22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4471 í B-deild Alþingistíðinda. (3753)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Samkvæmt lögum um stjórn efnahagsmála er ráð fyrir því gert að samtímis sé fjallað hér á hinu háa Alþingi um fjárbúskap ríkisins í heild, þ. e. fjárlög og lánsfjárlög, að lánsfjárlög séu lögð fram samtímis fjárlögum og um þau fjallað sem eina heild. Þetta styðst við augljós og eðlileg rök. Það má raunverulega lýsa lánsfjárlögunum sem afgangsstærðinni í ríkisbúskapnum, nánast eins og því sem sópað er undir teppið ef fjárlagaramminn sjálfur er sprengdur. Þess vegna styðst þessi lagasetning við augljós rök um hagkvæm og skynsamleg vinnubrögð. Árum saman í tíð margra ríkisstjórna frá því að þessi lög voru sett hafa þessi sjálfsögðu vinnubrögð verið höfð að engu. Þegar af þeirri ástæðu er algerlega út í hött að ræða ítarlega og í smáatriðum um lánsfjárlögin sjálf vegna þess að tillögugerð stjórnarandstæðinga hlýtur að koma fram við afgreiðslu fjárlaga og þegar þeim till. hefur verið hafnað standa menn frammi fyrir því að taka afstöðu til einhverra framkvæmda sem eru á óskalista manna, en það er búið að hafna þeirri útgönguleið að afla fjár til þessara framkvæmda með öðrum hætti en þeim að auka erlendar skuldir. Þegar af þessari ástæðu munum við Alþfl.-menn ekki taka þátt í atkvgr. um þessi lánsfjárlög, ekki aðeins í mótmælaskyni við efnislegt innihald þessara laga heldur ekki síður sem afleiðingu af því að þessum sjálfsögðu vinnubrögðum hefur verið hafnað eins og auðvelt er að færa rök fyrir.

Sé það vilji núv. hæstv. ríkisstj. að standa við þau fyrirheit sem hún taldi stærst í upphafi ferils síns, nefnilega þau að stöðva erlenda skuldasöfnun, getur hún ekki gert það með öðrum hætti en þeim að stokka upp ríkisbúskapinn strax við afgreiðslu fjárlaga og gera það samtímis og um leið og lánsfjárlög eru afgreidd. Ef menn vilja draga úr aukningu erlendra lána verða menn að mæta því vandamáli með öðru hvoru eða hvoru tveggja, niðurskurði á útgjöldum ríkisins eða annars konar innlendri tekjuöflun. Þegar þeirri leið hefur verið hafnað við afgreiðslu fjárlaga og menn standa frammi fyrir orðnum hlut um aukningu erlendra lána til þessara framkvæmda er ógjörningur fyrir stjórnarandstöðuna að gera annað en að segja einfaldlega: Berðu sjálfur fjanda þinn, hæstv. fjmrh.

Veruleikaflóttinn í efnahagsstjórn Íslendinga hefur staðið lengi og má lýsa honum á margan veg. Ein dæmisaga um það gæti verið á þessa leið:

Það er jafnárviss atburður í íslensku þjóðlífi og koma kríunnar að seðlabankastjórn kallar alla helstu ráðamenn þjóðarinnar á sinn fund, svona á útmánuðum, — það fer senn að líða að þeim árvissa atburði í íslensku þjóðlífi, — og þessi fundur heitir aðalfundur Seðlabankans. Þar hlýða ráðamennirnir á erkibiskups boðskap. Þangað er stefnt öllum ráðh. og öllum bankastjórunum og öllum kommissörunum og öllum ríkisforstjórunum, öllum mandarínum hins íslenska kerfis, til þess að hlýða á erkibiskups boðskap, þ. e. boðskap seðlabankastjóra.

Boðskapur seðlabankastjóra er ekki aðeins árviss heldur er hann ávallt hinn sami. Hann er þessi: Seðlabankastjóri áminnir saman komna ráðamenn um að það sé mikið jafnvægisleysi sem einkenni íslenskan þjóðarbúskap og það sé mjög þung undiralda sterkra verðbólgutilhneiginga. Þess vegna ríði nú á sem aldrei fyrr að ráðamenn þjóðarinnar sýni festu og gangi á undan öðrum með góðu fordæmi um að ástunda hinar fornu dyggðir um sparsemi, ráðdeild og aðhaldssemi í opinberum rekstri. Það er áréttað að ástæður fyrir þessum verðbólgutilhneigingum séu fyrst og fremst þær að þjóðin hafi lifað um efni fram. Þess vegna eru ráðamenn sérstaklega áminntir um að sýna nú festu gagnvart hóflausum kaupkröfum lýðsins sem muni sliga þjóðarbúskapinn, raska jafnvæginu og stefna verðbólgunni til himinhæða. Að lokum eru saman komnir ráðamenn áminntir um að sýna nú festu sem aldrei fyrr gagnvart þessum hóflausu kaupkröfum kröfugerðarþjóðfélagsins vegna þess að það séu engir peningar til.

Ræður ráðh. hafa flestar verið eins og tilbrigði við þetta stef seðlabankastjórans síðustu áratugina. Þjóðin hefur lifað um efni fram. Forsendan fyrir því að halda jafnvægi og stöðugleika, endurreisa efnahagslífið, finna rekstrargrundvöllinn og það allt saman er að sýnd verði í verki sparnaðarvilji og aðhaldssemi í rekstri og menn eru áminntir um að stilla kröfum í hóf vegna þess að það eru engir peningar til.

Stefnuyfirlýsing hæstv. ríkisstj., þegar hún settist að völdum, var tilbrigði við þetta stef. Menn voru áminntir um hrikalegar afleiðingar af efnahagsóstjórn þriggja vitlausra vinstristjórna og loforðin voru gefin. Núv. hæstv. ríkisstj. lofaði því í fyrsta lagi að koma á jafnvægi í ríkisbúskapnum, að stöðva hallarekstur í ríkisbúskapnum, að binda endi á aukningu erlendra skulda, stöðva erlenda skuldasöfnun og að draga úr og afmá að lokum viðskiptahalla í viðskiptum þessarar þjóðar við útlönd sem hefur verið óslitið öll árin frá 1971 nema eitt. Því næst átti að sjálfsögðu að finna rekstrargrundvöll atvinnuveganna. Þessi loforð áttu að endurspeglast í jafnvægisstefnu á fjármálamarkaðinum með aðhaldssemi í aukningu peningamagns og hóflegum vöxtum. Þetta voru hin fögru fyrirheit.

Þetta frv. til lánsfjárlaga er enn ein staðfesting þess að hæstv. ríkisstj. hefur ekki bara mistekist eins og mörgum öðrum ríkisstj. hefur mistekist. Það er ekki hægt að kalla það mistök þegar ríkisstj. er uppvís að því að hún hefur ekki einu sinni uppi viðleitni til þess að standa við eitt einasta af þeim stóru og þýðingarmiklu kosningaloforðum sem hún gaf, enda finnst nú ekki sá kjarkmaður meðal sjálfstæðismanna, þrátt fyrir ályktanir á landsfundi, að hann treysti sér til að standa upp á mannfundum og halda því fram að ríkisstj. og sérstaklega stærsti flokkurinn, Sjálfstfl., hafi staðið við eitt einasta af kosningaloforðum sínum.

Sú saga er sögð að helstu mandarínar Sjálfstfl. hafi komið saman til fundar til að bera saman bækur sínar um hrun fjármálastjórnar ríkisins undir stjórn núv. hæstv. fjmrh. Þeir fóru yfir dæmið eins og það stendur í dag. Það var farið yfir það að gatið á hæstv. fjmrh. var í fyrra bara 2 milljarðar og rimpað upp í það með venjulegum aðferðum í hefðbundnum stíl með erlendum lánum. síðan var á það bent að gatið á hæstv. fjmrh. í ár er í reynd 9 milljarðar þegar ríkisbúskapurinn er skoðaður í heild: Það er 735 millj. hallarekstur á fjárlögum sem ástæða er til að ætla að verði meiri og er óhætt að fullyrða að verði um milljarður. Í annan stað er um að ræða áform sem birt eru í frv. til lánsfjárlaga um nettóaukningu nýrra erlendra lána um tæpa 3 milljarða. Og loks er þess að minnast að s. l. ár var gert upp með tæplega 5 milljarða erlendum viðskiptahalla. M. ö. o.: 9 milljarða gat.

Þetta staðfestir að fjármálastjórnin hefur gersamlega mistekist, en það er ein af meginástæðunum fyrir því að þessari ríkisstj. hefur mistekist. Það er haldið áfram á sömu braut. Þess vegna var það að mandarínar Sjálfstfl., sem fóru yfir þessi mál ásamt með vaxtastefnu Seðlabanka og rekstrargrundvallarleysi sjávarútvegs, spurðu: Er raunverulega svo komið fyrir núv. hæstv. ríkisstj. að hún sé komin í nákvæmlega sömu spor og fyrrv. hæstv. ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens sem sætti hvað þyngstum ákúrum af hálfu sjálfstæðismanna? Sagt er að formaður ráðherraflokks þeirra sjálfstæðismanna hafi loksins kveðið upp úr með það að þetta væri rétt greining, það væri komið eins fyrir þessari hæstv ríkisstj. og fyrir fyrirrennara hennar sem hún átti þó að leysa af hólmi til að snúa blaðinu gersamlega við vegna þess að Sjálfstfl. aflaði sér fylgis í seinustu kosningum út á það fyrst og fremst að hann hefði til að bera burði, kunnáttu og ábyrgð til þess að snúa þessari efnahagsþróun við.

Fyrir seinustu kosningar voru þeir sjálfstæðismenn fremstir í flokki þegar þeir vönduðu um við þjóðina, brýndu hana um alvöru þess máls að við værum skuldugasta þjóð í heimi. Þá stefndi allt í það að langtímaskuldir okkar nálguðust 60% árlegrar þjóðarframleiðslu. Á það var minnt að allt of stór hluti af árlegri gjaldeyrisöflun okkar færi í að greiða afborganir og vexti af erlendum skuldum. Á það var minnt að búið væri að veðsetja lífskjör þjóðarinnar fram í tímann vegna erlendrar skuldasöfnunar. Og loforðin voru, eins og ég sagði, að þessu skyldi snúið við, nú skyldi stóri flokkurinn, Sjálfstfl., sýna að hann hefði vit á fjármálum og láta verkin tala og sýna fram á þann mun sem væri á þegar sjálfstæðismenn stýrðu þjóðarskútunni af reynslu sinni úr fjármálalífinu eða hinar vitlausu og glötuðu vinstristjórnir sem lifðu í draumheimum óskhyggjunnar og á linnulausum flótta undan hörðum staðreyndum veruleikans:

Hrun þessara fyrirheita, hinar stórkostlegu vanefndir þessarar ríkisstj. staðfesta að það var réttur úrskurður sem upp var kveðinn á fundinum góða. Núv. ríkisstj. hefur haldið áfram á nákvæmlega sömu leið og fyrirrennari hennar, þ. e. við sökkvum og sökkvum, dýpra og dýpra í fenið.

Þetta er ekki upprifjun á staðreyndum um liðna tíð, þetta er fyrst og fremst hrollvekja um það sem fram undan er því að þegar svo er komið að af hverjum fjórum fiskum sem dregnir eru á land eru tveir eyrnamerktir erlendum lánardrottnum í formi greiðslna á vöxtum og afborgunum skulda og vegna nauðsynlegrar gjaldeyrisnotkunar sjávarútvegsins sjálfs, þá sjá menn í hendi sér að þessar staðreyndir munu móta efnahagsþróun og lífskjaraþróun á Íslandi á næstu árum. Svigrúmið til að snúa við er sífellt að minnka. Við getum ekki ævinlega treyst því að skaparinn sendi okkur í mildi sinni happdrættisvinning í formi aukins afla eða bættra viðskiptakjara. En ef það gerist ekki er alveg sýnt að þegar þessi ríkisstj. loksins leggur upp laupana skilur hún eftir sig enn þá meira þrotabú en fyrirrennari hennar. Vandinn að snúa af þessari braut glötunar verður enn þá erfiðari viðfangs.

Hrikalegustu staðreyndirnar um þessi lánsfjárlög eru að hér er enn gert ráð fyrir að auka mjög verulega erlendar skuldir. Það stefnir í að langtímaskuldir okkar verði enn hærra hlutfall af þjóðarframleiðslu okkar. Það stefnir í að greiðslubyrðin af þessum skuldum verði enn þá hærra hlutfall af gjaldeyrisöflun okkar.

Alvarlegasti þáttur þessa máls er vafalaust orkugeirinn. Meira en helmingur af öllum þeim erlendu lánum sem tekin hafa verið á undanförnum árum hafa verið notuð til að fjárfesta í orkumannvirkjum og orkudreifingarkerfum. Þetta hefur verið gert þrátt fyrir þá staðreynd að nú er svo mikil umframorka í þessu kerfi að samsvarar heilli stórvirkjun og þetta hefur verið gert með þeim hætti að ráðh. þessara mála hafa látið sér það sæma að beygja sig undir kröfu heimtufrekra kröfugerðarhópa, eins og t. d. varðandi Blöndu, með því að greiða úr sameiginlegum sjóðum okkar að ástæðulausu stórfé til hagsmunahópa með þeim afleiðingum að sérfræðingar áætla að framleiðslukostnaður orku frá Blöndu verði af þessum sökum einum a. m. k. 2 millidölum hærri en ella, en það gæti einmitt skipt sköpum um hvort þessi orka er seljanleg eða ekki.

Annað hrikalegt dæmi um ábyrgðarlausa fjármálastjórn gerðist í fyrra þegar ráðh. létu sér það sæma í tímahraki og vandræðum sínum út af gatinu á hæstv. fjmrh. að taka erlent lán að upphæð 190 millj. kr. á dýrum dollaravöxtum til að endurlána til langs tíma á niðurgreiddum vöxtum til þess að ná endum saman í húsnæðismálum. Bara við seinustu gengislækkun hækkaði kostnaðurinn af þessu láni um 60 millj. í einu vetfangi. Nú er enn stefnt í það að reyna að leysa þessi mál, ekki með innlendri fjáröflun heldur með auknum erlendum lántökum.

Nú er fljótsagt að fjármögnun húsnæðislánakerfisins með þeim hætti að vísa byggingarsjóðum ríkisins og verkamanna á lánamarkað innanlands hefur þegar brugðist. Sú stefna var tekin upp árið 1980 í ráðherratíð þeirra Alþb.-manna í fjmrn. og húsnæðismálarn. og hefur haft alveg hörmulegar afleiðingar. Þarna var tekin upp sú stefna að ætla að fjármagna útlán byggingarsjóðanna með því að láta þá taka lán á innlendum lánsfjármarkaði, lán á hærri vöxtum og til skemmri tíma en þau eru aftur lánuð út á. Vaxtamunurinn hefur nú leitt til þess að svokallaðir tekjustofnar eru orðnir að útgjaldaliðum. Nú stefnir t. d. í það í fyrsta sinn að Byggingarsjóður ríkisins greiði á þessu ári til baka af skuldum. sem núna eru orðnar fyrir báða sjóðina um 3.3 milljarðar, hærri upphæð til lífeyrissjóðanna en hann fær í skuldabréfum frá sjóðunum. M. ö. o.: þá væru allir helstu tekjustofnar húsnæðislánakerfisins orðnir neikvæðir. Það eru engin framlög frá Atvinnuleysistryggingasjóði, skyldusparnaðurinn er neikvæður sem nemur háum upphæðum og nú er trúlegt að það verði meiri greiðslur til baka til lífeyrissjóðanna en fást frá þeim. Þá er vandinn leystur, bilið brúað með því að leita á erlendan lánamarkað. Það er ástæðulaust að hafa um þetta stór orð. Þetta er með öllu ábyrgðarlaus fjármálastjórn. Hún er í anda þeirra ráðleysingja fyrri tíðar sem sögðu: Það flýtur á meðan ekki sekkur og það lafir á meðan ég lifi. Fjandinn hirði svo afleiðingarnar. Það eru aðrir sem eiga að taka við.

Ég sagði áðan að það væri ógerningur fyrir stjórnarandstæðinga, sem hafa allt aðra stefnu í ríkisfjármálum en hér er boðuð, að koma henni til skila með sérstakri tillögugerð þegar kemur að afgreiðslu lánsfjárlaga. Ástæðan fyrir því er sú að stjórnarandstæðingar hljóta þegar við afgreiðslu fjárlaga að flytja sínar till. Þær geta lotið annars vegar að tillögugerð um að draga úr ríkisútgjöldum eða að tillögugerð um að auka innlenda tekjuöflun. Ég rifja upp að við afgreiðslu fjárlaga gerðum við þm. Alþfl. hvort tveggja. Við lögðum þá til að tekjuöflun ríkissjóðs yrði aukin með ýmsum leiðum til að koma í veg fyrir að við þyrftum, til þess að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir, að leita áfram í vaxandi mæli á erlenda lánsfjármarkaði. Ég rifja upp að við lögðum til að hækka skattheimtu á skrifstofu- og verslunarhúsnæði um 85 millj. kr. Við lögðum til að auka skatta á innlánsstofnanir um 75 millj. kr. Við lögðum til að hluti af áætluðum hagnaði Seðlabankans yrði tekinn í ríkissjóð, þ. e. 90 millj. kr. umfram það sem áætlað er. Því næst lögðum við til breytingar á skattakerfi söluskatts sem hefði leitt til þess með niðurfellingu á undanþágum að tekjur ríkissjóðs af söluskatti hefðu aukist um 2 milljarða kr. Og við lögðum til, eins og við höfum lagt til í þáltill. á þinginu í vetur, að tekin yrði upp til tveggja ára nýr stighækkandi eignarskattsauki á u. þ. b. 12–15% þeirra stóreignafyrirtækja og stóreignamanna sem fyrst og fremst hafa komist yfir þessar stóreignir í skjóli óðaverðbólgu, neikvæðra vaxta og hins hripleka skattakerfis á undanförnum verðbólguáratug. Þar með lögðum við til að tekjuöflun ríkissjóðs yrði aukin um 3.2 milljarða kr. allt í allt. M. ö. o.: það er ámóta upphæð og hér er verið að leggja til að verði aflað með nýjum erlendum lánum til að binda framtíðinni enn þá þyngri byrðar og til að árétta að hæstv. ríkisstj. meinti ekkert og meinar ekkert með yfirlýsingum sínum um að það sé lífsnauðsyn þessari þjóð að snúa við blaðinu, að stöðva hinar erlendu lántökur umfram brýnustu endurfjármögnun eldri lána.

Það er ekki einasta að við höfum lagt til aukna tekjuöflun til að koma í veg fyrir það neyðarbrauð að auka enn erlendar lántökur. Við höfum lagt til á þessu þingi, bæði í fyrra og í ár, allt annars konar tillögur um fjáröflun vegna húsnæðislánakerfisins. Við höfum margsinnis flutt till. um uppstokkun fjárlaganna að því leyti að við höfum flutt till. um að draga úr stórum útgjaldaliðum sem nú eru og færa það fjármagn til annarra nota. Ég nefni hér sem dæmi: Hversu lengi höfum við ekki bent á að þjóð sem er einhver hin skuldugasta í heimi, sem hefur veðsett þjóðarframleiðslu sína og lífskjör erlendum lánardrottnum, hefur ekki efni á því, hreinlega ekki efni á því, að verja allt að 600 millj. kr. til matargjafa til útlendinga, reyndar einhverra efnuðustu nágrannaþjóða okkar, Bandaríkjanna, Skandinavíu, Bretlands og Þýskalands? Þessum peningum væri mun betur varið til annarra hluta. Og það er engin árás á réttmæta hagsmuni bænda þó að á þetta sé bent og það er búið að benda á þetta áratugum saman, en talað hér fyrir daufum eyrum.

Við höfum bent á ýmislegt í fjárlögum ríkisins sem kenna má við velferðarkerfi fyrirtækjanna, þ. e. framlög til atvinnustarfsemi sem engin ástæða er til annars en að standi undir sér sjálf, selji vörur eða þjónustu á því verði að ekki þurfi að koma til millifærslur og niðurgreiðslur skattgreiðenda. Velferðarkerfi fyrirtækjanna tekur a. m. k. 2–21/2 milljarð kr. í fjárlögum ríkisins. Við höfum jafnframt nefnt að ef við meinum eitthvað með því, sem við segjum, að við þurfum að draga úr erlendri lánsfjáröflun, þá getum við því aðeins staðið við það í verki að við komum fram með tillögur með niðurskurð á ríkisgeiranum, tillögur um að sneiða fitulagið af þessum margumrædda ríkisgeira, m. ö. o. tillögur um að færa tekjur frá ríkinu til atvinnulífs og einstaklinga, m. a. með þeim rökum að oft og tíðum er farið býsna illa með fé í þessum ríkisgeira. Þegar um er að ræða að hagkvæmnisrök bendi til þess að einhver starfsemi á vegum ríkisins sé betur komin í höndum einkaaðila er það sjónarmið hvorki til hægri né vinstri, heldur einfaldlega í þágu þjóðarinnar og í þágu skattgreiðenda og í þágu launþega alveg sérlega að þessi starfsemi sé ekki styrkt eða henni haldið uppi á sköttum almennings, heldur látin standa undir sér sjálf. Þetta er ekki spurning um hugmyndafræði. Þetta er einfaldlega spurning um hagfræði.

Ef hæstv. fjmrh. hefði eitthvað meint með loforðum sínum, sem hann er orðinn frægur fyrir að hafa gefið í tíma og ótíma, um að hann ætlaði að segja af sér ef hlutfall erlendra langtímalána af þjóðarframleiðslunni færi yfir 60%, þá hefði hann náttúrlega sýnt það í verki því að kjörorðið á að vera að láta verkin tala. Og hann hefði sýnt það strax í fyrstu fjárlögum sínum og afdráttarlaust í þeim fjárlögum sem hann lagði til nú. M. ö. o.: þá hefði hann lagt fram tillögur um hvort tveggja að skera niður útgjöld ríkisins, láta þar koma fram þau sjónarmið sem ráðandi eru innan ríkisstj. um hvað ætti að hafa þar forgang og í annan stað hugsanlegar tilögur um að afla innanlands aukinna tekna til þess að hann stæði ekki frammi fyrir þessum vanda sem afgangsstærð þar sem hann getur ekki staðist ágang þrýstihópa og samstarfsaðila að sópa öllu undir teppið, að leysa vandann á kostnað framtíðarinnar, að auka vandann með nýjum, auknum erlendum lántökum. Þetta hefði átt að vera tiltölulega auðskilið mál fyrir hæstv. fjmrh. sem helsta talsmann Sjálfstfl. sem í orði kveðnu segist einmitt vera þessarar sannfæringar og þessarar skoðunar sem kemur fram á landsfundum og á tyllidögum og áréttar það í yfirlýsingum sínum að þetta sé stefna Sjálfstfl. En það virðist vera óvinnandi vegur að láta verkin tala og óendanlega löng leið frá landsfundinum í Laugardalshöll til fjmrn., Albert Hall við Lindargötu.

Það er e. t. v. sérstök ástæða til að rifja einu sinni upp fyrir hv. þm. ummæli hins unga og snjalla hagfræðings þeirra sjálfstæðismanna, hagfræðings Vinnuveitendasambandsins og helsta ráðgjafa formanns Sjálfstfl., þegar hann lítur til baka yfir óstjórnartímabil þríflokkanna, framsóknar, Alþb. og Sjálfstfl., og kemst að þeirri niðurstöðu að fórnarkostnaður þessa áratugar væri u. þ. b. 25 milljarðar kr., þ. e. nákvæmlega sama upphæðin og fjárlög ríkisins eru í ár, þriðjungur af okkar þjóðarframleiðslu. Rök hans voru þau að ef öll þessi erlendu lán, sem við erum nú hér enn einu sinni að ræða, hefðu skilað okkur lágmarksarði, þ. e. ekki minni arði en gerðist á áratugnum næst á undan, værum við núna hvorki meira né minna en 25 milljörðum kr. ríkari en við erum í dag. Þetta eru fjárlög ríkisins í heilu lagi, þriðjungur okkar þjóðarframleiðslu.

Ef þessir peningar væru til og ef þeir væru til ráðstöfunar værum við ekki að ræða svona lánsfjárlög. Þá væri ekki spurningin lengur um að auka enn á skuldasúpuna. Þá væru væntanlega forsendur fyrir því að draga úr lánum og byrja að greiða þau niður. Þá væri væntanlega auðfundnari rekstrargrundvöllur útflutningsatvinnuveganna. Þá værum við væntanlega í stakk búin til þess að greiða ögn hærri laun en þá ölmusu, þriðju lægstu laun í Evrópu, sem nú þykir við hæfi að greiða vinnandi fólki á Íslandi fyrir heiðarlegt vinnuframlag. Þetta er fórnarkostnaður óstjórnarinnar. Spurningin er fyrst og fremst sú: Hvernig í ósköpunum stendur á því að mennirnir hafa ekkert lært af öllum þessum mistökum? Þessi lánsfjárlög staðfesta að þeir hafa engu gleymt og þeir hafa ekkert lært og þeir halda áfram á nákvæmlega sömu braut — norður og niður.

Auðvitað ættu þess að sjást merki í fjárlagagerð fjmrh. Sjálfstfl. að hann meinti eitthvað með margendurteknum kosningaloforðum, stefnuyfirlýsingum fyrir og eftir kosningar, sem fram hafa komið frá Sjálfstfl., um nauðsyn þess að skera niður í ríkisbúskapnum, um nauðsyn þess að breyta innlendri tekjuöflun á þann veg að við gætum hafnað þeirri leið að ætla að byggja efnahagsstarfsemina á að forða atvinnuleysinu með sívaxandi erlendri skuldasöfnun. Auðvitað ættu þess að sjást merki í fjárlagatillögum hans og ríkisbúskap hans að hann væri reiðubúinn að breyta á róttækari máta því spillta pólitíska skömmtunarkerfi sem leitt hefur af sér öll þessi mistök. Í reynd er óskiljanlegt með öllu hvernig á því stendur að fjármálapólitík núv. hæstv. ríkisstj. er nákvæmlega sama fjármálapólitíkin og kenna má við samstarfsflokkinn, þ. e. þessa framsóknarheimspeki um að láta hverjum degi nægja sína þjáningu, að ástunda pólitík með hugarfari veruleikaflóttans, að láta allt reka á reiðanum, taka aldrei nauðsynlegar ákvarðanir, breyta aldrei því sem breyta þarf, skilja ekki að það kerfi sem menn starfa í er meira og minna gagnslaust og ónýtt, skattakerfið að hruni komið vegna ranglætis og eins og gatasigti, húsnæðislánakerfið í rústum og meira að segja lífeyrisréttindakerfið — og á ég þá við lífeyrissjóðakerfið — himinhrópandi ranglátt. Það virðist vera einkenni á stjórnmálamönnum hægri flokkanna á Íslandi að þeir meina ekkert með því sem þeir segja. Stefnuyfirlýsingarnar eru bara upp á punt. Hugmyndafræðin er ekki til. Og þeir virðast ástunda þessa pólitík með þeim hætti að upphefðin ein og metnaðurinn eru nóg. Þeir eru svo víðs fjarri því að láta verkin tala sem verið getur. Þeir virðast alls ekki skilja, þeim virðist vera fyrirmunað að skilja að það er svo illa komið fyrir þessu þjóðfélagi að allur almenningur er búinn að gera sér það ljóst að ef við höldum áfram á þeirri braut sem mörkuð er í þessum plöggum hér getur tilraunin með lýðveldið Ísland ekki staðist mikið lengur. Ef við höldum áfram næstu fimmtán árin eins og við höfum gert s. l. fimmtán ár er það meira en lítil bjartsýni að gera sér vonir um að sú tilraun geti tekist. Þegar búið er að veðsetja lífskjör þjóðarinnar tíu ár fram í tímann erlendum lánardrottnum og haldið er áfram á sömu braut virðast þessir menn vera ósköp einfaldlega þannig vaxnir að heyrandi heyra þeir ekki og sjáandi sjá þeir ekki.

Það er auðvelt að koma með klisjur eins og þær að Sjálfstfl. sé andvígur skattahækkanaleið og Sjálfstfl. undir stjórn núv. fjmrh. muni ekki hækka skatta. Að vísu er auðvelt að benda á það að skattbyrði ýmissa hópa í þjóðfélaginu hefur aukist hlutfallslega. En skattbyrði þeirra sem fyrst og fremst tilheyra hinu óopinbera neðanjarðarhagkerfi hefur verið léttbærari í tíð þessarar ríkisstj. En kjarni málsins er þessi: Hvernig ætlar núv. ríkisstj. að standa við fyrirheit sín um að draga úr erlendri lánsfjáröflun ef hún ekki er tilbúin að gera neinar þær breytingar sem gera þarf til þess að það verði framkvæmanlegt? Það eru engar aðrar leiðir til en að skera verulega niður ríkisútgjöld, færa verulega til fjármuni, sem nú er illa varið í ríkiskerfinu, til annarra hluta sem við þurfum að verja til fjármunum. Þá er fyrst og fremst um að ræða fjárframlög til að byggja upp nýjar vaxtargreinar í atvinnulífinu sem gætu orðið til þess að standa undir batnandi lífskjörum eftir nokkur ár, niðurskurð á velferðarkerfi fyrirtækjanna og breytingar á skattkerfi vegna þess að tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs er alveg augljóslega að hruni komið. Það fer ekkert milli mála að tekjuskattakerfið er ranglátt. Stór hluti þjóðarinnar hefur vanist því og hefur tök á því að smokra fram af sér eða hafa sjálfdæmi um hvað hann greiðir raunverulega af sínum tekjum. Söluskattskerfið er hriplekt og sú eigna- og tekjutilfærsla sem átti sér stað á umliðnum tíu, fimmtán árum í skjóli óðaverðbólgunnar, í skjóli hinna neikvæðu vaxta, í skjóli þessa leka skattakerfis hefur leitt til þess að það er kominn fram á sjónarsviðið lúxusklassi, stóreignahópur, stóreignafyrirtæki sem hafa raunverulega fengið eignir sínar að verulegu leyti að gjöf frá þjóðfélaginu. Það eru ósköp einfaldlega stéttarlegir fordómar að berjast gegn því réttlætismáli að þessir aðilar greiði til baka til þjóðfélagsins hluta af þeim auði sem þeir hafa þegið að gjöf frá þjóðfélaginu.

En það vottar hvergi fyrir slíkri hugsun. Það vottar hvergi fyrir neinum breytingum. Það vottar hvergi fyrir neinum skilningi á því að þetta kerfi í heild sinni er að niðurlotum komið. Það er óskilvirkt, það er spilli, það er ranglátt. Það er raunverulega það sem er undirrótin að þeim trúnaðarbresti sem fyrir löngu er orðinn og er orðinn magnaður milli stjórnmálamanna og almennings í landinu, sérstaklega þess hluta hans sem færir allar fórnirnar, ber allar byrðarnar, en horfir um leið á þjóðfélagshóp sem hefur sagt sig úr lögum við hið opinbera þjóðfélag og nýtur forréttinda, ýmist löglegra eða ólöglegra.

Það er með þessum rökum, herra forseti, sem við lýsum þeirri afstöðu okkar að við munum ekki greiða atkv. um þessi lánsfjárlög. Við lýsum ábyrgð á hendur þeim ráðh. og þeirri ríkisstj. og þeim þingmeirihluta sem ætla enn einu sinni að stíga enn eitt ógæfuspor í þá átt að auka erlenda skuldasöfnun, binda komandi kynslóðum enn þyngri byrðar og gera þeim, sem taka eiga við og moka þennan flór, enn erfiðara fyrir.