24.04.1985
Efri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4562 í B-deild Alþingistíðinda. (3839)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Síðast þegar þetta mál var hér til umr. mun þess hafa verið óskað að það yrði gerð grein fyrir sjónarmiðum ríkisstj. varðandi það frv. sem hér er til umfjöllunar á þskj. 260, 217. mál, en innihald þess er að breyta seðlabankalögunum, 11. gr. þeirra laga, þannig að hundraðshluti af innistæðufé, sem bundið væri í Seðlabankanum, yrði 10%. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að stefna ríkisstj. hefur verið að færa þau verkefni sem hlaðist hafa á Seðlabankann á undanförnum árum og eðli málsins skv. eru verkefni viðskiptabankanna til þeirra, en það hefur þýtt að í Seðlabankanum hafa verið bundnar upphæðir af sameiginlegu fé landsmanna til þess að standa undir þeim verkefnum. Þar á meðal hafa verið endurkeypt afurðalán.

Nú fyrir nokkru varð á þessu breyting og endurkaup afurðalána niðurfelld hjá Seðlabankanum og þar á móti felld niður 10% af þeirri bindingu sem hefur verið, en hér er um að ræða 2.6 milljarða kr. sem Seðlabankinn hefur haft til þess að mæta endurkeyptum afurðalánum. Það þýðir að bindingin í dag er 18% í staðinn fyrir 28%. Áfram er unnið að gerð frv. til l. um Seðlabanka Íslands, eins og gerð hefur verið grein fyrir, og er það einn þáttur í endurskoðun löggjafar um banka og sparisjóði. Frv. um viðskiptabanka hefur þegar verið lagt fram og 1. umr. lokið og það komið til fjh.- og viðskn. Nd. Frv. um sparisjóði er komið til prentunar. Lokavinnsla er varðandi frv. um Seðlabanka Íslands.

Það liggur ljóst fyrir að í löggjöfinni um Seðlabanka Íslands hlýtur að vera ein höfuðgrein þeirra laga hvert sé meginhlutverk bankans sem seðlabanka og það skilgreint þar með tilliti til þeirra breyttu starfshátta sem þegar eru og gert er ráð fyrir. Meginhlutverk Seðlabankans hlýtur að vera að varðveita þann gjaldeyrisvarasjóð sem ríkisstj. og Alþingi telja eðlilegt að þar sé fyrir hendi. Það er auðvitað þeirra sem með stjórnvölinn fara, ríkisstj. og Alþingis, að meta og vega hversu stór gjaldeyrisvarasjóðurinn þarf að vera.

Þá er hlutverk Seðlabankans að vera banki ríkissjóðs og veita ríkissjóði þá fyrirgreiðslu sem þörf er á með tillit til þeirra fjárlaga sem samþykkt eru hverju sinni og lánsfjárlaga. Til þess að geta sinnt þessu hlutverki verður Seðlabankinn að sjálfsögðu að hafa fé og það verður ekki tekið öðruvísi en af eigin fjármagni bankans sjálfs svo og af sameiginlegu sparifé allra landsmanna.

Hversu há prósentan skal vera, sem talið er eðlilegt að Seðlabankinn hafi af sameiginlegu fé landsmanna, fer að sjálfsögðu eftir því hvað þau stjórnvöld sem hverju sinni ákveða, Alþingi og ríkisstj., telja eðlilegt að sé til varðveislu og hvað þau telja eðlilegt að þar sé til fyrirgreiðslu fyrir sameiginlegar þarfir landsmanna, en öðruvísi verður ekki litið á fyrirgreiðslu Seðlabankans við ríkissjóð á fjárlagaári. Hér er verið að tala um fyrirgreiðslu frá upphafi fjárlagaárs til loka, en lánsfjárlög kveða á um með hvaða hætti ríkissjóður aflar sér fjármagns til framkvæmda af því sparifé sem er innanlands og hversu mikið af erlendum lánum ríkissjóður tekur.

Það er mín skoðun á því frv. sem hér er til umr., sem flutt var nokkuð snemma á þessu þingi, að eðlilegt sé að umr. um það verði frestað og að þm. fái tækifæri til að skoða það frv. um Seðlabanká Íslands sem lagt verður senn fyrir Alþingi. Þegar þetta frv. er lagt fram eru bundnir í Seðlabankanum 7.2 milljarðar, þ. e. 28% af heildarsparifé landsmanna. Meðan það er hér til umr. hefur bindingin verið lækkuð um 2.6 milljarða eða 10%. Hér er hins vegar sett fram tala án þess að henni fylgi neinn rökstuðningur um hversu mikið fjármagn Seðlabankinn þarf að hafa til að geta tryggt þann gjaldeyrisvarasjóð, það fjármagn sem hann þarf að hafa til að gegna skyldum sínum sem banki ríkissjóðs. 10% getur verið eins góð tala og hver önnur, en 10% eru ekki í þessu frv. rökstudd sem sú hin rétta tala. Þess vegna hefði ég talið að best væri að umr. um frv. yrði frestað. Hv. þm. fengju þá tækifæri til að skoða málið í heild og meta þau sjónarmið sem fram koma í frv. og þá yrði það þingsins að segja til um hvaða prósentu rétt væri að setja inn í það lagafrv. eftir því hvað hv. þm. teldu ástæðu til þess að Seðlabankinn hefði mikið af fjármagni til þess að sinna því hlutverki sem ég hér hef vikið að, auk þess sem ævinlega koma upp verkefni sem ríkisstj. óskar eftir fyrirgreiðslu við. Þá er gjarnan leitað til Seðlabankans um aðstoð við viðskiptabanka. Þannig á það að vera að mínum dómi. En þetta mun allt skýrast þegar frv. verður lagt fram. Ég vildi vegna óska sem fram komu um greinargerð af minni hálfu láta þetta koma hér fram.