24.04.1985
Efri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4555 í B-deild Alþingistíðinda. (3829)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Iðnn. Ed. hefur fjallað um þetta frv. sem er ekki stórt í sniðum. Það gengur einvörðungu út á það að framkvæmd laga um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar heyri undir iðnrh. Það varð samkomulag í nefnd um að leggja til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það var lagt fram.

Eins og hv. þm. rekur minni til var beðið um það við 1. umr. málsins, líklega var það hv. 2. þm. Austurl., að fram kæmu ákveðnar upplýsingar varðandi þróun kaupgjalds og kostnaðar við upphitun, annars vegar samanburður á hinum almennu töxtum og upphitunartöxtum og hins vegar á kaupgjaldi. Nú var ekki alveg ljóst hvort þess var óskað að hæstv. ráðh. yrði viðlátinn 2. umr., en hafi svo verið vonast ég til þess að hv. 2. þm. Austurl. láti það nægja sem hér kemur fram. Nú ber ég ekki ábyrgð á þeim tölulegu upplýsingum sem hér eru á blaði, þær voru vinsamlega sendar nm. í iðnn. Að vísu er þetta stílað á Davíð nokkurn Aðalsteinsson. En þessar upplýsingar varða Rafmagnsveitur ríkisins. Hér kemur fram að meðaltalshækkun upphitunartaxta frá 1. júní 1983 til 1. apríl 1985 er 18.2%. Hvað varðar hina almennu notkun er hækkunin frá 1. júní 1983 til 1. apríl 1985 51.3%. Skv. hagtölum mánaðarins, sem eru mjög áreiðanlegar, frá því í mars 1985, hefur hækkun kauptaxta orðið frá 1. júní 1983 til 1. apríl 1985 34.3% . Ég hafði áður gert grein fyrir, eins og hér er raunar skýrt frá á blaði, hvaða hækkanir hefðu orðið á hinum almennu töxtum annars vegar og hins vegar á upphitunartöxtum og getur hver sem það vill borið saman. Ég vil endurtaka að ég hef ekki farið nákvæmlega ofan í þessar tölur né heldur leitað mér viðbótarupplýsinga eða skýringa á þeim. Ég er fús til að afhenda hv. 2. þm. Austurl. þetta blað eða afrit af því.

Ég hef ekki um þetta fleiri orð, hæstv. forseti, en nefndin leggur til einróma að frv. verði samþykkt.