30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

80. mál, einingahús

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þær spurningar sem hann leggur fyrir hæstv. félmrh. Þetta er mál sem er orðið mjög veigamikið og viðkvæmt og þarf ekki mörg orð hérna um það. Menn eru búnir að tjá sínar skoðanir á þessu máli, en ég vil undirstrika minn stuðning við það. Mér finnst samþykkt húsnæðismálastjórnar frá 19. sept. algerlega útilokuð gagnvart einingahúsaframleiðendum. Ég lýsi stuðningi mínum við félmrh. og ætlast til að þessu verði breytt. Framleiðsla einingahúsa er orðin miklu snarari atvinnuþáttur víða í landinu en margur hyggur og hús þessi eru góð. Það þorum við að fullyrða, sem höfum séð þau á öllum byggingarstigum, að þau hafa reynst vel. Og hvað er á móti því í okkar þjóðfélagi að við reynum heldur að draga saman í húsbyggingarkostnaði en að auka hann? Þessi hús eru minni og viðráðanlegri fyrir almenning en mörg stórhýsi sem hér eru byggð. Þess vegna styð ég það að samþykki húsnæðismálastjórnar verði breytt fyrir frumkvæði ráðh.