24.04.1985
Neðri deild: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4567 í B-deild Alþingistíðinda. (3856)

275. mál, almannavarnir

Frsm. (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. Nd. um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 94/1962, um almannavarnir. Þetta er 275. mál Nd. á þskj. 453. Nefndin hefur fjallað um málið og segir svo í áliti nefndarinnar sem er á þskj. 754:

„Nefndin hefur fjallað um málið og sent frv. eftirtöldum aðilum til umsagnar: Almannavörnum ríkisins, Sýslumannafélagi Íslands, slysavarnafélagi Íslands, Sambandi ísl. sveitarfélaga, öryggismálanefnd, Landssambandi hjálparsveita skáta og Landssambandi flugbjörgunarsveita. Með hliðsjón af athugasemdum, sem borist hafa, leggur nefndin til að breytingar verði gerðar á 1. gr. frv. og mælir með frv. með þeirri breytingu. Brtt. er flutt á sérstöku þskj.

Fjarverandi afgreiðslu málsins í nefndinni voru Pálmi Jónsson, Ólafur Þ. Þórðarson og Guðmundur Einarsson.“

Með hliðsjón af athugasemdum, sem fram komu, hefur nefndin flutt svohljóðandi brtt.:

„Á eftir orðunum „póst- og símamálastjóri“ í 2. málsl. 2. efnismálsgr. 1. gr. komi: vegamálastjóri og einn fulltrúi tilnefndur af Landssambandi flugbjörgunarsveita, Slysavarnafélagi Íslands og Landssambandi hjálparsveita skáta er skipti með sér setu í ráðinu eitt ár í senn.“

Nefndin fékk eins og fyrr greinir athugasemdir frá nokkrum þeirra sem óskað var umsagnar frá og á grundvelli þeirra er framangreind brtt. gerð. Í umsögn Almannavarna ríkisins segir m. a.:

„Þegar frv. það, sem hér um ræðir, var í undirbúningi fékk almannavarnaráð tækifæri til að koma áliti sínu á framfæri við nefnd þá sem að undirbúningnum stóð, bæði á fundum og með álitsgerð.

Þótt frv. sé í sumum atriðum frábrugðið upprunalegum tillögum almannavarnaráðs getur það vel fallist á þær greinar þess sem fjalla um almannavarnir og telur þær mjög til bóta frá núgildandi lögum. Það gerir því ekki tillögur um breytingar á þeim.

Að því er varðar 9. gr. frv. um hagvarnir lítur almannavarnaráð svo á að hagvarnir séu eins og almannavarnir hluti allsherjarvarna en ekki almannavarna. Telur ráðið tímabært að hugað sé að skipan hagvarna hér á landi svo sem gert hefur verið víða annars staðar. Hagvarnir eru vandasamt og mikilvægt verkefni sem óhjákvæmilega verður kostnaðarsamt. Má vera að huga þurfi nánar að einstökum atriðum er fram koma í ákvæðum 9. gr. frv. varðandi uppbyggingu og skipulagningu þeirra.

E. t. v. væri ástæða til að setja sérstök lög um hagvarnir, ekki síst með tilliti til þess að frv. gerir ekki ráð fyrir beinum tengslum almannavarnaráðs og hagvarnaráðs og hagvarnir falla undir forsrn. en ekki dómsmrn. Almannavarnaráð telur sig ekki vera þess umkomið að koma með fastmótaðar brtt. að svo stöddu, en álítur mikils um vert að breytingar þær, sem frv. felur í sér að öðru leyti og snerta almannavarnir, nái fram að ganga á þessu þingi.“

Þetta var svar Almannavarna ríkisins. Sýslumannafélag Íslands fékk, eins og fyrr getur, beiðni um umsögn og hefur hún borist. Í henni segir:

„Stjórn Sýslumannafélags Íslands hefur á fundi sínum í dag tekið til umfjöllunar frv. til l. um breytingu á lögum nr. 94/1962, um almannavarnir. Stjórn félagsins mælir með samþykkt frv.“

Landssamband flugbjörgunarsveita hefur sent umsögn og segir þar m. a.:

„Stjórn Landssambands flugbjörgunarsveita hefur fjallað um frv. og lýsir sig samþykka því að undanskilinni skipan almannavarnaráðs. Landssamband flugbjörgunarsveita gerir það að tillögu sinni að í almannavarnaráð verði skipaður einn fulltrúi frá landssamböndunum þremur, Landssambandi flugbjörgunarsveita, slysavarnafélagi Íslands og Landssambandi hjálparsveita skáta.“

Landssamband hjálparsveita skáta sendir umsögn sömuleiðis og tekur undir ábendingu Landssambands flugbjörgunarsveita um þetta efni.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja hér í framsögu fyrir nál. frekar um þau atriði sem varða nál. Hér er um mjög mikilsvert mál að ræða og því nauðsynlegt að það fái ítarlega umfjöllun hér í deildinni.