23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4510 í B-deild Alþingistíðinda. (3799)

402. mál, lögreglustöð í Garðabæ

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til dómsmrh. á þskj. 651:

„1. Telur dómsmrh. ekki tímabært að koma á fót lögregluvarðstöð í Garðabæ ásamt tilheyrandi búnaði til aukinnar þjónustu fyrir íbúa þar?

2. Ef svo er, hvenær má búast við að lögregluvarðstöð verði þar opnuð?“

Ástæður þess að ég ber fram fsp. eru eftirfarandi: Með ört vaxandi byggð og auknu þéttbýli hefur þörfin fyrir sérstaka lögregluvarðstöð í Garðabæ stóraukist á undanförnum árum. Íbúar Garðabæjar eru nú um 6 þúsund talsins. Mun það einsdæmi að í svo stórum kaupstað hér á landi sé engin lögregluvarðstöð staðsett. Skv. þeim reglum sem um löggæslu gilda ættu löggæslumenn í Garðabæ að vera nokkuð á annan tug talsins. Þar eru þó engir löggæslumenn staðsettir í dag, en bænum er þjónað að þessu leyti frá embætti sýslumanns og bæjarfógeta í Hafnarfirði.

Það gefur auga leið að þetta ástand er og hefur lengi vérið með öllu óviðunandi. Í fyrsta lagi hefur íbúafjölgun í Garðabæ og í norðurbænum í Hafnarfirði og á Álftanesi valdið því að umferðarmálin á Hafnarfjarðarvegi krefjast verulegrar og stöðugrar löggæslu og stóraukin umferð um Vífilsstaðaveg og um nýju Reykjanesbrautina kallar einnig á aukna vernd og aðstoð við gangandi vegfarendur, bæði skólabörn og aðra. Þar að auki hefur almennum löggæsluverkefnum farið fjölgandi í bænum með vaxandi íbúatölu svo sem eðlilegt má teljast. Er það atriði eitt næg ástæða til þess að lögregluvarðstöð sé staðsett innan bæjarmarkanna til þjónustu og öryggis fyrir bæjarbúa, hvort sem er að nóttu eða degi. Þjónusta frá nágrannabyggðum getur aldrei komið að sama haldi þótt vel sé að henni staðið.

Mál þetta er ekki nýtt af nálinni þó því sé nú hreyft hér í þingsölum. Í einn og hálfan áratug hafa bæjaryfirvöld í Garðabæ borið fram óskir um úrbætur í þessum efnum og eru þar margar samþykktir fyrir hendi af hálfu sveitarstjórnar. Sú nýjasta þeirra er frá fundi bæjarráðs og bæjarstjórnar 28. febr. s. l. Þá samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar eftirfarandi till. sem ég vil lesa hér, með leyfi forseta:

„Bæjarráð beinir þeirri áskorun til stjórnvalda að hlutast nú þegar til um að komið verði á fót lögreglustöð í miðbæ Garðabæjar.“

Og með till. fylgir svohljóðandi grg.:

„Undanfarinn áratug hefur áskorunum verið komið til stjórnvalda í þá átt að í Garðabæ verði staðsett lögreglustöð. Ljóst er að óhjákvæmilegt er að hafa staðsetta löggæslu í bæjarfélagi með nærfellt 6 þúsund íbúa. Löggæslu er nú haldið uppi frá Hafnarfirði með bifreiðum. Ef löggæslustöð yrði í Garðabæ mundi það augljóslega skapa meira öryggi fyrir íbúa og festu í bæjarlífinu. Af framangreindum orsökum er það krafa bæjaryfirvalda að nú þegar verði tekin um það ákvörðun að hér skuli staðsett lögreglustöð. Með því að ákvörðun verði tekin fljótlega má gera ráð fyrir varðstöð í miðbænum áður en hann byggist upp að fullu.“

Í framhaldi af þessari samþykkt bæjarstjórnar, herra forseti, er rétt að vekja á því sérstaka athygli að hér er ekki í sjálfu sér verið að fara fram á að byggð sé sérstök lögreglustöð í bænum sem ugglaust mundi verða bæði kostnaðarsamt og viðamikið mannvirki. Fyllilega væri nægilegt að skapa aðstöðu fyrir lögregluvarðstöð í leiguhúsnæði, a. m. k. til að byrja með, og mundi af því hljótast sáralítill kostnaður fyrir ríkissjóð. Raunar er gert ráð fyrir því í skipulagi hins nýja miðbæjar Garðabæjar, sem staðsettur er á mótum Vífilsstaðavegar og Bæjarbrautar, að í einu af húsunum þar verði útibú frá skrifstofu sýslumanns og lögregluvarðstofa. Úthlutun lóða fyrir þá starfsemi hefur staðið til boða í tvö ár.

Þessar upplýsingar sýna að löngu er orðið tímabært og nauðsynlegt að opna lögregluvarðstöð í Garðabæ, í einum af stærri kaupstöðum landsins, en þjóna ekki þessum stóra kaupstað frá nágrannabyggð. Vona ég að undirtektir dómsmrh. verði ekki aðrar en jákvæðar í þessu máli.