23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4503 í B-deild Alþingistíðinda. (3787)

432. mál, hörpudisksmið í Breiðafirði

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég átti nú ekki von á því að hér yrði farið að della um þessi mál. En það er að sjálfsögðu eitt að ákveða í fyrsta lagi hvað skuli veiða og annað hver sé réttlát skipting á þeim takmörkuðu auðlindum sem við eigum, ekki aðeins á Breiðafirði heldur einnig allt í kringum landið.

Það var nú svo að hver einasti bátur í Stykkishólmi hafði fengið leyfi til að veiða hörpuskel og voru sumir þeirra þó mjög stórir og tiltölulega góðir bátar til að stunda veiðar á fjarlægari miðum en þarna stutt frá bryggjunum. Hins vegar höfðu tveir bátar í Grundarfirði engan rétt til þessara veiða en allir aðrir bátar í Grundarfirði höfðu það. Það má vel vera að mörgum finnist það réttlætanlegt og eðlilegt að sumir sjómennirnir í Grundarfirði hafi góðar tekjur af skelveiði en hinir hafi ekki þessar góðu tekjur; þeir eigi þar engan rétt. Ég er ekki sammála þessum fullyrðingum sumra manna á Snæfellsnesi. Því miður hefur gengið illa þar um slóðir eins og víða annars staðar að koma sér saman um þessa hluti. Það kom hins vegar í ljós að ef þessir bátar skyldu leggja upp hjá annarri vinnslustöð væru þeir trúlega algerlega farnir til þeirrar vinnslustöðvar, ekki bara með skelafla heldur annan afla líka. Ég vil bara benda hv. fyrirspyrjanda á það að hann spurði ekki um þessi mál og getur að sjálfsögðu borið hér fram aðra fsp. Það er hann sem vekur upp þetta mál og ég er að svara því. Það var ekki krafa rn. en það lá fyrir að svo mundi verða. Þessir aðilar vildu halda áfram að skipta við þá aðila, sem þeir höfðu alltaf skipt við, og vildu ekki láta knýja sig til að skipta við aðra og þeir hafa rétt til þess að hafa sín sjónarmið í þeim efnum. Niðurstaðan varð því sú að þessi ráðstöfun var framkvæmd. Ég skal hins vegar fúslega viðurkenna að það var ekki ætlan okkar að fjölga þarna vinnslustöðvum.

Þetta sýnir vel vandann í því að stjórna og sýnir nauðsynina á því að það eigi sér stað einhver stjórnun á veiðunum. Það getur verið um að ræða annars vegar að vera rígbundinn við vinnsluleyfi og hins vegar að hafa engin vinnsluleyfi, t. d. eins og í síldveiðunum, þar sem ríkir verulegt öngþveiti varðandi söltun. Þarna er vandratað meðalhófið en það er verið að reyna að þræða í sjútvrn. eins og alltaf áður.

Að sjálfsögðu eru menn óánægðir og óánægðastir í Stykkishólmi og hafa haft uppi miklar yfirlýsingar þar um. Hins vegar hefur bæði hreppsnefnd og atvinnumálanefnd Grundarfjarðar haldið því ákveðið fram að hér hafi verið um rétta ráðstöfun að ræða. Þarna eru því skiptar skoðanir.