23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4499 í B-deild Alþingistíðinda. (3781)

432. mál, hörpudisksmið í Breiðafirði

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Á þskj. 720 leyfi ég mér að bera fram fsp. til hæstv. sjútvrh. um rannsóknir á hörpudisksmiðum í Breiðafirði. Meginástæða þess að fsp. er borin fram á hv. Alþingi er að hæstv. sjútvrh. hefur tekið ákvörðun um að auka aflamark á hörpudiski úr Breiðafirði úr 11 þús. tonnum í 12 þús. tonn þrátt fyrir tillögur Hafrannsóknastofnunar um óbreytt aflamark og í raun viðvaranir bæði fiskifræðinga og reyndra sjómanna. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ástand nytjastofna á Íslandsmiðum og aflahorfur 1985 er lagt til að aflamark verði 11 þús. tonn 1985 svo sem það var árið 1984. Í þeirri skýrslu kemur fram að við ákvörðun á leyfilegum hámarksafla sé stuðst við rannsóknir og árangur við veiðar á hörpudiski.

Reyndir sjómenn, sem hafa stundað skelveiðar, vara við ofmati á skelstofninum og telja rannsóknir engan veginn nægilegar. Mat fiskifræðinga á ástandi stofnsins byggist m. a. á meðaltalsafla á togtíma. Hins vegar hefur veiðihæfni skelveiðibáta aukist með árunum og er því óvarlegt að byggja á þeim reynslutölur án þess að verulegar rannsóknir fari fram um ástand miðanna og þar verði beitt traustum rannsóknaraðferðum. Í tæpa tvo áratugi hafa skelveiðar og vinnsla verið að þróast við Breiðafjörð. Er nú svo komið að skelveiðar eru meginstoð atvinnulífs í Stykkishólmi þar sem þrjár vinnslustöðvar eru starfandi. Auk þess hefur fiskverkun Soffaníasar Cecilssonar í Grundarfirði unnið skel um árabil. Og nú nýverið bætti sjútvrh. nýrri vinnslustöð við þrátt fyrir það að næg afkastageta væri fyrir hendi hjá þeim sem fyrir voru. Þá hefur verið unnin skel í Flatey og á Brjánslæk.

Reynsla okkar af ofveiði síldar og þorsks og offjárfestingu í sjávarútvegi ætti að hafa kennt okkur að nákvæmar rannsóknir á nytjastofnum okkar eru nauðsynlegar ekki síst þegar sóknin er aukin. Með aukinni afkastagetu vinnslustöðva eykst sóknin í skelina svo að staðið verði undir fjárfestingu sem lagt hefur verið í. Sóknarþörfin er aukin með nýjum vinnslustöðvum án þess að tryggt sé að stofninn standi undir þeim árlega afla sem þarf að sækja svo að dæmið gangi upp miðað við eðlilegt ástand á mörkuðum. Til þess að sporna við slíkri þróun voru sett lög um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar sem háðar eru sérstökum leyfum. Túlkun þeirra laga hefur verið frjálsleg og í raun vafasöm svo að ljóst er að þau eru lítil vörn gegn offjárfestingu og of mikilli sókn svo sem tilgangur þeirra var.

Með framangreindum rökum hef ég dregið fram meginástæður fyrir fsp. minni, auk þess sem rannsóknir á hörpudisksmiðum í Breiðafirði gætu tengst frekari rannsóknum annarra skelja og krabbadýra sem nýta mætti og gætu skapað nýja vinnslumöguleika og aukið fjölbreytni í fiskvinnslu.

Sökum þess að sjútvrn. hefur ekki brugðist við óskum um frekari rannsóknir er svofelld fsp. borin fram hér á hv. Alþingi á þskj. 720:

„Hefur sjútvrh. gert ráðstafanir til þess að hörpudisksmiðin í Breiðafirði verði rannsökuð eftir að aflamark á hörpudiski var aukið á þessu ári?

Ef svo er ekki, mun þá ráðherra beita sér fyrir því að nákvæmar rannsóknir fari fram á vegum Hafrannsóknastofnunar er tryggi að veiðisvæði verði ekki ofveidd nú þegar sóknin er aukin?“