24.04.1985
Neðri deild: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4582 í B-deild Alþingistíðinda. (3866)

289. mál, Landmælingar Íslands

Frsm. minni hl. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég skal reyna að hafa þetta aðeins örfá orð þó svo ég sé annars þeirrar skoðunar að það sé ekkert síður ástæða til að ræða þetta mál ítarlega og í botn en öll önnur lög sem hv. Alþingi setur. Virðulegt Alþingi á að temja sér þau vinnubrögð að taka sér ætíð þann tíma sem það telur sig þurfa, hvort sem það er í nefndarstörfum eða hér á fundum, til þess að ræða málin til botns, ekki síst þegar meiningarmunur er uppi um ákveðin grundvallaratriði eins og t. d. hér virðist vera um stjórnunarfyrirkomulag opinberra stofnana.

Ég tók það fram að ég teldi tillögur minni hl. til bóta og þó ég segi nú sjálfur frá af þingeyskri hógværð tel ég mig reyndar eiga nokkurn þátt í því að þær eru eins og þær eru. Ég er ekki viss um að öll þau atriði hefðu komist þar inn nema vegna þess að ég tók að mér það — fyrirgefðu herra forseti — skítverk að vera svolítið þver í málinu og fara fram á að hlutirnir yrðu ræddir til botns. Ég held að það sé oft til góðs fyrir málin að menn séu ekki allir sammála strax í upphafi. Þau fá þá kannske svolitla skoðun fyrir vikið.

Ég tel að tillögur meiri hl. séu til bóta, sérstaklega viðaukinn við gr. 5, en ég mótmæli hins vegar harðlega þeirri fullyrðingu hv. þm., sem mun vera 1. þm. Vesturl., Sturlu Böðvarssonar að það séu ekki efnisleg rök fyrir þeim málflutningi sem ég hef hér haft í frammi og þeim brtt. sem ég hér flyt. Þarna eru vissulega efnisleg rök. Þarna eru grundvallarspurningar á ferðinni. Ég endurtek að telji menn t. d. óeðlilegt að Vegagerð ríkisins sé þarna inni með tilnefningu, þá tel ég í hæsta máta eðlilegt að samtök mælingaverkfræðinga komi þar í staðinn. Hitt, að mælingastofur séu þeir stærstu í þessum efnum, skal ég út af fyrir sig ekki fara að deila um við virðulegan þm. Sturlu Böðvarsson, en víst er að á opinberum stofnunum eins og Orkustofnun, reyndar t. d. hjá Landsvirkjun líka, eru stórar deildir sem annast verkefni mjög tengd þessu.

Það var hreint bull sem virðulegur þm. sagði hér um verkefni Háskóla Íslands á þessu sviði þegar hann sagði að ég hefði talað þar um mælingar nemenda sem eitthvert höfuðatriði. Ég talaði um alla þá starfsemi sem tengist landmælingum í Háskóla Íslands, þar með talin kennsla nemenda og þjálfun þeirra landfræðinema, jarðfræðinema, verkfræðinema, líffræðinema og annarra slíkra sem hljóta þjálfun í kortagerð og landmælingum. Hér er verið að mennta það starfsfólk sem í mörgum tilfellum kemur síðar til með að vinna við landmælingar. Því ætti virðulegur þm. ekki að gleyma.

Það er einnig bull að þessum ágætu nemendum í Háskóla Íslands sé alltaf gert að mæla upp sömu þúfurnar. Það er hrein vitleysa. Ég veit það af eigin raun að heilu svæðin á Íslandi hafa einmitt verið kortlögð smátt og smátt með því að senda nemendur í einhverjum ákveðnum árgangi út á einhvern ákveðinn landshluta og þar er mælt og síðan er næsta svæði tekið fyrir og síðan næsta svæði. Það er verkefni prófessora og gjarnan nemenda í framhaldsnámi að raða þessum mælingum saman og út úr því kemur heildstætt kort af einhverjum landshluta, gróðurkort, jarðfræðikort eða venjulegt kort.

Þetta segi ég hér, virðulegi forseti, og vona að mér fyrirgefist, þm. til fróðleiks af því að einhvern veginn fannst mér af orðum hans að hann mætti vel við ofurlítilli fræðslu um þetta áður en hann fer að halda um þetta fleiri ræður. (Gripið fram í: Það er fyrirgefið.) Forseti fyrirgefur mér það og þá skal ég launa honum þá fyrirgjöf með því að fara nú að ljúka máli mínu mjög fljótlega. (Gripið fram í: Heyr. Heyr.) Nú jæja. Það er annars mjög slæmt. Togo-deildin er orðin eitthvað óróleg, virðulegur forseti, og það er ekki rétt að styggja þá neitt. Það er ekki að vita hvernig skapi þeirra er háttað nú þegar þeir eru komnir aftur í kuldann.

Það er alveg rétt að þessari stofnun hefur tekist að starfa án laga í mjög langan tíma, en það er ekki til þess að hæla því. Ég held einmitt að þessi mál séu í jafnmiklum ólestri að mörgu leyti og raun ber vitni vegna þess að þessi stofnun hefur starfað án laga. Ég vil minna virðulega þm. á hvernig hefur gengið að koma áleiðis gróðurkortlagningu Íslands. Hvar er þar borið fyrir? Jú, það er skorturinn á grunngögnum, mismunandi mælikvarðar og alls kyns slík vandræði sem stafa af því að það hefur ekkert heildarskipulag verið í þessum málum á undanförnum áratugum fyrst og fremst og gengur reyndar lítið í þeim málum enn af þessum sökum. Það er sem sé sannfæring mín, og ég hygg því miður að það muni koma á daginn ef meiri hl. samgn. og virðulegur samgrh. hafa sitt fram í þessu máli, að það verði þeim málum ekki til framdráttar að standa að þessu eins og þeir nú ætla sér. Og ég vara við því að það muni ekki greiða götu þess samræmingarstarfs og þeirrar samstillingar í þessum efnum sem þyrfti að takast hér á næstu árum að standa svona að málum.