23.04.1985
Sameinað þing: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4544 í B-deild Alþingistíðinda. (3818)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skil ofurvel síðustu orð hæstv. utanrrh., að hann vonist til að þessi tillaga verði felld, því að það liggur nefnilega fyrir að það er mikið í húfi hjá hæstv. utanrrh. að tillagan nái ekki fram að ganga. Hann hefur lagt það undir, sem mun vera nokkuð fátítt meðal íslenskra ráðherra, að hann muni stíga upp úr sínum hæga ráðherrastól og láta af embætti ef íslenska þjóðin ætlar að sýna slíkt andvaraleysi að byggja ekki þessar nýju ratsjárstöðvar. Ég veit að honum er það ekki nema kært að ég vitni í þessi ummæli hans sem getið hefur verið í blöðum einnig og hann lét falla á fundi norður á Þórshöfn. Það er ofur eðlilegt að hæstv. utanrrh. vilji ekki fá þessa tillögu samþykkta. Það vita nefnilega allir að hann er ekkert á leiðinni upp úr sínum ráðherrastól og það er ekki að losna neinn stóli. Allavega vonar hæstv. utanrrh. að það verði ekki af þessum sökum. Og hér situr náttúrlega formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl., og hlýðir á þetta andaktugur. En nóg um það.

Hér var því haldið fram áðan að yrði búnaður þeirra stöðva sem starfræktar eru í dag, til að mynda stöðvarinnar á Stokksnesi, endurnýjaður á þann máta sem hér stendur víst til mundu allir erlendir hermenn hverfa úr þeirri stöð. Nú er búið að hæla ákaflega mikið skýrslu sem svonefnd ratsjárnefnd gerði fyrir utanrrn. Ég held því að ég hljóti að mega vitna í þá ágætu skýrslu og bera það undir yfirhöfundinn, hæstv. utanrrh., sem hlýtur að taka ábyrgð á störfum sinna manna, hvort það sé þá rangt með farið og bull og vitleysa í þessari marglofuðu ratsjárnefnd sem segir þar á bls. 33, með leyfi forseta:

„Jafnhliða ofangreindum endurbótum á ratsjárstöðvunum yrði eftirlit með flugumferð sameinað í einni eftirlitsstöð á Keflavíkurflugvelli. Þetta eftirlit fer nú fram á tveim stöðvum, þ. e. í ratsjárstöðvunum á Miðnesheiði og á Stokksnesi. Þessi sameining byggist á því að senda ratsjárgögnin á stafrænu formi frá ratsjárstöðvunum um fjarskiptakerfi Pósts og síma til eftirlitsstöðvarinnar. Starfsliði í núverandi eftirlitsstöðvum fækkaði því verulega. Starfsliði í Stokksnesstöðinni fækkaði þannig úr 110 manns niður í 30.“

Ég spyr: Af hvaða þjóðerni eiga þessir 30 að vera sem eiga að verða eftir? Eru það einhverjir Íslendingar sem starfa í Stokksnesstöðinni í dag? Eru það ekki bandarískir hermenn og er ekki hér verið að segja í skýrslu þessarar frægu nefndar að það eigi að vera þarna áfram a. m. k. 30 hermenn. Nóg um það. Ég ætla ekki að láta fleiri orð falla um þessa merkilegu skýrslu. Ég hef gert áður að umtalsefni hvernig að henni er staðið, til að mynda það að birta þar enga heimildaskrá, hafa enga beina tilvitnun og gera á engan hátt grein fyrir þeim heimildum sem stuðst hefur verið við til að semja þessa skýrslu. Mér þykja þetta óvenjuleg vinnubrögð og ég gæti ýmislegt fleira sagt um efnistök þessarar ágætu ratsjárnefndar. Á vissan hátt hefur hún að sjálfsögðu unnið verk sitt vel og verið sinni köllun eða sínu skipunarbréfi trú, enda bera hlutföllin í skýrslunni þess glögg merki, þ. e. hin hernaðarlega hlið þessara mála, að hún hefur ekki valdið þeim andvöku, drengjunum sem stóðu að samningu þessarar skýrslu. Þeir hafa fremur álitið hlutverk sitt annað, sem sé það að gylla það nú rækilega fyrir oss mörlöndum hversu mikill hvalreki þetta yrði fyrir okkur.

Steingrímur Hermannsson, hæstv. forsrh., er farinn héðan af fundinum. Hann tjáði mér að hann gæti ekki verið lengur við þessar umræður. Ég sagði honum að ég hygðist ítreka spurningu mína til hans vegna þess að ég var ekki sáttur við þau svör sem hann gaf varðandi það hvort hann mundi standa við sín fyrri fyrirheit um að kanna það eða beita sér fyrir því að ekki yrði gengið þvert á vilja meiri hluta heimamanna ef til staðar væri í þessum málum. Hann tjáði mér, og ég hygg að ég megi hafa það hér eftir, að hann mundi ekki svara þessu öðruvísi en hann hefði þegar gert. En um svör hans að öðru leyti vil ég segja, og hlýt að mega það hér þó að hann sé kominn á beina línu í Dagblaðinu, að ákaflega voru þau nú framsóknarleg svörin, ósköp eitthvað framsóknarleg og opin í báða enda og loðin og teygjanleg. Það var nú meira. Og ekki gat ég almennilega fengið það upp úr honum hvort hann stæði við þetta eða ekki og hver hans afstaða yfirleitt væri í þessum efnum. Hann var eitthvað að tuldra um það að hann hefði kynnt sér ástandið í sínu kjördæmi í Bolungarvík og nágrenni og hann hefði nú svona og svona hugmyndir um hvernig ástandið væri þar. Og hann sagði að það hefði ekki nema einn hreppur eða ein hreppsnefnd á Norðurlandi eystra samþykkt afgerandi mótmæli gegn þessu. Ég get þá upplýst það, til að það liggi fyrir, að hreppsnefnd Sauðaneshrepps samþykkti mótmæli gegn þessum framkvæmdum með fjórum atkvæðum en þar sitja fimm menn í hreppsnefnd. Almennur borgarafundur í Svalbarðshreppi samþykkti mótmæli gegn þessum fyrirhuguðu áformum fyrir hálfu öðru ári síðan, strax og þau komu verulega upp á yfirborðið.

Ég hef aldrei haldið því fram að það lægju fyrir óyggjandi upplýsingar um vilja meiri hluta manna, hvorki á Norðurlandi eystra né Vestfjörðum. Mér dettur það ekki í hug. Ég hef þvert á móti ítrekað og undirstrikað að hér hafi ekki verið um almennar undirskriftasafnanir að ræða og beðið menn að hafa það í huga. Hins vegar má draga nokkrar ályktanir af því til að mynda að 80% húsráðenda og búrekstraraðila í Sauðaneshreppi af þeim sem þar eru taldir til heimilis skrifuðu undir bænarskrá, þ. e. rúm 80%, og mikill meiri hluti sömu aðila í Svalbarðshreppi. Í Þórshafnarhreppi er auðvitað um mun stærra sveitarfélag að ræða og þar gefur það úrtak sem undir bænarskrána ritar e. t. v. ekki eins miklar upplýsingar vegna stærðar sveitarfélagsins. En það sem ég er einfaldlega að spyrja um, það sem ég var að vona að hæstv. forsrh. hefði kjark til að svara var þetta: Mun ríkisstj. ganga úr skugga um það hver afstaða heimamanna er í þessum efnum á marktækan hátt? Vill hún gera það til þess að standa við fyrri yfirlýsingar eða mun hv. þm. Stefán Valgeirsson, sem sagðist ekki mundu ganga gegn vilja meiri hluta kjósenda sinna í sínu kjördæmi í þessum málum, beita sér fyrir því að fá fram afstöðu meiri hluta íbúanna á viðkomandi svæði eða í viðkomandi sveitarfélagi? Ekki stendur á mér að styðja hv. þm. í því. En séu menn til að mynda að tala um staðsetningu í Sauðaneshreppi, þá vita menn þó þetta, að hreppsnefndin og yfir 80% af þeim aðilum sem ég áðan nefndi hafa þegar lýst yfir skoðun sinni í þessu máli.

Ég ætla nú ekki að fara hér út í hártoganir, sérstaklega vegna þess að hæstv. forsrh. er farinn. Hann var að tala um að þetta ætti að vera hreinræktuð eftirlitsstöð og gera skýran greinarmun á varnarvopnum og árásarvopnum. Ég veit ekki hversu vel1esinn hæstv. forsrh. er í þessum fræðum öllum en það ætti hann þó að vita, ef hann hefur eitthvað kynnt sér þetta, að herfræðingum ber yfirleitt saman um það að sá munur, sem menn hafa svona fræðilega séð eða teoretískt dregið milli þess sem kölluð eru árásar- og varnarvopn, er mjög óljós og verður sífellt í raun og veru erfiðara að greina þarna á milli. Það er talað um „offensive“ eða „defensive“ vopn og menn eru almennt sammála um það að sífellt erfiðara gerist nú að greina þarna á milli ef menn eigi yfirleitt að vera að því og það sé skynsamlegt. Sé nær að líta á þetta allt saman sem einn flokk vopna.

Síðan kom hv. þm. Stefán Valgeirsson og talaði um öryggismál. Hann hefði ekki bara snúist sjálfur, heldur hefði obbinn af fundarmönnum, sem urðu þeirrar náðar aðnjótandi að vera með honum á fundi á Þórshöfn, snarskipt um skoðun við að heyra hans glöggu rök í þessu máli.

Ég hef aldrei neitað því að slíkar ratsjár, eins og reyndar allar ratsjár, geta orðið að vissu gagni í flugumferð. Það vita allir. En í fyrsta lagi er hér um hernaðarratsjár að ræða, ekki venjulegar flugumferðarratsjár og þaðan af síður aðflugsratsjár. Og burtséð frá öllu þessu tæknilega tali þá finnst mér það og hefur alla tíð í þessu máli fundist sérstaklega ógeðfellt þegar menn ætla að nota landlægan ótta barna og kvenna um afkomu feðra sinna og eiginmanna á sjónum eða öryggi íslenskra flugfarþega þessum málum til framdráttar, vegna þess að það er svo margt, margt annað miklu nærtækara að gera ef menn vilja eitthvað leggja af mörkum í þeim efnum. Það liggur til að mynda fyrir mikil vinna í sambandi við öryggismál sjómanna og ég held að hv. Alþingi og hæstv. ríkisstj. væri skammar nær að leggja sitt af mörkum í því að koma þeim tillögum í framkvæmd og væri þá reisn þeirra öllu meiri en með þeim málflutningi sem þeir hafa haldið uppi varðandi þetta atriði f tengslum við þetta mál. Það vil ég segja um þennan málflutning.

Ég held að enginn maður geti í raun haldið því fram að hægt hefði verið að koma í veg fyrir eitt eða annað slys þó að einhver slíkur búnaður hefði verið til. Það hlyti að vera ákaflega erfitt að fullyrða um slíkt. Ég hef sjálfur misst ættingja í flugslysum á Íslandi og ég er áhugamaður um það að reyna að auka öryggi í flugsamgöngum. En það er margt, margt fleira sem getur orðið okkur að fjörtjóni og það eru mjög víða verkefni á því sviði að bæta öryggi þjóðarinnar. Og ef við erum þeirrar skoðunar að rafsjárstöð eða eitthvert annað mannvirki sé forgangsverkefni í þeim efnum, þá snúum við okkur að því að reisa slíka stöð og reka hana og gerum það sjálfir eins og sjálfstæðri þjóð sæmir.

Ég held að við hæstv. utanrrh. ættum að geyma okkur umræðu um þessi hugmyndafræðilegu efni sem hann vék hér aðeins að, ekki síst vegna þess að senn er nú runnið úr því stundaglasi sem virðulegur forseti setti upp fyrir þennan fund og menn gerast þreytulegir hér og hálfdapurlegir í hliðarsölum og á áheyrendapöllum. Samverkamenn hæstv. utanrrh. sumir eru að verða hálfpíreygir uppi á pöllunum svo að ég ætla ekki að lengja þetta mikið meira. Auðvitað setti hæstv. utanrrh. á stutta sónötu úr Rússagrýlukonsertinum sínum. Ég er nú tiltölulega vanur því og kippi mér sífellt minna upp við það að fá þessar lummur um að ég sé sérstakur talsmaður rússneskra hernaðarviðhorfa hér á Alþingi Íslendinga. Það bítur ekki baun á mig. (Gripið fram í: Það gerir rauða skeggið.) Það er sennilega rauða skeggið, já, sem veldur þessari litblindu hæstv. utanrrh., en hann kemur sífellt að þessu aftur. Það leiðinlegasta við þetta finnst mér vera það að þetta kemur eins og þjófur á nóttu inn í annars kannske sæmilega málefnalega umræðu um þetta mál. Ég vil segja það um þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag að ég er tiltölulega sáttur við hana. Ég er eftir atvikum ánægður með hana. Hún hefur verið sæmilega málefnaleg og ég fagna því. Hún er snöggtum skárri en ákveðnir hlutar af þeirri umræðu sem hér varð um málið fyrr í vetur og vil ég þá sérstaklega hæla frammistöðu Alþfl. núna borið saman við það sem þá var.

Utanrrh. telur mig sérstakan talsmann þess að Íslendingar afvopnist einhliða og kasti frá sér vopnum sínum, eins og hæstv. iðnrh. mundi sennilega segja, og gangi út með bert brjóstið og segi bara: Hér er ég. Þó að ég taki þannig til orða að ég sé sem einstaklingur, og vonandi eru það fleiri, tilbúinn að taka nokkra áhættu til að stíga ákveðin skref, til þess að stíga fyrstu skrefin, þá er ég ekki þar með að segja að það sé stefna mín og míns flokks að Íslendingar afvopnist algerlega einhliða, reki herinn úr landi og geri engar ráðstafanir, hvað sem öðru líður, um sín öryggismál. Slíku hef ég aldrei nokkurn tíma haldið fram — (Gripið fram í: Meinarðu þá að fá Rússa?) frekar en ég hafi haldið því fram að mér væri ekki illa við víghreiðrið á Kola-skaga. Þetta er óskaplegur misskilningur hjá hæstv. utanrrh. Ég gæti hér á Alþingi hellt mér yfir Rússa með honum í svona 2–3 tíma og stæði ekkert á mér að fara aðeins yfir það hvernig þeir hafa hagað sér, þeir kónar. Ég skal taka undir margt með utanrrh. í þeim efnum og það er ómögulegt að vita hvor okkar hefði betur, þegar upp yrði staðið, í því að skamma Rússa fyrir allan þann dólgshátt og dónaskap sem þeir hafa nú orðið uppvísir að. En ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar og er enn að þó að Rússar séu ekki góðir, býsna vondir reyndar, þá geri það ekki sjálfkrafa Bandaríkjamenn að englum né heldur þá sem þeim fylgja. Ég er þeirrar skoðunar. Ég minnist gamals bónda í minni sveit, sem búinn var að halda uppi vörnum fyrir Framsfl. af mikilli elju í hörðum deilum við laxveiðikarla, sem voru hjá honum í laxveiðum í á í Þistilfirði. Hann var kominn í einhverja þröng og þá skellti einn íhaldsdólgurinn, sem þarna var í laxveiðum, á hann þessu: „Ja, þetta eru nú engir andskotans englar í Framsfl.“ Fyrirgefðu, forseti. Þá sagði gamli maðurinn: „Ja, það er nú ekki nema eins og einn engill í Sjálfstfl.“ Ég segi nú það sama um þessa heimsmynd utanrrh. Ég held að það séu ekki alls staðar hreinir englar hjá Bandaríkjamönnum og það sé tímaskekkja og leiðinlegt að setja málefnalega umræðu úr skorðum með með því að sefja á þessa gömlu Rússagrýluplötu. Það snertir mig ekki, herra forseti, að öðru leyti en því að mér finnst það heldur leiðinlegt eða lækka risið á annars ágætlega málefnalegri umræðu þegar menn falla ofan í þessa gryfju.

Menn gerast þreyttir, herra forseti, og ég held að ég þurfi ekki að hafa þessa umræðu öllu lengri. Menn hafa talað nokkuð um að hún hafi brotið ofurlítið blað hér í umfjöllun Alþingis hvað þessi mál snertir og það kann vel að vera. Ég hef ekki langa þingreynslu eins og virðulegur forseti veit og þetta er kannske ákveðin generalprufa hjá mér í því að ræða mál á þennan hátt. Ég get lofað hæstv. utanrrh. því að ég skal standa í því með honum að ræða slík mál framvegis hér á Alþingi. Ég mun ekki liggja á liði mínu við það að draga úr skúmaskotunum þær upplýsingar sem ég tel að hv. Alþingi og þjóðin eigi heimtingu á að hafa í þessum efnum. Þeir tímar eru nefnilega uppi í dag að almenningur víða um lönd, ekki bara hér á Íslandi heldur víða um lönd, lætur sig sem betur fer þessi mál sífellt meira varða, tekur afstöðu og krafan er uppi um nýtt frumkvæði í þessum málum. Menn eru búnir að horfa upp á það að hergagnaframleiðendur og misvitrir stjórnmálamenn og ýmsir aðrir, sem hafa leynt og ljóst haft áhrif á þróun þessara mála undanfarna áratugi, hafa ekki skilið við heiminn í betra ástandi en raun ber vitni árið 1985. Þess vegna er auðvitað krafan uppi um frumkvæðið úr höndum þessara manna til fólksins sjálfs vegna þess að fólkið finnur sér ógnað. Það finnur vegið að sjálfri undirstöðunni, sjálfri tilverunni og þess vegna er þessi krafa uppi. Það hefur ekki gefist mjög vel, hv. þm., að skilja þessi mál eftir í höndum fáeinna heimsvaldasinnaðra stjórnmálamanna og hergagnaframleiðenda og annarra slíkra sem að baki þeim standa. Það hefur ekki gefist almenningi í heiminum mjög vel. Það horfir ekki mjög vænlega. Á upplýsingaöld gera menn sér grein fyrir þessu og ég mun róa á það borðið að taka sífellt þann kostinn sem dregur upplýsingarnar fram í dagsljósið, sem vekur umræður, sem vekur menn til umhugsunar, vegna þess að þátttaka og virkni almennings er eina vonin í þessum málum. Það er alllangt síðan ég gerði mér grein fyrir því að björgun heimsins kemur ekki frá þessum fámennu, þröngu, lokuðu klíkum, ekki frekar en það kemur frá bankastjórunum sjálfum að afnema bílafríðindin þeirra. Svo einfalt er það mál, herra forseti.