23.04.1985
Sameinað þing: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4541 í B-deild Alþingistíðinda. (3814)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Ég skal vissulega fara að tilmælum virðulegs forseta og takmarka mjög mál mitt hér. Mér fannst mjög gagnlegt að þessi tillaga sem hér er til umræðu kom fram á sínum tíma. Hún hefur að mínu mati orðið til þess að færa hér inn á Alþingi mjög málefnalega og þarfa umræðu. Auk þess hefur hún orðið til þess að ítarleg umfjöllun um athugun almennt hefur farið fram á varnarmálum landsins og er það vel.

Ég er því fylgjandi að endurnýjun þessa ratsjár- og eftirlitskerfis fari fram. Ég álít að þessi endurnýjun leiði alls ekki til aukningar vígbúnaðar eða herbúnaðar á neinn hátt. Ég álít að hér sé mun fremur um að ræða fyrirbyggjandi aðgerðir, t. d. í formi þess að um verði að ræða traustari flugumferðarstjórn og einnig aukið öryggi hvað varðar alla sjóumferð umhverfis landið. Það er að mínu mati alveg sjálfsagt og nauðsynlegt að við höfum yfir að ráða nýjustu tækni sem fyrirfinnst til þess að stuðla að auknu öryggi okkar. Þessar stöðvar má að mínu mati ekki líta á sem hernaðarumsvif og vitna ég þá til orða hv. þm. Steingríms Sigfússonar hér áðan þar sem hann vitnaði til þessara hernaðarratsjárstöðva, sem hann kallaði svo, sem fjöreggs tilverunnar.

Að síðustu vonast ég til þess að öll þessi umræða, þ. e. umræða um einstakar framkvæmdir öryggis- og varnarþátta landsins, verði til þess að það verði algengara að slík umræða eigi sér stað hér á hv. Alþingi og að í sem flestum tilfellum verði hv. Alþingi spurt álits. Það held ég að verði þessum málaflokki, öryggis- og varnarmálum, einungis til góðs.

Af framansögðu má ljóst vera að ég mæli gegn þessari tillögu og mun greiða atkvæði gegn henni.