23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4497 í B-deild Alþingistíðinda. (3779)

400. mál, Kolbeinsey

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Við athugun á þessari fsp. kom í ljós að málið hefur verið í höndum samgrn., sem rétt er, og ég hef fengið þaðan þær upplýsingar sem ég mun nú rekja.

Vita- og hafnamálastjóri var beðinn um umsögn um þál. og barst hún samgrn. 6. júlí 1982, sem er reyndar eftir að till. er samþykkt hér á Alþingi. 20. apríl 1982 er till. samþykkt. Þál. er síðan send Vitastofnun Íslands með bréfi 21. október 1982 og er Vitastofnunin beðin um umsögn og/eða tillögur um það sem þál. fjallar um. Með bréfi 2. mars 1983 ítrekar samgrn. þessa beiðni frá 21. október og svar berst frá Vita- og hafnamálastofnun 29. júní 1983.

Ég sé ekki mikla ástæðu til að rekja ítarlega það sem fram kemur í þessum bréfum en vil þó draga það saman eins og unnt er í stuttu máli. Í ljós kemur að árið 1964 voru reist ratsjármerki á eyjunni. Merki þessi voru gerð úr sverum járnrörum. Er að var komið ekki löngu síðar sáust engin merki þeirra en festiboltar sátu í berginu. Vita- og hafnamálastofnun dró þær ályktanir af þessari skoðun að merkin hefðu ekki verið burt numin af sjó einum saman heldur mundi hafís hafa gengið þar yfir. Og niðurstaðan mun vera sú eftir frekari athuganir að hafís gengur yfir klettinn og það muni þurfa miklu meiri styrkleika til sem von er til að standast slík átök.

Síðan segir í þessu bréfi, með leyfi forseta: „Talið er að Kolbeinsey sé að mestu úr móbergi sem brotnar hratt niður. Má þá gera ráð fyrir að hafísinn vinni þar á jafnvel meira en sjór. Einustu leiðir sem ég sé færar til að hindra niðurbrot eyjarinnar er að styrkja yfirborð hennar með steinsteypu. Það verk verður að sjálfsögðu mun meira en gerð ratsjármerkis en ætti að mega vinna í áföngum, þannig að þeir hlutar eyjarinnar sem útsettastir eru og virðast viðkvæmastir yrðu látnir sitja í fyrirrúmi. Erfitt er að áætla kostnað við gerð þess háttar merkis en telja verður að efniskostnaður sé ekki mikill eða nokkrir tugir þúsunda króna. Meginkostnaður liggur aftur á móti í flutningi að eyjunni og þeim biðum er gera verður ráð fyrir vegna óhagstæðs veðurs og sjólags.“

Síðan er í bréfinu gerð, eins og fram er tekið, mjög lausleg kostnaðaráætlun. Ég mun ekki rekja það allt en hv. fyrirspyrjandi getur að sjálfsögðu fengið það í hendur. Ég get þess að niðurstaðan verður sú að kostnaður yrði alls um 8.6 millj. kr. Þetta er áætlað í júní 1983 og má að sjálfsögðu bæta nokkuð við þessa upphæð.

En það sem vekur athygli mína við að lesa það sem hér er sagt er það að hér er aðeins gert ráð fyrir 20 cm meðalþykkt á steinsteyptu lagi ofan á eyjuna. Án þess að vera nokkur sérfræðingur á heljartök hafíssins, þá hefði ég haldið að 20 cm lag molnaði nokkuð fljótt af. Ég hefði haldið að töluvert meiri styrkingar þyrfti og eflaust járnbindingu alldjúpt niður í þennan móbergsklett.

Upplýst er að kletturinn muni vera 41 metri frá norðri til suðurs en 39 frá austri til vesturs og 8–9 metrar á hæð. Það segir ekki við hvaða fjöruborð er reiknað, en venjulega mun það vera við stórstraumsfjöruborð, sem þá sýnir að í stórstreymi stendur ekki mjög mikið upp úr af þessum kletti, og í óveðrum gengur hafís eflaust mjög nálægt eyjunni.

Fram kemur líka af fyrirspurnum sem ég lét gera bæði til Landhelgisgæslu og Vita- og hafnamálastofnunar að ekkert hefur verið gert í þessum málum síðan 1964 þegar mistókst að festa þar til frambúðar ratsjármerki. Ástæðan sem gefin er upp er sú að engin fjárveiting hafi fengist í þessu skyni. Ég er fullkomlega sammála því, sem hefur komið fram, að ákaflega mikilvægt sé að leita leiða til að treysta þennan klett í sessi, þennan útvörð okkar fiskveiðilögsögu. Mun ég beina þeim tilmælum til samgrn. að enn verði málið tekið upp í framhaldi af þessari fsp. og þá gerð ítarlegri áætlun um hvað muni kosta að steypa ofan á eyjuna, því það virðist vera nauðsynlegt jafnvel til að þarna haldist radarmerki svo að vit sé í. Mér finnst að það þyrfti að verða eitthvað þykkara lag heldur en talað var um 1983.