22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4478 í B-deild Alþingistíðinda. (3754)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Reykv., hóf mál sitt með því að lýsa því yfir að hann mundi ekki taka þátt í afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir árið 1985. Það færi betur ef Alþfl. gerði það að stefnu að taka ekki þátt í fjármálum almennt.

Hann talaði um niðurskurð ríkisútgjalda sem leið út úr ógöngum eða á hinn bóginn að auka tekjur ríkissjóðs með skattlagningu sem hann taldi upp og einhverju fleiru, en hann sundurliðaði það ekki neitt.

Hann gat um að hægt væri að ná a. m. k. 2 milljörðum í nýjum ríkissjóðstekjum gegnum söluskattsaukningu. Hann er nú kominn niður úr 9 milljörðunum sem hann talaði um áður fyrr þegar hann talaði um að skattleggja bókstaflega allt, hvort sem það voru börn eða gamalmenni, sjúkir eða heilbrigðir. Þar með væri hægt að tvöfalda söluskattstekjur ríkissjóðs. Hann er þó farinn að vitkast á leiðum sínum um landið í leit að eiganda þess. Nú er þetta orðin 2 milljarða kr. söluskattsaukning. En ég vil gjarnan fá sundurliðun á því á hvaða vörutegundir eða þjónustu hann hefur þá hugsað sér að leggja þennan söluskatt. Ég tel að söluskattur sé þegar of hár. Ef hægt væri að lækka hann væri það mér meira að skapi en að auka hann þó að ég ætli ekki að tala um það sem um er pólitískur ágreiningur.

Þá eru hugsjónir eins og er að leggja á skatta, hvort sem það eru eignamenn eða aðrir. Ég er ekki á því að ráðast frekar en orðið er á stóreignamenn og fleiri. En með því móti telur hann að hann geti náð í viðbótar 3.2 milljarða til ríkissjóðs.

Ég veit ekki hvað hann á við þegar hann talar um velferðarríki fyrirtækja. Ég held að ákaflega fá fyrirtæki á Íslandi sýni verulegan hagnað. Það er ekki að mínu mati velferðarríki fyrirtækja. Ég held að við megum þakka fyrir á meðan þau fyrirtæki sem enn hanga uppi, miðað við það ástand sem hann lýsir af völdum stjórnleysis ríkisstj., lafi til þess að veita þeim aðilum, sem á vinnumarkaðnum eru, lifibrauð. Allt stangast þetta meira og minna á hjá virðulegum 5. þm. Reykv.

Hann talar um að Sjálfstfl. hafi verið sinni stefnu lítið trúr. Það hefur verið stefna Sjálfstfl. — og það má segja stefna þessarar ríkisstj. — að færa einmitt frá því opinbera yfir til einstaklinga. Það hefur hún gert. Ég sé fulla ástæðu til að rifja upp hér það sem hefur verið fært frá ríkinu yfir til einstaklinga með niðurfellingu eða lækkunum á ríkissjóðstekjum.

Þá vil ég fara yfir skatta sem hafa verið lækkaðir frá árinu 1983. Þetta er á verðlagi 1985 allt saman: Það var 380 millj. lækkun tekjuskatts á árinu 1985, þ. e. fyrsti áfanginn af þremur, en það eru alls 600 millj. Lækkun erfðafjárskatts er 15 millj. Niðurfelling á skatti þegar skattþegn hættir störfum, þ. e. þeir sem hafa náð eftirlaunaaldri, til viðbótar við það sem áður var var 30 millj. Sérstök lækkun skatts sjómanna árið 1985 — það var til lausnar kjaradeilunni — var 45 millj. Þetta eru um 1070 millj. síðan er endurgreiðsla uppsafnaðs söluskatts til sjávarútvegsins. Það eru 430 millj., verður þó líklega nokkru meira. Lækkun innflutningsgjalda af bifreiðum nam 65 millj. Lækkun tolla og vörugjalds af ýmsum nauðsynjavörum nam 90 millj. Og niðurfelling söluskatts af innfluttum vélum og tækjum til landbúnaðarafnota og niðurfelling tolla og söluskatts af tölvubúnaði nam 104 millj. Afnám 10% álags á ferðamannagjaldeyri nemur 130 millj. Niðurfelling gjalda til lækkunar olíuverðs er 23 millj. Þetta gera samtals 842 millj. til viðbótar við þá upphæð sem ég las upp áðan. Síðan kom hækkun söluskatts um 0.5%. Það eru 250 millj. Lækkun óbeinna skatta er þá samtals um 592 millj. og heildarlækkun skatttekna ríkisins vegna þessara aðgerða er þá 1662 millj. Það væri ákaflega gott ef menn sem eru sérfróðir í því að vera forsrh. og hafa sérhæft sig til þess að verða stjórnmálamenn færu með rétt mál einstöku sinnum. En þá er kannske til of mikils ætlast.

Þá gat hv. þm. um að skattbyrði til ríkisins hefði aukist og aldrei verið þyngri. Hér er ég með töflu allt frá 1978. Skattbyrði til ríkisins vegna beinna skatta frá árinu 1978 hefur aldrei verið lægri en nú. Árið 1978 var hún 6%, 1979 6.3%, 1980 5.9%, 1981 5.6%, 1982 6.1%, 1983 5.4% og 1984 5.1%. Og spáin fyrir 1985 er 4%. Ég gæti svo sem lánað hv. þm. þessa biblíu ef hann óskar eftir að kynna sér hvað rétt og satt er. Sjálfstfl. hefur því fyllilega staðið við kosningaloforð sín og það hefur Framsfl. gert líka í þessu stjórnarsamstarfi hvað þetta snertir.

Þetta voru þau tvö atriði sem hv. 5. þm. Reykv. kvað veikustu blettina á starfi þessarar ríkisstj. og er nokkuð traustvekjandi fyrir landsmenn alla að kynna sér málflutning hans og svör við honum.

Það er alveg rétt að 1983, við gerð og endurskoðun fjárlaga fyrir 1984, taldi ég ástæðu til að ætla að ríkisstj. hefði mistekist og mér bæri skylda til þess að segja af mér ef erlendar skuldir færu yfir 61% af heildarþjóðarframleiðslunni það árið. Ég reikna ekki með að hv. lærður stjórnmálamaður ætlist til þess að það gildi fyrir öll þau mörgu ár sem þessi ríkisstj. á eftir að gera fjárlög. (SvG: Gilti það bara fyrir árið 1984?) Það gildir fyrir það ár sem verið er að gera áætlun um hverju sinni. Fjárlög gilda bara fyrir eitt ár. Það er alveg útilokað að vita hver niðurstaða heildarþjóðarframleiðslu verður og hvernig prósentan endar á þessu ári. (Gripið fram í: Hvaða prósenta gildir fyrir þetta árið?) Ég er að segja að það er árið 1985. Þú veist ekki fyrr en framleiðsla ársins er þekkt hver hún verður að prósentu. Það getur vel verið að heildarþjóðarframleiðsla. detti það mikið niður að prósenta í erlendum skuldum verði komin lagt upp úr öllu valdi án þess að þær aukist um eina krónu. Það getur líka vel verið að þjóðarframleiðsla aukist það mikið að þessi prósenta verði miklu minni án þess að aukast um eina krónu. Það fer allt eftir þjóðarframleiðslu úr því að það er miðað við hana. (Gripið fram í.) Nei, ég veit það ekki. Ég þekki ekki það mikið þína persónulegu hagi, kæri vinur. Þessari spurningu verður þú sjálfur að svara.

Ég ætla þá að svara nokkrum orðum hv. 3. þm. Reykv. Það er margt rétt sem hann sagði um þessi lánsfjárlög. Þau hafa breyst í þeirri löngu biðstöðu sem þau hafa verið í. Þegar ég lagði fram lánsfjáráætlun fyrst, í fyrra, var það gert á réttum tíma og lánsfjárlög afgreidd á réttum tíma. Í ár hefur afgreiðslan dregist. Ég skal viðurkenna að málflutningur minn, þegar afgreiðsla lánsfjárlaga dróst í höndum forvera míns, var byggður — ég sé það núna — á ákaflega ósanngjörnum hugmyndum sem ég hafði um þessi mál. Ég virði það við forvera minn að við umr. í Ed. kom í ljós að hann skilur vel þann vanda sem fjmrh. stendur frammi fyrir. Ég tek undir það að afgreiðsla lánsfjárlaga hefur dregist og tölur hafa breyst. Hvort þær hafa breyst þrisvar sinnum, það veit ég nú ekki, eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., en þær hafa breyst og þær hafa einfaldlega breyst vegna þess að leiðréttingar á lánsfjáráætluninni voru nauðsynlegar. Þær eru fyrst og fremst gerðar til þess að lánsfjárlögin og lánsfjáráætlun séu sem réttust og hvort sem það er sætt eða súrt fyrir fjmrh. ber honum skylda til að taka því þó að hann sé óánægður með niðurstöðuna. Aðalatriðið er að Alþingi fái að vita það sem rétt er en sé ekki blekkt.

Ég ætla ekki að eyða löngum tíma við þessa umr. í að svara hv. 3. þm. Reykv., en þó er ástæða til að fara í flýti yfir þó nokkra punkta sem ég hef tekið niður.

Það er einnig rétt hjá hv. 3. þm. Reykv. að að sjálfsögðu er ég óánægður með þessa töf. Þar af leiðandi er lægra á mér risið nú en var síðast. Það fer ekkert á milli mála. Það væri óeðlilegt ef svo væri ekki. Af hverju ætti ég að fara að reyna að verja það eitthvað? Það mundi enginn trúa mér ef ég færi að segja eitthvað annað. Ég segi ekki einu sinni að hv. 3. þm. Reykv. hafi gert tilraun til að slá undir belti. Þetta er satt.

Það er ýmislegt sem hv. þm. kallar hringlandahátt og talar þá um breytingar á tölum. Ég var að gefa þá skýringu að það er vegna þess að ég álít skipta mestu máli fyrir Alþingi og fyrir þjóðina alla að frv. sé sem réttast og aukaatriði sé hvort fjmrh. verður að éta eitthvað ofan í sig eða ekki í þeirri frumvarpsgjörð sem á sér stað. En það er langt frá því, eins og ég sagði þegar ég svaraði hv. 5. þm. Reykv., að hér sé einhver uppgjöf í efnahagsmálunum. Þetta eru innantómar fullyrðingar sem enginn trúir, ekki nokkur maður. Ég held að það sé áþreifanlegt þvers og kruss um þjóðfélagið að þessi ríkisstj. hefur einmitt náð árangri í efnahagsmálum. Verðbólgan — þrátt fyrir bakslög — fer niður vegna aðgerða ríkisstj. jafnóðum og henni er sparkað upp. Þetta er góð ríkisstj. Hún veit vel hvað hún er að gera og er á réttri braut í efnahagsmálum, hvað sem sérlærðir stjórnmálamenn segja — ég tala nú ekki um sérlærðir forsrh.

Ég vil ekki sem Ed.-maður meina að rangt sé að leggja frv. fram í Ed., þó að venjulega hafi það verið lagt fram í Nd. Ég held að Ed. hafi unnið ákaflega vel að þessu máli, enda kom það fram við alla afgreiðslu málsins og í umr. að þar munaði miklu um þá þekkingu sem Ed. býr yfir á fjmrn. Ed. er fyllilega starfi sínu vaxin ekki síður en Nd.

Það voru nokkrar spurningar. Það komu fram hjá báðum hv. þm., bæði hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv., nokkrar áhyggjur út af framlagi til húsnæðismála og af því að ég er með upplýsingar um það hvað framlagið hefur verið til húsnæðismála á árunum 1982–1983 og 1984–1985 ætla ég að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þær upp.

Framlag til húsnæðismála árið 1982 var: til Byggingarsjóðs ríkisins 57 millj., til Byggingarsjóðs verkamanna 111 millj. Sem sagt: 1982 samtals 168 millj. Árið 1983 var framlag til Byggingarsjóðs ríkisins 142 millj. og til Byggingarsjóðs verkamanna 158 millj. Sem sagt: framlag til beggja 1983 300 millj. sléttar. Framlag til Byggingarsjóðs ríkisins 1984 var 200 millj. og framlag til Byggingarsjóðs verkamanna 200 millj. Sem sagt: heildarframlög 1984 400 millj. Árið 1985 er framlag til Byggingarsjóðs ríkisins 622 millj. og framlag til Byggingarsjóðs verkamanna 282 millj. eða 904 millj. Það hefur sem sagt hækkað frá 1982–1985 úr 168 millj. í 904, en frá 1984 til 1985 úr 400 upp í 904. Hér verður ekki svo lítil framlagsaukning til þessara sjóða og í þennan málaflokk þó að enn vanti þá aðila, sem standa í byggingum, peninga. En þetta er framlagið, þannig að ekki er hægt að segja að hér hafi verið dregið úr eins og víða annars staðar.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði um sjóefnavinnsluna og gat um hringlandahátt í sambandi við það fyrirtæki. Það getur vel verið að það sé eitthvað til í því. Ég vil ekki taka undir það, en ég vil ekki heldur neita því. En það fé sem ætlað er á lánsfjárlögum nú er 50 millj. og af þeim eru 37 millj. til þess að standa í skilum með erlendar skuldir sem hvíla á fyrirtækinu. Hjá því verður ekki komist. Fyrirtækinu verður ekki heldur lokað strax. Það þarf aðdraganda og þar að auki þarf að ganga frá fyrirtækinu, vélum og öðrum búnaði og sjá um umsjón og fleira. Þar kemur mismunurinn sem er um 13–14 millj. Það skýrir 50 millj., virðulegi 3. þm. Reykv., og vona ég að það nægi sem svar.

Virðulegur þm., 3. þm. Reykv., taldi upp nokkra sjóði og óskaði eftir að fá skýringar nú þegar á niðurskurði á þessum sjóðum. Skal ég reyna að gera því nokkur skil.

Hann spurði þarna um skerðingu á Kvikmyndasjóði. Kvikmyndasjóður hefði skv. lögum, áætlað þó því hér er um söluskattstekjur og fleira að ræða, fengið um 32 millj. kr. ef framlög skv. lögum hefðu gengið til sjóðsins. En á fjárlögum eru áætlaðar 8 millj. Kvikmyndasjóður fékk á síðasta ári 6 millj. E. t. v. telur einhver eðlilegt stökk frá 6 millj. upp í 36–40 millj., en til eru aðrir sjóðir, sem ég veit að hv. 3. þm. Reykv. ber miklu meira fyrir brjósti því að við höfum starfað nokkuð saman að þeim sjóðum sem sjá þeim sem minni máttar eru í þjóðfélaginu farborða, og ég held að hann mundi heldur kjósa að aðrir sjóðir en Kvikmyndasjóður mundu fimmfaldast eða meira á einu ári. En á fjárlögum voru ætlaðar 8 millj. Það er ekki niðurskurður. Það er þó aukning frá árinu áður um 2 millj. En það er rétt, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að aukafjárveiting er samþykkt upp á um 10 millj. kr., þannig að heildarframlag til Kvikmyndasjóðs er 18 millj. og töldu aðstandendur Kvikmyndasjóðs það nægja vel að svo stöddu miðað við verkefni.

Það var talað um niðurskurð á Framkvæmdasjóði fatlaðra. Framlög hefðu skv. lögum orðið 180 millj., en fjárlög gera ráð fyrir 40 millj. kr. Það er 63% niðurskurður. Við gerðum samkomulag okkar á milli, held ég að megi segja, varðandi sjóðinn eða a. m. k. var ákveðin 10 millj. aukafjárveiting til að hækka það framlag.

Ég veit ekki hvort ég á að fara yfir alla þá sjóði sem hv. 3. þm. Reykv. vildi fá upplýsingar um. Ég er með langan lista yfir sjóði og ég hef afhent honum hann. Ég vona að það nægi sem svar nema aðrir þm. óski eftir að ég lesi þetta upp.

Þá var spurt um þróunarfélagið. Þróunarfélagið er í bígerð. Það er verið að ganga frá frv. um stofnun þróunarfélagsins. Í þessum lánsfjárlögum er gert ráð fyrir erlendum lántökum að upphæð 500 millj. kr. til að færa yfir í þróunarfélagið. Hv. 3. þm. Reykv. bað um sundurliðun á þessum 500 millj., hvernig það fé yrði notað. Þessar 500 millj. verða í umsjón Framkvæmdasjóðs þangað til þróunarfélagið hefur verið stofnað og meðan það fyrirkomulag er við lýði er það ríkisstj. sem tekur ákvarðanir um fjárveitingar úr þessum sjóði. Ríkisstj. hefur þegar ákveðið eftirfarandi fjárveitingar og sundurliða ég það eftir beiðni hv. 3. þm. Reykv.: til rannsókna og tilrauna fari 50 millj., til Framleiðnisjóðs eða Búnaðarsjóðs 60 millj., til sjávarútvegssjóðs 50 millj., til Iðnlánasjóðs 50 millj., til Framkvæmdasjóðs vegna lána þar til þróunarfélagið hefur verið stofnað eða hefur starfsemi sína 50 millj. og svo bíða þróunarfélagsins 240 millj. Að vísu er líklega búið að ráðstafa síðan þessi listi var gerður 50 millj. til viðbótar.

Að endingu spurði hv. 3. þm. Reykv. hvort fjmrh. hafi kynnt sér vegagerð til Akureyrar, þ. e. tilboð Hagvirkis. Ég hef ekki kynnt mér þetta tilboð, en framkvæmdastjóri fyrirtækisins kom á minn fund og sagðist hafa hug á að bjóða samgrh. að framkvæma þá vegagerð sem hér um ræðir, fullklára veginn norður til Akureyrar, og kvaðst geta undirboðið áætlun Vegagerðarinnar, eins og hún liggur fyrir og er um 1200 millj. ef ég fer rétt með, um þó nokkra upphæð. Ég man ekki alveg hvaða upphæð. (SvG: Það er 75%.) 75%, já. Í fréttum í kvöld var sagt frá tilboði frá öðrum verktaka um að fara 65% undir. En fjáröflunin og það lánsfé sem átti til að taka er ekki örugglega fyrir hendi. Ég get ekki með nokkru móti skilið að nú í lok apríl treysti nokkur maður sér til þess að fara á verðbréfamarkaðinn innanlands og tryggja fjármögnun í þessa framkvæmd fyrir fram á innanlandsmarkaði í samkeppni við skuldabréfasölu ríkissjóðs, í samkeppni við einkafyrirtæki og fjárfestingarfélög og í samkeppni við bankana sjálfa. Það getur vel verið að þetta sé hægt, en ég hef ekki trú á því. Það getur líka vel verið að hægt sé með því að bjóða betri kjör en ríkissjóður gerir í dag, en ríkissjóði er bara ætlað að taka við þessum kvöðum þannig að ef við gefum einkaaðila frjálst að bjóða út bréf á þeim kjörum sem hann er öruggur um að selja á og ríkissjóður tekur svo á sig greiðsluna, en í samkeppni við sömu kjör, hef ég meiri trú á því að bréfin sem ríkissjóður gefur út seljist. Ég hef ekki trú á því að það sé innlendur markaður fyrir þetta. Hitt er svo annað mál að ég tel líka mjög varasamt, eins og komið hefur fram hjá hæstv. samgrh., að ganga án útboðs í slík verkefni. Ég tel líka vafasamt að Alþingi, að þm. hinna ýmsu kjördæma mundu samþykkja að vegurinn norður væri forgangsverkefni í vegagerð fram yfir þá vegáætlun sem Alþingi hefur samþykkt.

Virðulegi forseti. Ég hef nú talað lengur en ég hef ætlað mér, en ég vona að ég hafi með þessum orðum mínum, ásamt þeim gögnum sem ég hef afhent hv. 3. þm. Reykv., svarað þeim spurningum sem beint var til mín.