30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

80. mál, einingahús

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég er ekki viss um að húsnæðislánakerfi okkar mundi sinna þörfum húsbyggjenda mjög vel ef þar starfaði aðeins einn maður. Auðvitað á að gæta hagræðis og sparnaðar í þessum efnum. Það má alveg eins segja að það væri alveg nóg að einn maður starfaði t.d. við Morgunblaðið, einn ritstjóri. Ég hugsa að Morgunblaðið gæti jafnvel komið út fyrir því. En ég er ekki viss um að allir yrðu ánægðir með þá niðurstöðu og hvernig blaðið starfaði. (Gripið fram í.) Ég er nú ekki svo gerkunnugur innviðum þar og sjálfsagt má hagræða þar eins og annars staðar. En ég er ekki viss um að það megi reka alla starfsmennina þaðan nema einn. Ég er raunar viss um að það er hin mesta firra, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson.

En ég ætlaði að víkja aðeins að því sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan. Hann sagðist vona að þetta mál leystist farsællega. Hann sagðist mundu reyna að beita sér fyrir þessum breytingum. Nú er það svo að hæstv. ráðh. ræður þessu. Hann getur ráðið þessu og hann getur gert þessa breytingu. Ef hæstv. ráðh. vill raunverulega breyta þessu skora ég á hann að koma í þennan ræðustól og segja að hann ætli að breyta þessu. Ég hygg að það fari ekkert milli mála að ákvörðun um þessar lánareglur er alfarið á valdi félmrh. Ég skora á hæstv. félmrh. að koma í þennan ræðustól og gefa yfirlýsingu um að hann muni breyta þessari ákvörðun stjórnar stofnunarinnar um lánareglur að því er varðar einingahús.