23.04.1985
Sameinað þing: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4538 í B-deild Alþingistíðinda. (3813)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er alltaf ánægjulegt að heyra menn tala sem augljóslega hafa kynnt sér mjög vandlega þau málefni sem til umræðu eru. Það heyrist mér að hv. síðasti ræðumaður hafi gert. Hins vegar er leitt þegar menn virðast draga ályktanir fyrir fram og reyndar eingöngu leita að rökstuðningi fyrir þeirri skoðun sem þeir hafa mótað sér áður. Ég vil afþakka allar upplýsingar frá hv. þm. um þær umræður sem farið hafa fram innan Framsfl. um þessi mál, hvort sem er á Vestfjörðum eða annars staðar. Það sem sagt var um kjördæmisþing okkar á Vestfjörðum var í veigamiklum atriðum mishermt. Framsfl. hélt hins vegar mjög athyglisverða ráðstefnu, ég tel að flestra dómi, hér í Reykjavík um þessi mál og hún var opin öllum og hv. þm. að sjálfsögðu velkomið að vera þar og taka þátt í þeirri umræðu. Hygg ég að hann hefði fræðst þá enn um ýmsa þætti varnarmála.

Hv. þm. spurði hvort ég muni beita mér fyrir því að leitað yrði álits heimamanna á staðsetningu radarstöðva og vísar þá til þess að á minn fund gengu fulltrúar andstæðinga radarstöðva á Norðausturlandi og afhentu mér áskorendalista gegn radarstöð. Ég sagði við þessa menn að ég teldi eðlilegt að leitað væri álits heimamanna og ég teldi óæskilegt að reisa radarstöð, álbræðslu eða yfirleitt annað slíkt mannvirki — ég hygg að ég hafi tekið nokkurn veginn þannig til orða — þar sem heimamenn leggjast gegn slíku. Ég hef hins vegar aldrei lofað að beita mér fyrir slíkri athugun, það hef ég aldrei gert. Ég hef kynnt mér þessi mál í mínu kjördæmi og ég er sannfærður um að mjög mikill meiri hluti íbúa, ekki bara Bolungarvíkur heldur þótt allvíða sé farið um nágrenni fyrirhugaðrar radarstöðvar þar, telur rétt að reisa þessa radarstöð. Eftir því sem ég best veit liggur aðeins fyrir álit hreppsnefndar eins hrepps á Norðurlandi eystra, ef ég man rétt. Það er ekki einu sinni ákveðið hvar radarstöðin yrði reist ef reist verður. Ekki liggur t. d. fyrir álit íbúa Þórshafnar eða hreppsnefndar þar. Ég hygg að það sé annarra að leita eftir slíku áliti og þá sýnist mér sjálfsagt að stjórnvöld vegi það og meti. Hins vegar er ljóst að radarstöð sem hér er til umræðu mun að sjálfsögðu þjóna hagsmunum langtum stærra svæðis heldur en næsta nágrennis radarstöðvarinnar þó að ég telji að það eigi að hafa slíkt í huga. Og það hljóta stjórnvöld að sjálfsögðu að meta.

Ég vil svo segja almennt um afstöðu mína og ég hygg ég megi segja Framsfl. því þó þar séu skiptar skoðanir um þessi mál hygg ég að afstaða mikils meiri hluta framsóknarmanna sé í þá veru sem ég vil nú lýsa: Ég hef hvað eftir annað lýst því yfir og reyndar lengi vonað að hér þyrfti ekki að vera varnarlið og fagna þeirri stundu þegar það fer. Ég hef einnig oft lýst því yfir að ég vildi gjarnan að við Íslendingar þyrftum ekki að vera þátttakendur í neinum hernaðarbandalögum og jafnvel þó það sé varnarbandalag, eins og Atlantshafsbandalagið gjarnan nefnist. Og reyndar hef ég oft lýst þeirri von minni að slík bandalög verði óþörf í heiminum. Því miður hefur hvorki mér né öðrum orðið að þessum vonum. Því miður er ógnarjafnvægið sem ríkir í heiminum jafnvel enn ógnvænlegra nú en það var fyrir fáum árum og hefur að sumu leyti stöðugt farið versnandi með því kapphlaupi sem átt hefur sér stað. Og ég verð að segja að ég þori ekki að taka þá áhættu sem mundi fylgja því að láta varnarliðið fara og það eftirlitshlutverk sem hér er á vegum varnarliðsins þar með falla niður. Ég þori það ekki. Ég heyrði að hv. þm. sagðist vilja taka ýmiss konar áhættu. Ég vil bara ekki taka þessa áhættu í dag.

Ég legg hins vegar á það mjög ríka áherslu að hér er eingöngu um eftirlitsstöð að ræða. Og ég fagna þeirri breiðu samstöðu sem er meðal okkar Íslendinga og hefur komið fram hér á þingi gegn því að hérna staðsetjist kjarnorkuvopn eða yfirleitt árásartæki eins og flugskeyti. Um það er fullkomin samstaða. Ég fagna þeim yfirlýsingum sem hafa komið fram hjá hæstv. utanrrh. þess efnis að skip eða flugvélar með kjarnorkuvopn hafi ekki heimild til þess að athafna sig á nokkurn máta í íslenskri lögsögu. Þetta tel ég mjög mikilvæga yfirlýsingu og ég hygg að flestir geti fagnað því.

Ég er m. ö. o., í því ástandi sem nú er í heiminum, í því ógnarjafnvægi sem nú er í heiminum, hlynntur því að hér sé og verði áfram fyrst um sinn, þar til þetta breytist, eftirlitsstöð. Ég vek athygli á því að ef ná á árangri, sem við öll vonum sannarlega og reynum að stuðla að hvar sem við fáum beitt einhverjum áhrifum, í þeim viðræðum sem nú eru hafnar á ný á milli stórveldanna, þá verður eftirlit einhver mikilvægasti þáttur í þeirri hjöðnun spennu eða slökun á spennu sem allir stefna að. Það er einn þátturinn sem mest er til umræðu í þessum viðræðum, hvernig á að hafa eðlilegt eftirlit.

Ég segi þá jafnframt, um leið og ég er því hlynntur að hér sé eftirlitsstöð eins og nú er ástatt, að ég vil að sú eftirlitsstöð sé vel úr garði gerð. Ég sé enga ástæðu til að hafa hér eftirlitsstöð með flugskýli sem er að ryðga niður eða úreltar flugvélar eða jafnvel ekki ratsjárstöðvar, sem ég hef nú engan heyrt nefna, a. m. k. ekki þessar litlu, árásartæki, þó menn deili um hvort það séu hernaðartæki eða ekki hernaðartæki. Ég lít nú svo á að verið sé að deila um keisarans skegg, satt að segja, í því sambandi. Ég vil hafa hér eftirlitsstöð, hreinræktaða eftirlitsstöð, og þá að hún sé vel úr garði gerð. Þess vegna er ég hlynntur því að þessar ratsjárstöðvar tvær verði reistar.

Ég er líka hlynntur því að ratsjárstöðin á Suðausturlandi verði endurnýjuð og fækkað þá hermönnum um eitthvað í kringum 100. Ég tel satt að segja vera nokkra hreinsun að því.

Hernaðarstöð eða ekki hernaðarstöð. Ég sagði að ég tel að með því sé nánast verið að deila um keisarans skegg. Er eftirlitsstöð hernaðarstöð? Ef það er eftirlit með hernaði þá er það eflaust hernaðarstöð. En spurningin er: Er það árásarstöð? Er það árásarmannvirki eða eftirlitsmannvirki? Það er spurningin. Og ég lít svo á að þær ratsjárstöðvar sem hér er verið að tala um séu ekki árásarstöðvar. Ég spurði hvorki meira né minna en hinn viðurkennda, a. m. k. af sumum, hr. Arkins að þessu. Og hann sagðist líta svo á að þessar ratsjárstöðvar væru hreint smámál, algjört smámál. Ég ræddi þetta í vitnis viðurvist á minni skrifstofu og hann taldi varla þess virði að ræða um þessar ratsjárstöðvar. Ég hygg að hann hafi nokkuð til síns máls og hafi kynnt sér þessi mál, kannske jafnvel eins vel og hv. ræðumaður sem talaði hér áðan.

Ég þarf ekki að hafa um þetta mikið fleiri orð út af fyrir sig. Ég held ég hafi gert grein nokkurn veginn fyrir því sem mín skoðun er og ég held ég megi fullyrða mikils meiri hluta framsóknarmanna. Ég vil hins vegar að lokum segja að ég tel vel koma til greina, eins og hv. þm. Haraldur Ólafsson hefur lagt til, að þessu máli sé vísað til ríkisstj. Varnarsáttmálinn er vitanlega háður samþykki Alþingis eða Alþingi getur hafnað honum. Alþingi samþykkti hann á sínum tíma. Framkvæmd varnarsáttmálans hefur hins vegar ætíð verið í höndum utanrrh. Ég tek það fram að ég hef ekkert á móti því að svona mál séu rædd hér að sjálfsögðu og eðlilegt ef menn vilja ræða þau. Skapast ágætt tækifæri til þess í sambandi við skýrslu utanrrh.

Ég held hins vegar að sáttmáli sem þessi verði aldrei framkvæmdur á annan máta heldur en í höndum rn. eftir að Alþingi gefur línurnar. Þess vegna er ákaflega eðlilegt að vísa þessu máli til ríkisstj. Ég vil hins vegar taka það fram að verði það ekki samþykkt þá mun ég greiða atkvæði á móti þessari tillögu af þeim ástæðum sem ég lýsti hér áðan. Ég tel ekki að Alþingi eigi að grípa inn í einn þátt varnarsáttmála, sérstaklega þegar svo augljóst er, eins og ég tel vera og fjölmargir aðrir, að hér sé um mjög eðlilegan þátt í eftirlitshlutverki stöðvarinnar að ræða. Ef menn vilja ekki að þessi stöð sé sæmilega úr garði gerð þá er miklu hreinlegar til verks gengið að segja upp varnarsáttmálanum og segja þeim að fara. Það er miklu hreinlegra. Við eigum ekki að hafa hér stöð sem er úrelt og getur ekki sinnt sínu hlutverki. Það væri tillaga sem hv. þm. gæti flutt því hún varðar varnarsáttmálann í heild sinni. (Gripið fram í.) Nei, hún verður ekki studd, eins og ég sagði áðan, á þessu stigi máls, það er alveg ljóst, af því að ég þori ekki, ég verð að viðurkenna það, að taka þá áhættu sem því kynni að fylgja að raska þannig því jafnvægi sem nú er, sem er ekkert gott jafnvægi, en sem er að mínu mati lykillinn að því að nú takist samkomulag á milli stórveldanna um slökun. Ég þori ekki að raska því jafnvægi. Menn mega kalla mig ragan ef þeir vilja fyrir bragðið.

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. sagði í lokaorðum sínum, að svo kann að fara að sandurinn renni úr stundaglasinu, og þá átti hann við fyrir heimsbyggð alla. Og ég tel að með því að reka varnarliðið og eftirlitshlutverk þess á brott nú, þá værum við jafnvel að flýta fyrir því að sandurinn renni úr glasinu. Ég vona hins vegar að aldrei komi til þess að við þurfum að hlusta á líkræðu hér á Alþingi eins og hann flutti í lokaorðum sínum.