22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4454 í B-deild Alþingistíðinda. (3737)

437. mál, almenn hegningarlög

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

Frv. þetta er samið í dóms- og kirkjumálarn. í samráði við ráðgjafa rn. í hegningarmálum, Jónatan Þórmundsson prófessor. Við samningu þess var einnig höfð hliðsjón af tillögum sem fram höfðu komið í hegningarlaganefnd sem starfandi var um nokkurra ára skeið.

Í frv. eru lagðar til breytingar á ýmsum greinum hegningarlaga, en einkum þó breytingar vegna þeirra sem afplána refsivist.

2. gr. fjallar um hvar taka skuli út refsivist. Þar er lagt til að í stað hegningarhúss sem úttektarstaðar verði kveðið svo á að refsivist skuli tekin út í þeim stofnunum sem til þess eru ætlaðar skv. lögum um fangelsi og vinnuhæli.

Í 2. málsgr. er nýmæli þar sem lagt er til að heimilað verði að handtaka dómþola sem færa á í úttekt refsivistar, hvort sem er vegna refsivistar sem dæmd er sem aðalrefsing eða vegna refsivistar sem er vararefsing fésektar. Talið hefur verið að ekki lægju fyrir bein lagaákvæði sem heimiluðu slíka handtöku og er lagt til að þetta ákvæði verði sett til að taka af öll tvímæli um lögmæti hennar.

Í 3. gr. frv. er kveðið á um hvernig 37. gr. hegningarlaganna skuli orðast og eru lagðar til nokkrar breytingar og viðbætur. Eru þær helstar að skýrt er kveðið á um skyldur til að greiða fanga laun fyrir vinnu hans í fangelsi, svo sem mælt er fyrir í 2. málsgr. 8. gr. laga um fangelsi og vinnuhæli, heimilað verði að fangi stundi vinnu, nám eða starfsþjálfun utan fangelsis, en ekki einungis útivinnu eins og nú segir í 2. málsgr. 37. gr., og einnig að heimilað verði að leyfa fanga skammtímadvöl utan fangelsisins án þess að um nám eða vinnu sé að ræða, enda sé slík dvöl utan fangelsisins talin heppileg fanga til endurhæfingar og aðlögunar að samfélaginu utan fangelsisins að refsivist lokinni.

Slík leyfi hafa um alllangt skeið tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Fangar hafa talsvert leitað eftir því að fá slík leyfi einnig tekin upp hér. Undanfarin misseri hefur verið gerð tilraun í smáum stíl með slík leyfi þannig að föngum sem hafa hlotið langa refsidóma hefur verið gefinn kostur á eins dags leyfi á hálfs árs fresti á síðasta hluta refsivistarinnar, enda hafi slíkt verið talið samræmast öryggiskröfum bæði af hálfu fangelsisstjóra og rn.

Greinin gerir ráð fyrir því að nánari ákvæði um framkvæmd þeirra atriða sem greinin fjallar um verði sett í reglugerð.

Í 4. gr. er fjallað um breytingar á 40. gr. hegningarlaganna. Í núgildandi lögum segir: „Þegar fangi hefur tekið út 2/3 hluta refsitímans, en þó minnst þrjá mánuði, getur dómsmrh. eða annað stjórnvald, sem hann felur úrlausn slíks máls, ákveðið að fanginn skuli látinn laus til reynslu.“

Í a-lið er lagt til að lágmarkstími fyrir þá sem hljóta reynslulausn að loknum 2/3 hluta refsitímans verði lækkaður úr þremur mánuðum í tvo mánuði. Með þessu er verið að stuðla að auknu notagildi ákvæðisins og draga úr notkun undantekningarákvæðisins í 2. málsgr. 40. gr. sem heimilar reynslulausn er helmingur refsitímans er liðinn. Jafnframt er verið að samræma ákvæðið samsvarandi ákvæðum í hegningarlögum hinna Norðurlandanna.

Í b-lið er lagt til að á eftir 2. mgr. 40. gr. komi ný mgr. sem segir að reynslulausn verði eigi veitt ef eftirstöðvar refsitímans eru skemmri en 30 dagar. Hér er fyrst og fremst verið að takmarka það ákvæði núgildandi 2. mgr. 40. gr. sem segir að reynslulausn megi veita, ef sérstaklega stendur á, þegar liðinn er helmingur refsitímans. Sú breyting sem hér er lögð til þýðir að ekki verður veitt helmingslausn til reynslu á skemmri dómum en tveggja mánaða refsivist. Þessi breyting er einnig gerð til samræmis við hliðstæð ákvæði í hegningarlögum hinna Norðurlandanna. Þá þykir óeðlilegt að veita reynslulausn af styttri dómum en tveggja mánaða refsivist.

Í 6. gr. er breyting á 47. gr. laganna. Núgildandi grein segir að „ákvæði um viðurlög við brotum fanga á reglum hegningarhússins skal setja í reglugerð.“ Þær reglur sem vísað er til hafa almennt ekki verið settar fyrir einstök fangelsi. Um það hvað er brot á reglum fangelsa ríkir óvissa. Í framhaldi af þessari lagabreytingu er ráðgert að setja í reglugerð um fangavist ítarleg ákvæði um beitingu agaviðurlaga.

Skv. ákvæði 50. gr. má nú eigi beita hærri fésekt en 1 millj. kr. nema heimild sé til í lögum. Í frv. er lagt til að hámarkið verði 4 millj. kr. Síðast var sektarhámarkinu breytt með lögum nr. 75/1982. Miðað við þróun verðlags frá þeim tíma er þessi hækkun nauðsynleg, en eðlilegt þykir að láta hámarkstöluna standa á heilli milljón kr. Þá er þess einnig að gæta að nú fylgja sektarákvæði sérrefsilaga sektarhámarki almennra hegningarlaga og er því nauðsynlegt að miða hámarkið einnig við þær breyttu aðstæður.

Í frv. eru einnig frekari breytingar á sektarmörkum. Með þessu frv. er um að ræða nokkra rýmkun og meiri sveigjanleika í sambandi við ákvæði hegningarlaganna sem ég vænti að hv. alþm. séu sammála um að séu eðlileg.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.