23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4487 í B-deild Alþingistíðinda. (3762)

385. mál, úrbætur í sjávarútvegi á Suðurnesjum

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er hefur ríkt mjög slæmt atvinnuástand á Suðurnesjum um þó nokkurt tímabil þó að heldur hafi ræst úr í bili. Um þetta hefur verið fjallað á ýmsum fundum í þessu byggðarlagi, m. a. á fundi sem haldinn var um miðjan febrúar á vegum alls þess fólks sem starfar í sjávarútvegi á þessu svæði, atvinnurekenda, verkafólks og útgerðarmanna. Þar var þetta gert að umræðuefni. Bent var á að staða sjávarútvegsins á Suðurnesjum væri verri en víðast annars staðar og talið að til þess lægju ýmsar orsakir. Fyrirtækin þar stæðu verr að vígi en systurfyrirtæki í öðrum landshlutum m. a. með tilliti til þess að ódýrara fjármagn hefði fengist til uppbyggingar í öðrum landshlutum. Það væri ein skýring þess að Suðurnesin hefðu dregist aftur úr á þessu sviði og stæðu illa að vígi að mæta þeim erfiðleikum sem nú væru uppi. Einnig var bent á að tregða í skreiðarsölu hefði að öllum líkindum bitnað harðar á mönnum á Suðurnesjum en víða annars staðar. Fundurinn gerði ályktun af þessu tilefni þar sem m. a. er fjallað um gengisstefnu og vaxtamál og fylgir áskorun til þeirra aðila sjálfra sem í greininni starfa um átak í markaðsmálum en jafnframt er beint nokkrum hugmyndum til stjórnvalda. Í ályktuninni segir að aflamiðlun til staða þar sem vandamál koma upp í fiskvinnslu vegna hráefnisskorts, eins og nú á sér stað á Suðurnesjum, verði leyst á þann hátt að skip, sem Fiskveiðasjóður, Byggðasjóður eða ríkissjóður muni eignast vegna vanskila viðkomandi skipa, verði leigð til staða þar sem slík atvinnuvandamál koma upp. Hér kemur sem sagt fram ein hugmynd af heimamanna hálfu um það hvernig við skuli bregðast í þessu erfiða ástandi. Jafnframt er bent á það að seld hafi verið skip af Suðurnesjum sem fylgt hafi þúsundir tonna í veiðikvóta. Er reyndar talið að það sé einhvers staðar á milli 8 og 10 þús. tonn. Og í ályktuninni segir: „Fundurinn leggur til að þegar skip eru seld út af atvinnusvæði sem býr við atvinnuleysi verði sérstökum viðbótarkvóta úthlutað til starfræktra veiðiskipa á svæðinu.“

Eins og af þessu má ráða þá er og hefur verið allþungt í mönnum á Suðurnesjum vegna þess hversu afkoman í sjávarútveginum hefur verið slæm og hvernig greinin hefur skroppið saman. Menn hafa lagt fram tillögur og hugmyndir til úrbóta sem fela það m. a. í sér að eitthvað sértækt yrði gert til þess að greinin færi ekki frekar yfir um heldur yrði efld á Suðurnesjum. Það er í framhaldi af þessu og í samræmi við þessa ályktun sem ég hef leyft mér ásamt Karli Steinari Guðnasyni að bera fram fyrirspurn til sjútvrh. um úrbætur í sjávarútvegi á Suðurnesjum sem hljóðar svo:

1. Er sjútvrh. reiðubúinn til þess að gera sérstakar ráðstafanir sem verða megi til að endurbæta og endurreisa rekstur sjávarútvegsgreina á Suðurnesjum með hliðsjón af því uggvænlega ástandi sem þar ríkir í þessum efnum?

2. Er ráðherra tilbúinn til að úthluta, vegna þeirrar óskar sem fram hefur komið, viðbótarkvóta til þeirra skipa sem gerð eru út af svæðinu og hafa þá hliðsjón af þeim samdrætti í veiðikvóta sem rekja má til sölu margra öflugra fiskiskipa frá Suðurnesjum að undanförnu?

3. Er ráðherra reiðubúinn til þess að leita leiða til að koma á miðlun afla til þessa svæðis frá stöðum sem ekki ráða við þann afla sem á land berst nema fá til erlent vinnuafl?