23.04.1985
Sameinað þing: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4527 í B-deild Alþingistíðinda. (3812)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ætli ég muni ekki sem 1. flm. þeirrar till. sem hér er til umr. síðara sinni bæta við nokkrum orðum. Ég ætla þó að reyna, m. a. með tilliti til orða virðulegs forseta í upphafi umr. að forðast að endurtaka allt það sem áður hefur komið fram í allmiklum umr. um till. á þinginu í vetur. En nokkru vil ég þó við bæta og einnig fjalla örlítið um þau ummæli sem hér hafa fallið í framsögu með nál. og síðari ræðum hv. þm.

Það má fyrst til taka að öll saga þessa máls er orðin nokkuð lærdómsrík. Hún hefur a. m. k. verið það fyrir mig og ég hygg reyndar að þetta mál beri að með nokkuð óvenjulegum hætti hér á hv. Alþingi. Það er ekki alvanalegt að fjallað sé um einstakar framkvæmdir hersins með þessum hætti og menn kunna að hafa mismunandi skoðanir á þeirri málsmeðferð sem hér hefur verið viðhöfð, en hafi menn á annað borð trú á því að það sé til góðs að kynna sér málin og ræða þau og afla um þau upplýsinga hygg ég að enginn geti á móti því mælt að flutningur þessarar till. og reyndar fsp. á síðasta þingi um sama mál hafi verið liður í því efni að draga málið fram í dagsljósið og knýja skuggabaldrana út úr skúmaskotunum og draga fram þær upplýsingar sem ég tel að hv. Alþingi og þjóðin öll eigi heimtingu á að fá í málum sem þessum. Ég tel það a. m. k. vel fararinnar virði í þeim árangri sem á þessu sviði hefur verið náð hver svo sem örlög þeirrar till., sem hér er til umr. og virðast skiptar skoðanir um, verða.

Ég ætla ekki efnislega að fara að svara framsögu meiri hl. hv. utanrmn. Allt var þar af hógværð flutt og ég sé ekki ástæðu til að fara yfir það lið fyrir lið. Þar var því haldið fram og reyndar af síðari ræðumönum að þetta mál hafi verið einstaklega vel kynnt, að að því hafi verið einstaklega vel staðið, það hafi verið opin umræða um það o. s. frv. Þetta er að nokkru leyti rétt og það skal fúslega viðurkennt héðan úr þessum virðulega ræðustóli, m. a. af orsökum sem ég hef áður rakið. En ég tel þó, og vil að það komi hér skýrt fram, að einungis vissar hliðar á þessu máli hafi fengið rækilega umfjöllun og verði ítarlega kynntar. Því miður hefur sú kynning, sú umræða og sú umfjöllun ekki náð til allra hliða þessa máls og ber að harma það.

Ég hef frá upphafi gagnrýnt það í fyrsta lagi hvernig þessar framkvæmdir voru kynntar fyrir þjóðinni og má þá nefna það fyrst að hæstv. utanrrh. neitaði því alfarið á sínum tíma að hér væri um hernaðarframkvæmdir að ræða. Ef ég má vitna til ummæla hans, með leyfi forseta, svaraði hann fsp. á hv. Alþingi þann 15. nóv. 1983 og segir í þingtíðindunum í þessari umræðu:

Hæstv. utanrrh. Geir Hallgrímsson vill að gefnu tilefni láta það koma skýrt fram að „að mínu mati er hér alls ekki um hernaðarmannvirki að ræða.“

Á kjördæmisþingi Framsfl. var hæstv. forsrh. á svipuðum nótum.

Þetta var borið á borð fyrir hv. Alþingi í nóvember 1983. Svo höfðu skipast veður í lofti að þegar við, ég og hæstv. utanrrh., áttum orðastað um þessa till. hér á Alþingi fyrr í vetur sagðist hæstv. utanrrh., og ég ætla að reyna að vitna í hann orðrétt eftir minni, eiga erfitt með að kalla þetta hernaðarmannvirki. En hann harkaði þó af sér og notaði það orð í umræðunum. Þá var þetta svo komið.

Nú er, hygg ég, ekki lengur um það deilt að hér eru auðvitað hernaðarmannvirki á ferðinni og menn verða að kyngja gallinu og ræða um þau mál sem slík. Það eru menn nú farnir að gera og ber að fagna því. Fyrsta blekkingin er sem sagt þar með afhjúpuð. Hér eru hernaðarmannvirki á ferðinni.

Allur aðdragandi málsins að öðru leyti er umhugsunarefni. Ég hef þegar rakið það hér í umr. á Alþingi hvernig þetta hefur borið að og er reyndar keimlíkt ýmsum öðrum framkvæmdum sem hér hefur verið farið í á Íslandi á sviði hermála og hafa flestar borist til okkar mjög í skötulíki og verið kynntar á nokkuð undarlegum forsendum. En ég kemst ekki hjá því að spyrja hv. þingheim, þann sem enn þá tórir hér og hlustar á þessar umr. og ég ætlast ekki til svara, en ég vil að hver reyni að svara sjálfum sér: Hvað vita hv. þm. og hvað halda menn t. d. að íslenska þjóðin hafi fengið að vita um hluti eins og tengingu þessara radarstöðva við DEW-línuna? Hvað vita menn um hana? Vita menn í fyrsta lagi hvað DEW-línan er? Vita menn hvers konar búnaður það er? Vita menn hvernig þessar stöðvar tengjast honum? Vita menn hvar er stjórnun þess herafla sem á og rekur DEW-línuna? Vita menn hvað NADS er? Vita menn hvaða stefna bandaríska hersins liggur þar að baki? Vita menn hvar OTH-radarstöðvar eru? Vita menn hvernig þær hugsanlega tengjast þessum radarmannvirkjum? Vita menn hvað þar er á ferðinni? Vita menn t. d. hvað koma F-15 orrustuþotnanna og fjölgun þeirra úr 12 í 18 þýðir? Vita menn um tæknilegan mun á F4E-vélunum, sem hér eru fyrir, og þeim nýju flugvélum sem hingað eru koma? Vita menn að svonefndur vígradíus þessara véla er um helmingi meiri? Vita menn að þær geta farið í árásarferðir alla leið til Kola-skaga og komist heim aftur án þess að taka eldsneyti? Vita menn í raun og veru hvað AWACS-flugvélarnar eru? Mér fannst gæta mikils misskilnings áðan hjá hv. þm. um það. AWACS-ratsjá er ekkert öðruvísi en önnur ratsjá. Hún er einfaldlega hátt uppi í loftinu og þess vegna er hún miklum mun afkastameiri og þekur stærra svæði, 500 þús. ferkm auðveldlega, í þeirri flughæð sem þoturnar geta haldið sig í klukkustundum saman.

Mér fannst gæta ofurlítils misskilnings hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni í umfjöllun hans um þetta mál og einnig misskilnings hjá hv. þm. Haraldi Ólafssyni þegar hann gerir því skóna að það væri hægt að hafa slétt skipti á tveimur radarstöðvum á landi og kannske einni eða tveimur AWACS-flugvélum. Hér er um ólíkar stærðargráður að ræða. Slík tæki eru þessar AWACS-þotur. Þær eru til viðbótar við það að vera venjuleg ratsjá einnig fljúgandi stjórnstöð með eigin fjarskiptakerfi og geta sem slíkar starfað sjálfstætt og hafa reyndar til þess heimild skv. uppflettibók bandaríska hersins að gera það og er ætlað slíkt hlutverk á styrjaldartímum.

Vita menn það og hafa menn rætt það í tengslum við þetta mál hvaða þýðingu tilkoma nýrrar stjórnstöðvar hefur í tengslum við þetta mál? Hafa menn hugleitt hvað margfaldað birgðarými eldsneytis fyrir flugvélar í Helguvík þýðir í tengslum við þessar nýju framkvæmdir? Hafa menn hugleitt að hingað eru komnar fullkomnustu eldsneytisflutningavélar bandaríska flotans sem geta fóðrað stóran flota flugvéla með eldsneyti sínu? Þar er um að ræða þotur með mikla burðargetu sem eru einn fljúgandi eldsneytistankur og geta fóðrað flugvélar á eldsneyti á lofti.

Svona mætti lengi telja. Hafa hv. þm. sett sig inn í þessa hluti? Hafa þeir reynt, eins og t. d. hv. þm. Haraldur Ólafsson virðist hafa gert, að setja þessa hluti í samhengi og reyna að átta sig á því hvað hér er að gerast? Ég verð því miður að segja, þrátt fyrir nánast taumlausa virðingu mína á hv. Alþingi og hv. þm., að ég hef efasemdir um þetta, því miður. Ég hef eytt miklum tíma í að reyna að kynna mér þessa hluti og lesa mér til. Það er hægt og miklar upplýsingar liggja fyrir. Engu að síður tel ég mig nánast fáfróðan í þessum efnum, miðað við það sem ég þyrfti að vera og vildi vera til þess að geta myndað mér heilbrigða skoðun í þessum efnum.

Síðan er hin pólitíska og hernaðarlega eða strategíska hlið þessara mála. Hafa menn reynt að setja sig inn í það hvernig nýjar áherslur í herstefnulegum efnum spila inn í þetta mál? Ég spyr hv. þm. og svari hver fyrir sig.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að fjalla um álit 2. minni hl. Það er frekar stutt og það er sjálfsagt ekki óskaplega mikið um slíkt álit að segja. Ég hefði talið mjög æskilegt að hv. þm. Haraldur Ólafsson hefði til að mynda haft í sínu nál. eitthvað svipað mál og hann flutti í framsöguræðu og hefði slíkt nál. legið fyrir með einhverjum fyrirvara, ég tala nú ekki um, hefði það hugsanlega auðveldað manni að glöggva sig á skoðun hans og þá væntanlega þess flokks sem hann situr fyrir í utanrmn.

Hann bar fram t. d. þá spurningu: Er hugsanlegt að AWACS-flugvélarnar, fljúgandi ratsjárstöðvarnar, fari burtu þegar þessar nýju ratsjárstöðvar koma? Þetta er mjög gild spurning og mundi vissulega hafa áhrif á afstöðu manna í þessum efnum eða gæti haft það. Ég verð því miður að svara hv. þm. Haraldi Ólafssyni, vegna þess að ég er ekki viss um að aðrir verði til þess, neitandi. Allar þær upplýsingar sem ég hef undir höndum benda til þess að svo verði ekki. Ég hef hvergi séð það á prenti hjá Bandaríkjaher eða bandarískum þingnefndum, sem um þessi mál fjalla, að slíkt standi til. En því miður hef ég séð hitt á prenti, að það standi enn til, sem við höfum áður heyrt, að fjölga þessum vélum og það liggur reyndar fyrir að bandaríski herinn hefur þegar fest kaup á og er að festa kaup á og borga inn á fjöldann allan af slíkum vélum, m. a. fyrir þær deildir hersins sem hér reka starfsemi.

Annar liður í máli hv. þm. Haralds Ólafssonar er einnig mjög gildur, þ. e. spurningin um tengingu þessara mannvirkja við annan búnað. Það er lykilatriði í þessum efnum sem ég hef frá upphafi lagt mikla og þunga áherslu á. Sem betur fer hefur nokkuð miðað í þá átt að fá menn til þess að horfast í augu við að hér sé um áætlanir og samtengd plön að ræða um uppbyggingu vígbúnaðar á Íslandi. Skýrsla öryggismálanefndar eftir Gunnar Gunnarsson er mikilvægt atriði í því efni þar sem því er beinlínis haldið fram og það fullyrt af fagmönnum og síðan hefur því ekki verið mótmælt mér vitanlega opinberlega. En fram að þeim tíma var ósköp lítið tekið undir spurningar manna og fullyrðingar um þau efni og reynt að láta menn líta á þetta eins og einangrað fyrirbrigði í veröldinni.

Því er aldeilis ósvarað, og ég tek undir það með Haraldi Ólafssyni, hvort það sé skynsamleg leið að stefna á aukningu vígbúnaðar, aukna gæslu eða hvað sem menn vilja kalla það og hvort menn geti ekki náð fram sömu markmiðum, þ. e. auknu öryggi íslensku þjóðarinnar, með allt, allt öðrum leiðum, t. d. því að stuðla að slökun. Ég vil benda hv. þm. Haraldi Ólafssyni á að grg. með þessari þáltill. hefst einmitt á þeim orðum hvort ekki sé vænlegra fyrir íslensku þjóðina að reyna að tryggja öryggi sitt með því að beita sér fyrir aðgerðum sem stuðlað gætu að slökun í þessum heimshluta. Hvað þetta varðar virðist því bilið ekki langt á milli skoðana flm. þessarar till. og hv. 9. þm. Reykv. En ég kem örlítið nánar að þætti Framsfl. sem heildar, ef hægt er að tala um hann í þeim líkingum í þessu máli, hér á eftir.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson hélt uppi miklum vörnum fyrir hæstv. utanrrh. og þar fékk nú Framsfl. aldeilis til tevatnsins. Hann fékk kennslustund í því, Framsfl., hvernig góður NATO-flokkur á að vera og hvernig góður NATO-flokkur má ekki haga sér. Góður NATO-flokkur má aldrei leyfa sér að gagnrýna málsmeðferð hæstv. utanrrh. á hverjum tíma í svona málum. Það er bannað í góðum NATO-flokki og hv. þm. Kjartan Jóhannsson vill endilega að Framsfl. viti þetta, a. m. k. héðan í frá.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að sennilega eru allir flokkar á Íslandi sammála um að slaka á spennu, en menn ætla mismunandi leiðir í þeim efnum. Alþfl. og Sjálfstfl. ætla að slaka spennuna á Norður-Atlantshafi með því að leyfa Bandaríkjamönnum aukningu á vígbúnaði. Það er þeirra aðferð. Þannig birtist þessi vilji þeirra í verki. Og það eru verkin sem sýna merkin, ekki orðin, hv. þm. Þess vegna dæmi ég menn í þessum efnum fyrst og fremst af verkum þeirra vegna þess að reynslan hefur sýnt mér að sunnudagsræðurnar eru ekki marktækar í þessum efnum. Það eru verkin eins og þau birtast okkur sem tala og af þeim skulum við dæma mennina. Af ávöxtunum skulu þeir þekkja þá. Og ávextir þessara flokka eru sem sagt þeir sem ég hef hér rakið. Þeir eru aukning vígbúnaðar. Þeir eru ný hernaðarmannvirki. Þeir eru „já“ og „takk fyrir“ í hvert einasta skipti sem Bandaríkjaher biður um nýjar framkvæmdir á Íslandi. Nefnið mér eitt dæmi, hæstv. utanrrh. og hv. þm. Kjartan Jóhannsson, um að beiðnum frá Bandaríkjaher hafi verið vísað frá þegar íslensk yfirvöld, þegar utanrrh. á hverjum tíma hefur neitað Bandaríkjaher um einhverjar nýjar viðbætur við herbúnað hér á landi? Ég bið um dæmi. Nefnið mér dæmi. Nei, því miður hefur það verið „já“- og „takk fyrir“- stefnan, yes sir-stefnan.

Um ræðu hv. þm. Guðmundar Einarssonar, ágæts sessunautar míns á hv. Alþingi, vil ég segja sem allra, allra minnst. Mér fannst þetta hálfsnautleg magalending hjá þeim ágæta þm. og minnti mig óþægilega mikið á þá Bjarmalandsför sem flokkurinn Bandalag jafnaðarmanna fór t. d. í afgreiðslu á öðru máli á hv. Alþingi í vetur þegar til umfjöllunar var samkomulag við auðhringinn Alusuisse. Þá lutu þeir í duftið og kysstu á vöndinn þrátt fyrir að í raun og veru virtust þeir efnislega ósammála þeim gjörningi og kom það m. a. fram í þeirra ræðum. Ég heyrði það, bæði á hv. þm. Guðmundi Einarssyni og einnig hefur það að sjálfsögðu komið fram hjá meðflutningsmanni mínum að þessari till., að BJ virtist hafa ýmislegt við þessa málsmeðferð og þessar framkvæmdir að athuga, en þetta er a. m. k. niðurstaðan hvað hv. þm. og ágætan sessunaut minn, marglofaðan, varðar og ég harma það.

Herra forseti. Menn geta deilt um hversu marktækar þær eru, en vissulega eru vísbendingar uppi um að andstaðan við þessi nýju hernaðarmannvirki sé miklu meiri meðal þjóðarinnar en oft áður hefur verið um einhverjar slíkar framkvæmdir á vegum bandaríska herliðsins hér á Íslandi. Skoðanakannanir í tveimur dagblöðum í borginni, DV og NT, sem nýlega hafa verið gerðar eða tiltölulega nýlega, sýna það báðar og eru nokkuð samhljóða í þeim efnum að jafnvel rúmlega helmingur aðspurðra er á móti þessum framkvæmdum. Nú hefur því verið haldið fram af hæstv. utanrrh. og af fleiri mönnum hér á Alþingi, þ. e. hv. þm., að í þessu máli skipti það máli fyrst og fremst hvort þú værir fylgjandi eða andvígur veru okkar í NATO, línur lægju þannig að annaðhvort væri þú með eða á móti, annaðhvort værir þú með okkur góðu mönnunum eða á móti. Gott og vel, þetta er uppstilling hæstv. utanrrh. Hv. þm. Magnús Reynir, sem hér sat á þeirri tíð er við ræddum þessa till., hafði svipaða uppstillingu á þessum málum og einnig hv. þm. Eiður Guðnason sem tók með mjög eftirminnilegum hætti þátt í umr. um þessa till. fyrr í vetur, á ákaflega málefnalegan og sérkennilega eftirminnilegan hátt. En ég vil þá spyrja þessa hv. þm. og hæstv. utanrrh. að því: Eru þeir þar með að viðurkenna og þar með að segja að rúmlega helmingur þjóðarinnar sé á móti NATO, andvígur veru okkar í Atlantshafsbandalaginu? Ef ég tek þá á orðinu, þessa hv. þm. og hæstv. utanrrh., og nota þeirra eigin skilgreiningar, að í þessu máli hljóti menn að fylgja þessum nýju hernaðarmannvirkjum ef þeir styðji veru okkar í NATO, þá er það niðurstaðan, studd skoðanakönnunum, að nú sé svo komið eða í öllu falli sé það svo í dag hvernig sem það hefur áður verið að sennilega rúmlega helmingur sé á móti þessu hernaðarbandalagi. Ekki ætla ég að harma þá niðurstöðu. Ég hef lengi alið þá von í brjósti að svo væri það og sannarlega ánægjulegt ef hér bætast mér rök til að trúa því.

Í öllu falli er ljóst að andstaðan er mikil og almenn og hún er meðal fylgjenda allra stjórnmálaflokka, bæði kjósenda allra stjórnmálaflokka og einnig flokksbundinna fylgismanna eins og hér hefur áður komið fram í umr. Og ég hygg og ég hef skýrt það svo fyrir sjálfum mér að þetta stafi ósköp einfaldlega af því að menn leyfi sér í þessum efnum að mynda sér sjálfstæða skoðun á réttmæti þessara sérstöku framkvæmda burtséð frá því hvaða afstöðu þeir annars hafa til veru okkar í Atlantshafsbandalaginu eða t. d. veru bandaríska hersins hér. Og það hefur reyndar komið fram. Það mætti vitna í fjöldamargar blaðagreinar og yfirlýsingar ákveðinna manna þessu til stuðnings þar sem menn, flokksbundnir í Sjálfstfl. eða flokksbundnir í Framsfl. eða Alþfl., lýsa sig gjarnan fylgjandi veru okkar í Atlantshafsbandalaginu, en algerlega andvíga aukningu á herbúnaði hér. Þetta ætti að verða þessum hv. þm. og hæstv. utanrrh. nokkurt umhugsunarefni, ég segi ekki annað en það. Þetta ætti að verða honum ofurlitið umhugsunarefni um það hvort hann sé endilega á réttri braut, hvort gamla góða uppstillingin, við góðu mennirnir og hinir vondu mennirnir, sé kannske eitthvað að verða þokukennd, hvort íslenska þjóðin sé nú allt í einu að leyfa sér þann munað, þrátt fyrir Moggann og þrátt fyrir allt það, að taka einstöku sinnum sjálfstæðar ákvarðanir og mynda sér sjálfstæða afstöðu til einstakra framkvæmda, til einstakra málaflokka innan þessa málasviðs án tillits til heildarafstöðu þeirra í þessum málum.

Afstaða Framsóknarflokksins, sem er undir forustu hæstv. forsrh. og var að halda miðstjórnarfund nýlega, skilgreinir sig þar sem miðjuflokk, er öll með nokkuð sérkennilegum hætti í þessu máli. Ég held það verði naumast horft fram hjá því að þessi flokkur hefur birst mönnum í nokkuð sérkennilegum myndum í þessu máli. Reyndar er öll saga þess flokks og afskipti hans af utanríkismálum með sérstökum hætti. En það hefur naumast farið fram hjá mönnum að á síðustu árum, jafnvel áratugum, hefur þessi flokkur mjög oft bakkað í það vígi og reynt að sætta sína fylgjendur á þeim forsendum að hann vildi nokkurn veginn óbreytt ástand í þessum málum. Hann bakkar í það vígi að vera á móti breytingum, vera á móti t. d. auknum hernaðarframkvæmdum. Þessu hafa menn iðulega kynnst í ályktunum frá flokknum ef þeir nenna þá yfirleitt að minnast á utanríkismál í slíkum gjörðum á sínum fundum. Á þessum buxum var hæstv. forsrh. og hann situr hér þó ég sjái það ekki nema teygja mig dálítið til í stólnum og ég ætla þá að eiga við hann svolítil orðaskipti um þetta mál.

Hann fór á einhvern framsóknarfund vestur á firði. Hann fer vítt og breitt á framsóknarþing og framsóknarfundi, stundum til útlanda, en í þetta skipti fór hann vestur á firði og þar barðist hann af miklum garpskap gegn samþykktinni á þeirri forsendu að hér væri ekki um hernaðarmannvirki að ræða og þess vegna væri þetta allt í lagi, Framsfl. væri bara á móti nýjum hernaðarmannvirkjum, en í þessu máli gæti hann alveg verið stikkfrí vegna þess að þetta væru ekki hernaðarmannvirki. Nú held ég að það sé rækilega afhjúpað og ég bið einhvern, ef hann treystir sér til, að koma hingað í stólinn og bera á móti því að hér sé um slíkt hernaðarmannvirki að ræða. Gaman væri að geta frestað þessari umr. um stundarsakir, herra forseti, og sent hæstv. forsrh. vestur á firði, boðað í snatri fyrir hann kjördæmisþing framsóknarmanna þar og látið þá taka upp að nýju leik sinn um ályktunina frægu forðum og vita hvernig lyktir yrðu nú í þessu nýja ljósi.

En hvað um það. Það er auðvitað hausverkur Framsfl. og hæstv. forsrh., sem veitir honum forustu, hvernig sá flokkur fer með trúnað sinna stuðningsmanna í þessum málum. En það hefur naumast farið fram hjá framsóknarmönnum hér, hv. þm. og hæstv. forsrh., að einmitt fylgjendur þess flokks hafa verið mjög áberandi í því liði sem barist hefur gegn þessum framkvæmdum um land allt og alveg sérstaklega í þeim byggðarlögum þar sem fyrirhugað er að reisa þessi mannvirki. Það mætti einnig verða hæstv. forsrh. nokkurt umhugsunarefni, til þess að hann fái nú eitthvað til að hugsa um líka, hvernig þeir eru að bregðast trúnaði kjósenda sinna hvað þetta varðar. Allt finnst mér þetta heldur dapurlegt fyrir flokkinn.

Hæstv. forsrh. veitti viðtöku mótmælum heimamanna á Norðurlandi eystra á bænarskrá sem þeir rituðu til ríkisstjórnar Íslands, rétt eins og Vestfirðingar gerðu, og hann veitti þá viðtal þremur sendimönnum, grandvörum borgurum þar eystra, sem færðu honum þessar undirskriftir. Ég hef fyrir því orð allra þessara sendimanna, get nafngreint þá hér ef þess er óskað, að hæstv. forsrh. hafi í viðræðum við þá gefið þeim vilyrði sín fyrir því, tekið það fram til að hægja hugi þeirra, að hann mundi ekki standa að því að slíkar framkvæmdir yrðu settar niður í byggðarlögum í andstöðu við meiri hluta heimamanna. Ég bið hæstv. forsrh. þá að koma upp og leiðrétta sé þetta ekki rétt með farið. Í ljósi þeirra ummæla sem hann lét falla við þessa sendinefnd heimamanna hlýt ég að spyrja hann hér og ég tel óhugsandi að ljúka afgreiðslu þessarar till. fyrr en ég hef fengið við því skýr svör: Stendur þessi yfirlýsing hæstv. forsrh. og formanns Framsfl., Steingríms Hermannssonar? Mun hann sem höfuðið á hæstv. ríkisstj. beita sér fyrir því að ákvarðanir um staðsetningu þessara stöðva, ef til þess kemur, og þessi till. nær ekki fram að ganga, verði ekki teknar fyrr en gengið hefur verið úr skugga um með marktækum hætti hver sé afstaða heimamanna í þeim byggðarlögum sem menn renna sjónum til í þessu tilliti? Ég treysti því að hæstv. forsrh. komi upp og svari þessu, auk þess sem það væri ákaflega fróðlegt að fá að heyra nokkur orð falla nánar um stefnu Framsfl. í þessum málum í leiðinni.

Ég hef áður rakið það, herra forseti, og ætla að reyna að spara mér að gera það hér, hvernig þessar framkvæmdir tengjast öllum þeim miklu framkvæmdum sem ýmist standa yfir eða eru fyrirhugaðar á vegum bandaríska hersins hér á Íslandi, hvernig þær tengjast stjórnun herafla og upplýsingamiðlun innan Bandaríkjahers, hvernig þetta rennur saman í höfuðstöðvum hersins á þeim hinum sama stað þar sem ákvarðanir æðstu manna um t. a. m. kjarnorkustyrjöld yrðu teknar, og ég ætla ekki að fara yfir það allt aftur. Ég treysti því að hv. þm. hafi kynnt sér það eins og annað í sambandi við þetta mál. Í ljósi nýrra upplýsinga, sem komið hafa fram um enn eina framkvæmd sem hugsanlega er fyrirhugað á Íslandi í þessum vígvæðingarmálum, hlýt ég að eyða nokkrum orðum að því. Ég á hér við þau áform sem sannanlega eru uppi um að reisa svonefndar OTH-radarstöðvar, kallaðar risaradarstöðvar hér eftir í umr., og hvernig þær gætu tengst þessum framkvæmdum sem og auðvitað öðrum áformum um hernaðaruppbyggingu á Íslandi. Þetta mál bar á góma fyrir nokkrum dögum þegar ég spurði hæstv. utanrrh. ákveðinna spurninga í sambandi við stöðu mannvirkjagerðar á vegum bandaríska hersins hér á Íslandi svo og komu herskipa í íslenskar hafnir. Þá skilaði hæstv. utanrrh. auðu, það var blankó. Hann hafði ekki heyrt á þetta minnst og gat þar af leiðandi ekki mikið um þetta sagt eðli málsins samkvæmt. Ég var svo sem ekki neitt að skamma hæstv. utanrrh. fyrir að standa svona á gati með þetta, en ég var ekki að hæla honum heldur. T. a. m. hefur komið í íslenskum blöðum ágæt grein þar sem vitnað er í fjölmargar heimildir þar sem þessi áform eru reifuð eða rædd. Það er nú svo að þegar leikmenn uppi á Íslandi geta flett upp á ekki færri en a. m. k. fimm áreiðanlegum heimildum fer maður að líta í eigin barm og íhuga hvernig unnið er á þeim bæ þar sem forusta þessara mála á að vera fyrir hönd þjóðarinnar þegar það gerist að hæstv. utanrrh. verður að skila auðu, hefur ekki hugmynd um að neitt af þessu tagi sé til. Haldi menn að hér sé einhver vondur áróður á ferðinni, hér séu einhverjir vondir menn með vélaþras að ljúga einhverjum áætlunum held ég að menn ættu að sannfærast um að svo sé ekki ef ég les upp fyrir þá t. d. hvaða heimildir er hér vitnað í um að til standi að setja upp hér á norðurslóðum svonefndar OTH-radarstöðvar og þá sérstaklega talað um Ísland eða NADS-kerfið, Norður-Atlantshafsvarnarkerfið, sem fyrst og fremst er notað sem samheiti yfir svæðið sunnanvert, Grænland, Ísland og Færeyjar, og böndin beinast þá að sjálfsögðu óhjákvæmilega að Íslandi sérstaklega í þeim efnum, auk þess sem það er í sumum þessum heimildum alveg sérstaklega nefnt.

Ég vil lesa hér, með leyfi forseta, úr grein sem birtist í dagblaðinu NT á föstudaginn 19. apríl undir dálkaheiti „Vettvangur“ og er eftir þá Árna Hjartarson og Vigfús Geirdal. Þar segir, með leyfi forseta:

„Víða í ritum um hermál og hergagnaiðnað er ýjað að því að til standi að koma OTH-ratsjá fyrir á Íslandi. Sem dæmi um þetta má nefna rannsóknargreinargerð á vegum Bandaríkjaþings eftir hernaðarsérfræðinginn Berth H. Cooper (og greinin heitir: Maritime Roles for Land-Based Aviation), grein William Arkins — Arsenal Móve North — og frétt í svissneska herfræðiritinu International Defence Review 1984, síðu 954.“

Í grein í árbók sænsku friðarrannsóknarstofnunarinnar SIPRI 1984 er vitnað og síðast en ekki síst vitna höfundar máli sínu til staðfestingar í vitnisburði sem hinn frægi Wesley McDonald aðmíráll sem hefur sennilega að öðrum mönnum ólöstuðum verið einna oftast nefndur í allri þessari umræðu og er yfirmaður Norður-Atlantshafsfiota Bandaríkjanna og einnig NATO. Hann sagði frammi fyrir hermálanefnd öldungadeildar bandaríska þingsins nú í febrúar 1985 „að ekki megi dragast að endurnýja og efla ratsjárkerfið á Íslandi, að bygging OTH-ratsjár innan þessa kerfis (NADS-kerfisins) komi til með að efla mjög leiðbeiningar- og varnargetu þess.“ Síðan getur hann þess að þingið hafi hafnað fjárhagsbeiðni til þessa máls fyrir árið 1985, en telur alveg brýnt og nauðsynlegt að framlög komi á árinu 1986 til að koma málinu aftur á rekspöl.

Þannig er þetta sem sagt að á árinu 1985 eða fyrir fjárhagsárið 1985, og þær umræður hafa þá væntanlega farið fram snemma árs 1984, fór bandaríski herinn fram á fjárveitingar til þessara mála. Þetta mun liggja fyrir í opinberum skýrslum þarna vestra. Engu að síður veit utanrrn. ekkert um það að þessar áætlanir séu uppi og virðist ekki hafa haft fyrir því að lesa þessar heimildir, eða hvað? Á maður ekki að trúa því að það sé rétt og satt, sem hér hefur verið upplýst af hálfu hæstv. utanrrh., að þeir hafi ósköp einfaldlega ekkert vitað um þetta mál? Ég held, herra forseti, að hér séu í raun og veru svo alvarlegir hlutir á ferðinni, og af því að þeir tengjast radarmannvirkjum, ósköp einfaldlega vegna þess að þarna er um radarstöðvar að ræða þó með nokkuð sérkennilegum hætti sé, þá tel ég óhjákvæmilegt að draga þetta fram hér í umræðunum þó væntanlega gefist frekara tóm til að ræða þetta síðar, t. d. þegar rædd verður skýrsla hæstv. utanrrh. hér á Alþingi innan tíðar.

Að lokum enn um þessar radarstöðvar, þessar risaradarstöðvar. Taki maður landakort hér af norðurhöfum og dragi á það hringi umhverfis Ísland, um þau svæði sem radarstöðvar staðsettar t. d. á þessum fjórum stöðum á Íslandi þekja, taki síðan stöð af þessari risaradargerð og setji hana niður í Keflavík, þá byrjar sjónsvið hennar t. d. til norðurs og norðausturs rétt áður en þekju stöðvar á Norðausturlandi lýkur, vegna þess að þessar stöðvar eru þannig upp byggðar að þær sjá ekkert hið næsta sér. Sjónsvið þeirra byrjar í ca. 500 km fjarlægð frá þeim stað þar sem þær eru niður settar vegna þess að þær byggja á þeirri tækni að varpa geislunum upp í efri lög lofthjúpsins. Síðan endurvarpast hann þaðan niður aftur og skynjunin hefst í um 500 km fjarlægð frá þeim stað sem stöðin er staðsett á. En síðan nær stöðin eða geisli hennar alla leið austur til t. a. m. ekki ómerkari staða en Múrmansk og langleiðina til Leningrad, svo að þekkt nöfn úr landafræðinni séu nefnd. Þá sjá menn hvílíkt ógnarsjónsvið þessar stöðvar hafa og hvílík geta þeirra er og ætti varla að þurfa að deila um það að þar er mikil breyting á ferðinni ef slíkar stöðvar eiga að fylgja í kjölfarið á þeim sem nú eru áform uppi um að reisa.

Menn kunna að afgreiða þennan málflutning minn hér þannig að þetta komi ekki málinu við, þetta sé allt annar hlutur, allt önnur framkvæmd, við séum bara að tala hér um litlu saklausu radarstöðvarnar. Ég yrði ekkert hissa á því þó einhverjir hv. þm. eða jafnvel hæstv. ráðh. kæmu hér á eftir og reyndu að afgreiða þetta mál á svo einfaldan hátt. Maður er því mjög vanur þegar þessi mál eru til umfjöllunar. En ég bið menn þá aftur að hugsa, og þeir mega bara svara hver fyrir sig ofan í sitt brjóst: Finnst mönnum líklegt að það séu algerar tilviljanir að þessi áform rekast öll á sama tíma, að í skýrslum Bandaríkjahers og yfirheyrslum Bandaríkjaþings er þetta allt undir sömu skammstöfunum, að þetta eru liðir í sama varnarkerfi eða sömu herstrategíunni og það eru sömu menn sem rökstyðja beiðni um þessa hluti fyrir fjárveitingavaldi Bandaríkjaþings? Ég óttast að svo sé ekki. Ég óttast að hér sé ósköp einfaldlega næsta skref eða eitt af næstu skrefunum í þessum miklu áætlunum um uppbyggingu og endurnýjun og aukinn vígbúnað sem við erum að horfa upp á.

Ég held að þetta mál, sem ég hef hér sérstaklega gert að umtalsefni, ætti líka að verða mönnum ofurlítil innsýn í það myrkur vanþekkingar og blekkingar sem ég held að þessi mál séu meira og minna afgreidd í, því miður. Finnst mönnum það t. d. eðlilegt að hæstv. utanrrh. eða hæstv. utanrmn. skuli ekki hafa slíka hluti til umfjöllunar? Finnst mönnum það ekki a. m. k. óheppilegt að enginn skuli hafa rekið augun í þetta fyrr, þannig að hæstv. utanrmn. t. a. m. hefði getað aflað sér nánari upplýsinga um þetta, úr því að utanrrn. varð ekki til þess að upplýsa þá sérstaklega um þetta? Ég held að þetta sé mjög óheppilegt og ég hlýt auðvitað að harma það, eins og menn yfirleitt gera hér á Alþingi, að svona skuli að þessu staðið. Það var ágætlega staðið að því að kynna þau miklu afnot sem Íslendingar gætu haft af þessum stöðvum. Ég hef áður tekið undir það og ég er sammála því, en það fór miklu, miklu minna fyrir umfjöllun um hluti eins og þá sem ég hef hér gert að umtalsefni.

Það hefur mikið verið notað þessu máli til framdráttar og átti reyndar í upphafi fyrst og fremst að kynna það og reka þennan málatilbúnað á þeim forsendum að hér væri á ferðinni hið mesta þarfaþing fyrir okkur Íslendinga. Þetta væru í raun og veru engin hernaðarmannvirki en hins vegar svo og svo gagnleg fyrir okkur í ýmsu tilliti. Mér eru sérstaklega minnisstæð orð sem hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. létu falla hér á hv. Alþingi í fyrravetur í þessu sambandi. Ég hélt því þá fram að hér væri á ferðinni aronska, eins og það hefur verið nefnt þegar menn vilja gera sér veru Bandaríkjahers hér að féþúfu alveg á sérstakan máta.

Á landsfundi Sjálfstfl. sem haldinn var í Laugardalshöllinni um daginn, þar sem menn gera víst meira af því að spila handbolta en stundum halda menn þar fundi, voru uppi raddir um að láta Bandaríkjamenn leggja hér vegi. Mönnum finnst þetta kannske ekki merkilegt mál en þessar raddir voru þó þarna uppi og einhvern slunk fékk þetta af atkvæðum. (ÞP: Kolfellt.) Kolfellt að vísu, og auðvitað fagna ég því, en eitthvað fékk þetta nú af atkvæðum. Ég nefni þetta með Sjálfstfl. og landsfund hans vegna þess að þetta er auðvitað ekkert nýtt, það hafa lengi verið uppi raddir um það að við ættum að láta herinn borga svo og svo mikið eða gera þetta og hitt, leggja vegi, byggja flugvelli o. s. frv. Og þá hefur maður oft spurt: Hvar á þá að draga línuna? Hvar vilja menn setja mörkin? Hvað eigum við að láta herinn gera og hvað ekki? Verðum við menn til að standa gegn freistingunum og láta þá gera sífellt meira og meira á meðan við lifum í meira og meira bílífi? Ég held því miður að hér sé einmitt verið að fara inn á braut aronskunnar með mjög ísmeygilegum hætti, ákaflega lúmskum hætti. Þetta er gert undir mjög fögru yfirskini. Það er allt ákaflega göfugt sem þessu á að fylgja, þetta er yfirleitt mjög göfugt. En ég benti á það hér fyrr í umræðunum að óhjákvæmileg afleiðing af því að tvinna saman starfsemi borgaralegra íslenskra stofnana og þjónustu við bandaríska herinn yrði sú að stofnanirnar yrðu fjárhagslega háðar þessari starfsemi, tilhneigingin yrði sú að þær yrðu í vaxandi mæli háðar þeim fjármunum sem þær fengju af þessari starfsemi. Og ég held að það sé kannske einhver alvarlegasti hluturinn í þessu máli, og ég ætla að gera hann hér undir lokin sérstaklega að umræðuefni, þessi samtvinnun opinberra stofnana, þjónustustofnana ríkisins og fleiri aðila við hermangið. Boðveitukerfi — eins og nú er sagt á fínu máli — Landssímans er lagt undir það að flytja þessi boð. Tilkynningaskyldu og björgunarsveitum og flugmálastjórn og fleiri aðilum er ætlað að vinna meira og minna úr þessum upplýsingum og meðhöndla þær á einn eða annan máta. Það gefur auðvitað auga leið að allar verða þessar stofnanir þar með að hluta til að sinna verkefnum sem tengjast þessu hernaðarlega hlutverki. Og hver dregur þá í sundur? Hver dregur þá markalínuna? Hvar verður hún dregin? Ég hélt satt best að segja að það væri nokkuð óumdeild stefna, og enn á hún allmikið fylgi eins og landsfundur Sjálfstfl. sannaði, að halda hermanginu og þjóðlífinu sem mest aðskildu. Og maður hefur getað huggað sig við það á dökkum tímum í þessum málum að þetta væri þó ákveðin vörn og ákveðið haldreipi fyrir okkur öll án tillits til þess hvaða afstöðu við höfum að öðru leyti. Mér sýnist þetta vígi okkar vera að bresta. Ég fæ ekki betur séð af máli hæstv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar og hæstv. samgrh., sem upplýsti það að annars konar búnaður bandaríska herliðsins væri nú þegar fyrir í a. m. k. einni stöð Landssíma Íslands, að með þessu móti sé verið að deyfa eða þynna út þessa varnarlínu og þetta sé að fingrast meir og meir inn í ýmsar greinar þjóðlífsins og fari þar að hafa efnahagsleg áhrif og ýmis önnur áhrif. Og ég held að skriðan verði mjög þung ef þessi varnarlína brestur.

Ég segi það alveg eins og er að ég hef af þessu atriði alveg sérstakar áhyggjur, einnig vegna þess að hæstv. utanrrh. hefur haft uppi í viðtölum við blöð og víðar ummæli af því tagi að hann ætli nú að auka þetta og hitt hjá sér, stækka varnarmáladeild eða breyta, hann vilji helst kenna Landhelgisgæslunni að veiða upp djúpsprengjur o. s. frv. o. s. frv. Þetta gengur í raun og veru allt í sömu átt. Utanrrh. á hugsanlega eftir að koma hingað upp og væntanlega fást þá skýr og greinargóð svör um það hvaða stefna er hér á ferðinni í þessum efnum.

Ég vil segja það að lokum, herra forseti, að hvernig sem þetta mál sem hér er nú til umræðu fer, hvaða afgreiðslu sem það fær, þá er það vissa mín, og hún hefur styrkst mjög mikið á þessum síðustu mánuðum sem m. a. þetta mál hefur haldið mér nokkuð uppteknum, það er vissa mín að þessi áform og önnur slík hernaðaryfirvaldanna og smjördrependa þeirra hér á Íslandi — ég kalla þá smjördrependur sem smyrja sneiðina — að þessi áform njóti sífellt minna fylgis meðal þjóðarinnar, að andstaða við aukningu vígbúnaðar hér á Íslandi fari vaxandi. Ég held að hún fari vaxandi og muni fara vaxandi í réttu hlutfalli við þær auknu hernaðarframkvæmdir sem hernaðaryfirvöldin og smjördrependur þeirra hér á Íslandi ætla sér að standa fyrir á næstu mánuðum og árum, og það er vel. Og þá er það sannfæring mín og það er trú mín og það er von mín að sú elfa, elfa þeirrar andstöðu almennings í landinu muni flæða yfir bakka sína og völdin verði þá tekin af skammsýnum mönnum sem hafa verið að kasta fjöreggi sjálfrar tilverunnar, lífsins, á milli sín. Ég á hér ekkert síður við skammsýna menn annars staðar í heiminum en á Íslandi.

Við verðum að vona það að á meðan við bíðum þess að þetta gerist þá sé enn eftir nógur sandur í stundaglasinu til þess að við getum snúið því við áður en hann rennur allur niður, því að án þess að við trúum því og vonum það að mannkyninu takist að snúa þessum farnaði við áður en sandurinn er búinn er auðvitað enginn tilgangur í því að ræða mál eins og þessi, hvorki hér á hv. Alþingi né annars staðar. Það væri þá best að fara heim og leita sér að hvítum lökum.

Ég er í hópi þeirra sem vilja trúa því og ég ætla mér að trúa því í lengstu lög að mannkyninu muni auðnast að snúa farnaði veraldarinnar af þessari óheillabraut sem hann virðist nú um stundir vera fastur í. Ég hef sagt það áður og get þess vegna gert það enn og aftur að mínum lokaorðum að ég vil fyrir mitt leyti a. m. k. og þeirra manna, sem ég veit að eru mér sammála margir hverjir norður við Dumbshaf, gera mitt til þess að okkar heimbyggð láti ekki mótmælalaust það yfir sig ganga að hennar lendur verði notaðar í slíkum hildarleik. Ég tel miklu nær, miklu meira vit í því og miklu fremur sæmandi þjóð eins og okkur Íslendingum að leggja lóð okkar á aðrar vogarskálar og ég hef lýst því yfir að ég er sjálfur persónulega tilbúinn að taka nokkra áhættu til þess að stíga skref í rétta átt. Það byrja allar ferðir á einu skrefi og einhvers staðar verður að stíga hvert það skref sem byrjar nýja ferð. Það er hugsanlega hægt að fara í margar ferðir samtímis, en ég hef sagt og segi það enn að ég held að Ísland sé ekki verri staður en hver annar til þess að taka skref í átt til afvopnunar, í átt til slökunar, og sýna með því vilja í verki til afvopnunar og friðarvilja. En það er líka hægt að sýna vilja sinn í verki með því að gera ekki eitthvað sem til stendur, að neita að taka þátt í einhverju sem til stendur. Og það er þannig skref sem okkur Íslendingum býðst núna að stíga. Það er þannig skref sem heimamenn við Þistilfjörð og heimamenn á Vestfjörðum hafa þegar ákveðið að stíga, mjög margir þeirra, með því að neita að taka þátt í því að þeirra heimahéruð, þeirra heimalönd verði notuð í þessu tilliti.

Herra forseti. Skyldi leið mín ekki liggja aftur hingað í þennan virðulega ræðustól í þessari umræðu þá vil ég óska þess hér að að lokinni umræðu, þegar tillaga þessi verður afgreidd, þá verði haft nafnakall í atkvgr.