23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4493 í B-deild Alþingistíðinda. (3768)

395. mál, framleiðslustyrkir til kartöfluverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Vandamál varðandi kartöfluræktun og kartöfluframleiðslu hér á landi hafa verið nokkuð til umræðu undanfarin tvö ár. Annað árið vegna þess að uppskeran varð of lítil og léleg og hitt skiptið vegna þess að uppskeran varð allt of mikil. Það hefur komið fram í blöðum og fjölmiðlum að kartöfluverksmiðjur sem svo eru nefndar, sem framleiða unna rétti úr kartöflum, hafa fengið framleiðslustyrki eða niðurgreiðslur. Mér er ekki alveg ljóst hvort ber að kalla þetta. Ákvarðanir um þetta voru teknar í þingflokkum stjórnarflokkanna skv. blaðafréttum. Til þess að fá frekari upplýsingar um þetta mál, sem hefur farið frekar lágt, hef ég talið nauðsynlegt að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. landbrh.:

„1. Hve hárri upphæð munu niðurgreiðslur eða framleiðslustyrkir til kartöfluverksmiðja nema á þessu ári?

2. Hvernig var þessi upphæð ákveðin og við hvað miðast hún?

3. Er þess að vænta að verð á unnum kartöflum til neytenda lækki sem nemur niðurgreiðslunni eða framleiðslustyrknum?“