23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4485 í B-deild Alþingistíðinda. (3759)

371. mál, verðuppgjör til bænda

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 591 eru fsp. frá hv. 5. þm. Austurl. um verðuppgjör til bænda sem ég hef fengið svör við frá Framleiðsluráði landbúnaðarins. Við fyrri lið fsp.: Hvað olli því að uppgjör á endanlegu verði til bænda fyrir verðlagsárið 1983–1984 lá ekki fyrir fyrr en í janúar 1985? er eftirfarandi svar:

Skýringar á drætti uppgjörsins eru margar en þessar helstar:

a. Ekki er unnt að ákveða forsendur verðskerðingar, uppgjörsreglur, fyrr en séð er hver er heildarframleiðsla á mjólk og sauðfjárafurðum á verðlagsárinu. Verðlagsárinu lýkur 31. ágúst. Skýrslur um innvigtun mjólkur í ágúst koma í venjulegu þjóðfélagsástandi síðari hluta september. Nú í haust skullu verkföll opinberra starfsmanna í póstþjónustu á áður en allar skýrslur höfðu borist og því töfðust skýrsluskilin nokkurn tíma. Þær skýrslur sem voru komnar í póst en komust ekki til skila þurfti að gera að nýju og senda með sérstökum hætti til Framleiðsluráðs. Þetta tafði a. m. k. um 3–4 vikur allan undirbúning að gerð uppgjörsreglna. Einnig þurfti að leggja mat á verðgildi birgða af kindakjöti frá haustinu 1983 og mjólkurvara sem til voru í lok ágústmánaðar, en þær birgðir voru með mesta móti. Uppgjörsreglur voru til meðferðar á fundi Framleiðsluráðs landbúnaðarins 26. október og voru þá samþykkt frumdrög að vinnureglum en endanleg afgreiðsla þeirra frá Framleiðsluráði var gerð á fundi 23. nóvember og var sú afgreiðsla staðfest af landbrn. 28. nóvember.

b. Allmikið ber á því að þær upplýsingar sem fyrirtækin senda Framleiðsluráði séu með ágöllum, sem reynt er að leiðrétta meðan á. úrvinnslu stendur, svo að eins litlar villur verði í uppgjörinu frágengnu og frekast er kostur. En verkfall opinberra starfsmanna hjá Pósti og síma olli tregðu á að þessar leiðréttingar gætu gengið eðlilega í haust.

c. Allur tíminn á s. l. ári var notaður eins og unnt var til að tölvusetja upplýsingar og leiðrétta gögn jafnóðum og þau bárust frá fyrirtækjunum. Þessari úrvinnslu var lokið í september í þeim tilvikum öllum þegar gögn höfðu borist. En eins og fyrr segir vantaði ágústskýrslur mjólkur frá nokkrum fyrirtækjum og komu þær seinna til úrvinnslu en ætlað var af fyrrnefndum ástæðum.

d. Gerðir voru frumútreikningar með mismunandi verðskerðingarforsendum og var þeim útreikningum lokið þegar uppgjörsreglur voru ákveðnar hjá Framleiðsluráði 23. nóvember. Útreikningum samkvæmt uppgjörsreglunum var lokið hjá Framleiðsluráði í lok nóvember og þeir sendir mjólkursamlögum og sláturleyfishöfum með bréfi dagsettu 29. nóvember 1984. Þá fór í hönd helgi og útsending uppgjörsins var mikið verk. Ekki var lokið fyrr en í fyrstu viku desember að koma því í póst til viðtakenda.

e. Desembermánuður er víða mikill annamánuður hjá verslunaraðilum. Framgangur uppgjörsins heima hjá aðilum fer mikið eftir skilvirkni bókhaldsfyrirtækjanna. Mörg luku uppgjöri fyrir framleiðendur fyrir áramót. En sjálfsagt hefur það verið eitthvað mismunandi og hjá sumum þeirra hefur það vafalaust dregist fram yfir áramótin.

Við 2. spurningu er eftirfarandi svar: Það útreiknings- og uppgjörskerfi sem unnið er eftir getur ekki skilað uppgjöri með verulega meiri hraða en verið hefur. Til að meiri hraði geti orðið á uppgjöri þarf að skipta framleiðslurétti, búmarki hvers framleiðanda í mjólk á mánuði framleiðsluársins og hvern mánuð upp sjálfstætt. Einnig þarf að loka fyrir tilfærslur á milli búgreina í blönduðum búum. Þá er unnt að ljúka uppgjöri sauðfjárafurða sjálfstætt, en vandamál við að flýta því uppgjöri eru þær óseldu birgðir sem verið hafa miklar í lok hvers verðlagsárs undanfarin ár. Stöðvun á tilfærslurétti milli búgreina í blönduðum búum mundi leiða af sér mun lakari nýtingu búmarksréttinda hjá slíkum bændum frá því sem verið hefur undanfarin ár. Leyfð hefur verið tilfærsla um 15% af rétti hvorrar búgreinar til hinnar, hafi svo mikið verið ónotað í annarri greininni. Margir framleiðendur á blönduðum búum gera kröfur til þess að þessi réttur þeirra haldist og því hefur ekki verið horfið að breytingu í þessu efni. En breyting í þá veru mundi einfalda og auðvelda uppgjörið og ef til vill flýta því eitthvað.

Við þetta svar Framleiðsluráðs vil ég aðeins bæta því að núverandi ríkisstj. hefur ákveðið að gera ráðstafanir til þess að flýta uppgjöri eða greiðslum til bænda þannig að stærri hlutur geti komið mjög fljótt til bænda eftir að innlegg hefur farið fram og við það er miðað í því frv. til laga um framleiðslumál landbúnaðarins sem nú er verið að ganga frá. Þess er að vænta að þegar sú skipan kemst á muni bændur fá fyrr í hendur andvirði afurða sinna heldur en nú er.