29.04.1985
Sameinað þing: 75. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4585 í B-deild Alþingistíðinda. (3868)

Björn Jónsson fyrrverandi þingismaður

Forseti (Þorvaldur Garðar Kristjánsson):

Björn Jónsson fyrrv. alþm. og ráðherra andaðist í Landakotsspítala að morgni föstudags 26. apríl, 68 ára að aldri. Hans verður hér minnst.

Björn Jónsson var fæddur 3. september 1916 á Úlfsstöðum í Blönduhlíð í Skagafjarðarsýslu. Foreldrar hans voru Jón Kristjánsson, þá kennari í Akrahreppi, síðan kennari í Eyjafirði og bóndi í Holti og síðan Espigrund í Hrafnagilshreppi, og kona hans Rannveig Sveinsdóttir bónda í Varmavatnshólum í Öxnadal, Þorsteinssonar. Hann ólst upp í stórum systkinahópi og missti móður sína innan fermingaraldurs. Hann stundaði nám í Menntaskólanum á Akureyri og lauk þar stúdentsprófi vorið 1936. Næstu árin var hann verkamaður á Akureyri. Starfsmaður verkalýðsfélaganna þar var hann 1946—1949 og 1952–1955 og ritstjóri vikublaðsins Verkamannsins 1952—1956. Hann var bæjarfulltrúi á Akureyri 1954–1962.

Á árinu 1956 var Björn kjörinn á Alþingi, var landsk. þm. til 1959 og þm. Norðurlandskjördæmis eystra 1959—1974. Hann var kjörinn varaþm. í Reykjavík 1974 og tók sæti á þingi 1975 og 1977. Loks varð hann landsk. þm. 1978 en átti mjög skamma setu á tveimur þingum þess kjörtímabils sökum heilsubrests. Alls átti hann sæti á 23 þingum. Forseti efri deildar Alþingis var hann 1971—1973. Félagsmála- og samgönguráðherra var hann tæpt ár, frá því í júlí 1973 fram í maí 1974. Hann var í stjórn Fiskimálasjóðs 1957–1965 og 19691971, í vinnutímanefnd 1961, í stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs 1966–1970, í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs 1968–1979, í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins 1972–1974 og fulltrúi í Norðurlandaráði 1972-1973.

Eftir er að rekja þann þátt í ævistarfi Björns Jónssonar sem hófst á ungum aldri og entist honum jafnlengi og starfskraftar hans. Fjögur sumur á námsárunum og næstu ár vann hann verkamannastörf. Lét hann þá þegar kveða að sér í félagslífi og stéttabaráttu verkalýðsins. Fljótt kom til þess að hann var kjörinn til trúnaðarstarfa á þeim vettvangi. Árið 1974 var hann kjörinn í stjórn Verkamannafélags Akureyrar og var formaður þess 1947–1963 en á því ári var starf þess fært út og stofnað Verkalýðsfélagið Eining. Var hann formaður þess 1963–1973. Hann sat í stjórn Verkamannasambands Norðurlands frá stofnun þess 1947 til 1973 og var forseti nokkur síðustu árin. Varaformaður Verkamannasambands Íslands var hann frá stofnun þess 1964 til 1973. Hann sat í miðstjórn Alþýðusambands Íslands frá 1952, var kjörinn varaforseti þess 1968 og tók við forsetastörfum þess 1971. Hann var kosinn forseti Alþýðusambandsins 1972 og var kjörinn forseti þess til ársins 1980 en varaforseti sinnti þeim störfum meðan Björn Jónsson var ráðherra og síðar í veikindaforföllum hans.

Í huga Björns Jónssonar tengdust verkalýðsbarátta og stjórnmálabarátta óaðskiljanlega. Þó að hann starfaði ekki alla tíð innan sama stjórnmálaflokks var stefna hans í verkalýðsmálum ætíð söm. Hann var vel verki farinn, mikill afkastamaður, ritfær og átti létt með að túlka skoðanir sínar í mæltu máli. Hann var einbeittur og stjórnsamur, heilsteyptur í baráttu fyrir hönd verkalýðsstéttanna í landinu og ávann sér mikið traust innan samtaka þeirra, svo sem starfsferill hans ber Ijós merki. Í æðsta trúnaðarstarfi verkalýðshreyfingarinnar, vandasömu starfi forseta Alþýðusambands Íslands nutu sín vel forustuhæfileikar hans, studdir af áratugalangri reynslu af störfum að félagsmálum verkalýðssamtakanna. En um aldur fram hlaut hann að draga sig í hlé og búa við skerta heilsu síðustu æviárin.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Björns Jónssonar með því að rísa úr sætum.