22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4457 í B-deild Alþingistíðinda. (3747)

Fundarseta þingmanna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli þm. á ef þeir hafa eins og ég fengið kennslubók frá Námsgagnastofnun sem fjallar um fundi, félög og lýðræði og heitir „Orðið er laust“ og er unnin af Námsgagnastofnun 1985 í samvinnu við menntmrn., skólarannsóknadeild. Á bls. 33 er mynd af hinu háa Alþingi og hæstv. forseta þess, Þorv. Garðari Kristjánssyni, og ég ætla að leyfa mér að lesa þann texta sem þar stendur:

„Hin almennu fundasköp, sem flest félög fara eftir, eru að nokkru leyti sniðin eftir þeim sem tóku gildi á Alþingi 19. nóv. 1930.“

Síðan segir: „Eins og vikið er að í kaflanum um fundi er mjög mikilvægt að allur undirbúningur hafi tekist vel. Eitt af því fyrsta sem þarf að gera er að boða fundinn. Nauðsynlegt getur reynst að geta um dagskrá fundarins þegar boðað er til hans svo að menn geti búið sig betur undir að ræða þau málefni sem þar á að leiða til lykta. Hvað fleira þarf að koma fram í fundaboðum? Á stærri fundum, þingum eða ráðstefnum er dagskrárliðum gjarnan áætlaður ákveðinn tími. Hvers vegna er það nauðsynlegt?“ eru nemendur spurðir.

Ég vil vekja athygli þm. á því að á Alþingi Íslendinga vita þm. aldrei hvað muni verða til umræðu á hverjum fundi þrátt fyrir boðaða dagskrá vegna þess að hér er gengið til dagskrár út og suður eftir því hvaða þm. þóknast að vera í salnum. Jafnvel ráðherrar eru ekki til staðar til að mæla fyrir frv. ríkisstj., sem jafnvel stjórnarandstöðuþm. telja ekki eftir sér að sitja fundi til að koma áleiðis, og annað þess háttar. Yfirleitt er allt annað það á dagskrá á hverjum þingfundi en það sem þm. höfðu skv. raðaðri dagskrá átt von á. Hér stendur í umræddu riti, sem á að kenna börnum landsins að fara að þeim fundarsköpum sem Alþingi hefur ákveðið, með leyfi forseta, á bls. 30:

„Það er nokkuð sama hversu áhugaverðan fund við undirbúum. Hann er nærri dæmdur til að mistakast ef undirbúningur er ekki nægur.“

Og svo stendur hér á bls. 27 og svo skal ég ljúka máli mínu, herra forseti:

„Nú á tímum er oft talað um fundaþreytu eða áhugaleysi fólks á að mæta á fundum. Áður fyrr virtist hins vegar auðveldara að fá fólk til fundahalda. Hvernig má skýra þetta? Hvers vegna virðist erfiðara að virkja fólk til félagsstarfs nú á tímum en áður var? Eða er erfiðara að virkja fólk til félagsstarfs nú á tímum en áður? Hvers vegna?“

Væri nú ekki ráð að gefa út annað slíkt rit og kanna hvers vegna hv. alþm. nenna ekki að taka hér þátt í löggjafarstörfum? Það er viðburður ef þm. stjórnarliðsins nenna að taka þátt í almennum þingstörfum. Það eru þá helst við stjórnarandstöðuþm. (Gripið fram í.) sem nennum að taka þátt í þingstörfum. (Gripið fram í: Þetta er órökstutt.) Þetta er auðvelt að rökstyðja með einfaldri talningu, hv. þm. Pétur Sigurðsson. (FrS: Hvar eru allir hv. þm. Alþb.?) Hér er spurt um þm. Alþb. Ekki hef ég hugmynd um hvar þeir eru niður komnir rétt í augnablikinu.

En í fullri alvöru, herra forseti. Hér er boðað til kvöldfundar. Á dagskrá er f. d. mál sem hefur verið nokkuð umdeilt hér í þinginu, á þó marga stuðningsmenn og hefur nú tekið nýja stefnu, en það er frv. mitt og fleiri hv. þm. um erfðalög. Ég krefst þess að það mál verði tekið á dagskrá þegar einhverjir þm. eru í salnum, a. m. k. einhver tala þeirra, því að ég þarf að skýra það mál. Undir það hef ég búið mig og ég krefst þess að þm. nenni að hlýða á mál mitt.

Ég vil að lokum benda á það algera virðingarleysi sem hér viðgengst gagnvart störfum starfsmanna Alþingis. Hér raða starfsmenn upp dag eftir dag og viku eftir viku sömu málunum sem jafnvel nál. liggja fyrir um. Hvað á þetta að þýða? Hvað eru þm. að gera? Mér vitanlega eiga þeir ekki að hafa aðra atvinnu en að sitja hér og taka þátt í löggjafarstörfum. Það er a. m. k. hráslagalegt að sjá hér kennslubækur um þingsköp, félagsstörf og lýðræði frá menntmrn. landsins á meðan Alþingi sjálft megnar ekki að hafa hér löglega fundi. Ég tel jaðra við það að hér séu teknar ólýðræðislegar ákvarðanir.