22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4458 í B-deild Alþingistíðinda. (3748)

Fundarseta þingmanna

Forseti (Karvel Pálmason):

Hv. þm. hefur lokið máli sínu. Vegna ummæla hv. þm. er út af fyrir sig rétt að ýmislegt af því sem fram kom af hennar munni á við suma, ekki alla. En að því er varðar dagskrána þá held ég að öllum hv. þm. sé ljóst að menn geta átt von á að öll mál sem eru á prentaðri dagskrá komi til umr. Það getur hins vegar verið eftir ýmsu í hvaða röð þau eru tekin og ástæðulaust að fjölyrða mikið þar um.

Varðandi kvöldfundinn, þá er rétt að taka það fram þannig að enginn misskilningur verði að meiningin er að ræða þar fyrst og fremst, og mér býður í grun að það verði nánast einvörðungu, lánsfjárlög, þannig að það komi hv. þm. ekki á óvart og þeir búi sig undir það fyrir kl. hálfníu að taka þátt í umr. um lánsfjárlög.

Meining mín var að halda ekki lengur fram fundi, en fundur hefst að nýju kl. hálfníu og verður þá gengið áfram á dagskrána. Fundi er frestað til kl. 8.30. –[Fundarhlé.]