breytt fyrst og fremst til samræmis við alþjóðasamþykkt frá árinu 1957.

Siglingar eru alþjóðleg starfs- og viðskiptagrein sem tekur stöðugum breytingum, m. a. vegna tækniframfara og nýjunga í viðskiptaháttum. Slíkri þróun fylgja ný lögfræðileg vandamál sem bregðast verður við með fullnægjandi löggjafarbreytingum meðal siglingaþjóða. Alþjóðlegrar samræmingar hefur mjög gætt meðal siglingaþjóða varðandi siglingalöggjöf og einstaka þætti hennar og hafa margir alþjóðasáttmálar verið gerðir á því sviði.

Á þeim rúmum tveimur áratugum sem liðnir eru frá setningu laganna hafa hinar Norðurlandaþjóðirnar gert heildarendurskoðun á sinni siglingalöggjöf. Ef undan er skilin breyting, sem gerð var á reglunum um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna 1968 og áður hefur verið getið um, hafa íslensku siglingalögin alls ekki verið færð til samræmis við hin endurskoðuðu norrænu siglingalög. Þar sem ljóst var að lögin frá 1963 þurftu endurskoðunar við þannig að samræmd yrðu lögum annarra Norðurlandaþjóða, en að jafnframt yrði tekið nægilegt tillit til íslenskra séraðstæðna eða sérþarfa á þessu sviði, þá skipaði þáv. samgrh. 8. sept. 1981 nefnd til að endurskoða gildandi siglingalög og sjómannalög, aðallega um réttindi og skyldur sjómanna og útvegsmanna í veikinda- og/eða slysatilfellum sjómanna, svo og líf- og öryggistryggingu sjómanna og gildissvið þeirra trygginga. Í þeirri nefnd áttu sæti fulltrúar sömu aðila og sömdu frv. til sjómannalaga og var formaður nefndarinnar Páll Sigurðsson dósent. Starf þessarar nefndar birtist í þessu frv. Þar er fjallað um flest hm sömu eða sambærileg efnissvið og getur að finna í þeim lögum sem enn eru í gildi, en í frv. eru þó ýmsar veigamiklar og víðtækar breytingar frá því sem er í gildandi siglingalögum. Margar þessar breytingar eiga rætur að rekja til nýlegra alþjóðasáttmála á sjóréttarsviði sem íslenska ríkið á ekki aðild að.

Efni þessa frv. skiptist í 16 kafla sem ég rakti þegar málið var fyrst lagt fram á þingi og sömuleiðis á s. l. hausti, en ég ætla ekki að fara að þreyta menn með því að fara nánar út í þá, enda er þetta mjög á sérsviði sem n. kemur til með að fara ítarlega í gegnum, en umsagnir munu sennilega liggja fyrir frá flestum þeim aðilum sem leitað var eftir umsögnum frá.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn. Þó að þessi mikli lagabálkur sé seint á ferðinni hér í þessari hv. þd. er ekki um að kenna ráðh. eða ríkisstj. þar sem þetta frv. var eins og ég sagði í upphafi máls míns flutt á s. l. ári og aftur í upphafi þessa þings, en ég vona að samgn. þessarar hv. deildar bregði fljótt við og vinni að afgreiðslu þessa máls.