23.04.1985
Sameinað þing: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4542 í B-deild Alþingistíðinda. (3816)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hef því miður ekki getað hlustað á þessar umræður vegna þess að ég var búinn að lofa að vera á öðrum fundi og vissi ekki að þessi tillaga mundi koma fyrir á þeim tíma. En vegna þess sem ég hef heyrt af umræðunni finnst mér nauðsynlegt að hér komi fram að það eru fleiri hliðar á þessu máli en fram hefur komið í þeim ræðum sem ég hef heyrt. Það er öryggismál okkar flugs. Ég hef reynt að setja mig inn í þessi mál. Mín fyrstu viðbrögð voru þau, þegar þessi mál komu upp, að ég var þessu máli alveg andvígur. Það voru mín fyrstu viðbrögð vegna þess að ég er á móti auknum hernaðarumsvifum í landinu. En ég tók mig til og fór að skoða þetta mál. Ég ætla ekki að segja beinlínis hvers vegna að öðru leyti en því að ég hef orðið vitni að flugslysum sem mér er fjáð af mönnum, sem þekkja þetta betur en ég, að ef slíkar stöðvar hefðu verið komnar á þeim tíma sem þessi slys urðu séu miklar líkur fyrir því að hægt hefði verið að koma í veg fyrir. (HG: Mikil er þín trú.) En ég er ekki það einsýnn, ég sé með báðum augum en er ekki blindur á öðru og illa sjáandi með hinu, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Það þarf að skoða hvert mál eins og það liggur fyrir. Við höfum gert samning um það að her yrði hér. Þó var það tekið fram að við værum á móti því ef einhvern tíma yrði nógu friðvænlegt í heiminum. Ég verð að segja það að ég fyrir mitt leyti sé ekki að það sé verið að auka hernaðarumsvif þó að þessar radarstöðvar verði byggðar. Mér er tjáð, og það sagði hæstv. forsrh. áðan í sambandi við stöðina á Stokksnesi, að þar muni allir hermenn hverfa ef ný stöð yrði byggð og Íslendingar mundu taka við starfrækslu hennar. Eru hv. þm. Austurl. yfirleitt á móti því að losna við herinn af Stokksnesi? (HG: Ég hef nú ekki heyrt þetta.) Ja, mér hefur verið tjáð það. Hæstv. utanrrh. getur sjálfsagt upplýst það. (Utanrrh.: Jú, það er rétt. Það er gert ráð fyrir því.)

En ég lít á þetta ekkert síður sem öryggismál fyrir okkur. Ég ræddi þetta á fundi á Þórshöfn. Ég skýrði þeim frá því hvers ég hefði orðið áskynja í þessu máli. Og það komu til mín menn eftir fundinn, sem voru búnir að skrifa undir plögg til að mótmæla stöðinni, og sögðu: Ja, við vorum ekki búnir að hugsa um þetta svona. Við hefðum ekki skrifað undir ef við hefðum verið búnir að hugsa um þetta svona. — Mér finnst nauðsynlegt að þetta komi fram.

Ég segi bara fyrir mig að vegna öryggis flugs okkar þori ég ekki að greiða atkvæði þannig að það komi í veg fyrir þessar stöðvar. Hins vegar lýsti ég yfir því á Þórshöfn, og það vil ég líka að komi fram, að ef meiri hluti af mínum kjósendum í þessum byggðum væri á móti þessu mundi ég ekki treysta mér til annars en að fylgja því eða sitja hjá. En hefur þessi meiri hluti komið? Hver getur staðhæft það? Ég held að það verði erfitt. (SJS: Liggur þá ekki beint fyrir að kanna það?) Ég held að það liggi alls ekki fyrir. Og hafi komið, sem ég veit ekkert um, fullyrðingar um það, þá mótmæli ég þeim fullyrðingum. Ég vil að þetta komi fram.