30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

80. mál, einingahús

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er sannarlega þörf á því að flytja hér fsp. af þessu tagi. Ég tek undir meginmál þess sem að baki fsp. liggur. Ég er ekki í neinum vafa um að hér er um að ræða einhverja merkustu ef ekki merkustu tilraun sem hefur verið gerð hér á landi til að lækka byggingarkostnað og auðvelda fólki að koma sér þaki yfir höfuðið. Og ég trúi því vægast sagt ekki, sem kemur frá Húsnæðisstofnun um þetta mál, að hér sé ekki um ódýrari lausn að ræða fyrir íbúðabyggjendur almennt.

Hitt er svo rétt, að þessi starfsemi hefur lengi átt undir högg að sækja og ég þekki það vel og við þekkjum það nokkrir þm. úr Ed. sem höfum verið að berjast þar fyrir því að þessi framleiðsla nyti jafnréttis við aðrar byggingar varðandi söluskattsinnheimtu. Við þekkjum hvað erfitt var að ná því í gegn t.d. bara varðandi íbúðabyggingarnar einar, hvað þá annað húsnæði. Ein leiðin til þess að greiða fyrir þessari framleiðslu og greiða um leið fyrir húsbyggjendum var enn fremur sú að breyta um lánareglur á þann hátt að 2/3 væru greiddir út. Það auðveldaði fólki mjög leikinn sem annars hefði ekki átt auðvelt með að koma sér upp húsnæði. Sama var um það að segja að þegar menn sáu vinsældir einingahúsanna tóku menn til við að flytja inn einingahús. Það var reynt að koma í veg fyrir að sá innflutningur yrði hömlulaus.

Nú virðist vera snúið af braut og Húsnæðisstofnun ríkisins ætlar að hafa forgöngu um að snúa alveg af braut. Réttlæting þessa í þeim svörum sem hæstv. ráðh. las frá stofnuninni var vægast sagt aum. Ég fullyrði að þessar breyttu lánareglur hafa bæði neikvæð áhrif á þá fjölmörgu byggingaraðila sem hafa unnið hér að með góðum árangri og ekki síður fyrir húsbyggjendur. Og ég harma það vegna þess að þessi byggingarmáti er sjálfsögð leið til að auðvelda fólki að eignast húsnæði.

Á það ber að líta að auðvitað hefur hæstv. ráðh. hér æðsta vald. Miðað við síðustu orð hans áðan hlýtur það að vera hans að neita að samþykkja þessar vitlausu reglur, sem Húsnæðisstofnun er þarna að setja, og koma í veg fyrir að þessi breyting verði.