23.04.1985
Sameinað þing: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4549 í B-deild Alþingistíðinda. (3819)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Frsm. 1. minni hl. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Aðeins örfá orð hér í lok fundartímans, vegna þess að hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinni hér áðan að ég hefði, þegar ég mælti fyrir nál. 1. minni hl. hv. utanrmn., verið að tala um einhliða afvopnun. Ég var ekki að tala um einhliða afvopnun og hef ekki minnst á hana einu orði héðan úr þessum ræðustól. Hins vegar sagðist ég vona að Íslendingar bæru gæfu til að sýna þann kjark í afstöðu sinni til vígbúnaðar að auka hann ekki, að leggja sitt lóð á þær vogarskálar að auka ekki vígbúnað, hvorki hérlendis né annars staðar í heiminum. Og ég vil benda hæstv. utanrrh. á það að við Kvennalistakonur höfum flutt hér á Alþingi í tvígang till. til þál. um tafarlausa frystingu kjarnorkuvopna á meðan verið er að semja um afvopnun. Sú till. er grundvölluð á sömu hugsun og ég orðaði hér í ræðu minni áðan.

Þessi till. hefur nú legið í hv. utanrmn. síðan í haust og bíður þar afgreiðslu.