24.04.1985
Efri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4554 í B-deild Alþingistíðinda. (3827)

274. mál, ávana- og fíkniefni

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að hafa langt mál um frv. Ég hef reyndar litlu við það að bæta sem fram kemur í grg. með því. Einhver ljótasti glæpur sem framinn er í dag er fólginn í því að ánetja börn og unglinga ávana- og fíkniefnum. Eins og að lögum er búið geta þó brot þessi aðeins varðað hámarksrefsingu sem nemur tveggja ára fangelsi. Því ber að mínu mati brýna nauðsyn til að hækka refsihámarkið verulega. Hefur orðið að samkomulagi milli mín og hæstv. dóms- og kirkjumrh. að leggja til að það hækki í sex ár með þessu frv. Það hefur verið rætt í Nd. og samþykkt þar samhljóða.

Vil ég, virðulegi forseti, leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. heilbr.- og trn. með ósk um að það frv. verði afgreitt mjög fljótt því að ég tel ekki ástæðu til þess að bíða öllu lengur með að þessi sektarákvæði verði lögfest.