23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4503 í B-deild Alþingistíðinda. (3786)

432. mál, hörpudisksmið í Breiðafirði

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umræður en gera aðeins örstutta athugasemd vegna ummæla hv. 4. þm. Vesturl. Skúla Alexanderssonar, sem gerir tilraun til þess að bera blak af þeirri, svo að ég taki undir orð 5. landsk. þm. Eiðs Guðnasonar, óskiljanlegu ákvörðun sjútvrh. að fjölga vinnslustöðvum. Ég vil benda hv. þm. Skúla Alexanderssyni á að lesa, þegar þingtíðindin koma út, svar sjútvrh. og um þær áhyggjur sem fram koma hjá honum um það að við höfum gengið of nærri skelstofninum. Það er óþarfi af hv. þm. að bera blak af því vegna þess að ef sjútvrh. taldi ástæðu til að auka vinnsluna, og ég hef ekki nema gott eitt um það að segja að hann hafi mikinn áhuga á því að treysta atvinnulíf í Grundarfirði, þá var það hægt með því að auka vinnsluleyfi hjá Soffaníasi Cecilssyni. Þannig var hægt að leysa þetta mál án þess að auka afkastagetu vinnslustöðva við fjörðinn.