22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4483 í B-deild Alþingistíðinda. (3756)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það var út af fsp. sem kom til mín frá hv. 3. þm. Reykv. í sambandi við sveitarfélögin þar sem hann taldi að ekki hefði verið gert ráð fyrir hækkun til þeirra í lánsfjárlögum vegna áforma um að fella niður landsútsvar af gasolíu og svartolíu sem gert er ráð fyrir að verði um 59 millj. kr. Ég vil benda hv. þm. á að í frv. til l. um lækkun sérstaks kostnaðarhluta útgerðar er gert ráð fyrir í 10. gr. að fella niður að hluta þennan tekjustofn sveitarfélaga. Þar er skýrt tekið fram að ákvæði þessarar greinar öðlist þegar gildi, en komi til framkvæmda við álagningu landsútsvara árið 1986 vegna sölu á árinu 1985. Í sambandi við þetta vil ég geta þess að nú er hafin endurskoðun á tekjustofnalögum sveitarfélaga þar sem áformað er að taka landsútsvarið til sérstakrar meðhöndlunar. Þetta hefur því ekki áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélaganna árið 1985.