23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4507 í B-deild Alþingistíðinda. (3794)

410. mál, lækningarmáttur jarðsjávar við Svartsengi

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vildi aðeins þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli og hæstv. ráðh. fyrir svörin og áhuga hans á málinu. Það veldur vitanlega vonbrigðum hve illa hefur gengið að koma þessari könnun á og óskandi að með nýjum aðferðum eða nýjum vinnubrögðum takist að koma henni á.

Ég vil leggja áherslu á og ítreka mikilvægi þess að þessi könnun verði framkvæmd. Niðurstöður hennar gætu skipt miklu máli fyrir framtíðaruppbyggingu á þessum stað. Í Svartsengi eru um margt mjög merkilegar aðstæður sem gætu nýst til arðbærs atvinnureksturs ef rétt er á málum haldið. Þar er nú þegar komið, eins og fyrirspyrjandi gat um, hótel sem má skoða sem vísi að heilsustöð og það er farið að draga að sér útlendinga sem telja sig sækja sér lækningamátt í Bláa lónið. Það er að mínu mati hreint ekki óraunsætt að gera ráð fyrir að þar gæti risið alhliða heilsustöð sem byði upp á fjölbreyttar aðstæður til líkams- og heilsuræktar í sérstæðu umhverfi.

Mér er ekki nein launung á því að áhugi minn á málinu er ekki síst tilkominn af því að þeir atvinnukostir, sem byðust þarna, væri staðurinn byggður upp á þennan hátt, mundu væntanlega henta konum vel. En vegna breyttra vinnsluaðferða í sjávarútvegi á þessum slóðum og annars staðar er einmitt mjög brýnt að hyggja að sköpun fjölbreyttari atvinnutækifæra fyrir konur.