30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4606 í B-deild Alþingistíðinda. (3895)

387. mál, viðmiðunarverð Fiskveiðasjóðs á skipum

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Í desembermánuði s. l. fengum við þær fréttir af ríkisstjórnarfundi í fjölmiðlum að ríkisstj. hefði samþykkt að óska eftir því við Fiskveiðasjóð að Fiskveiðasjóður ákveði viðmiðunarverð fyrir einstök fiskiskip miðað við ákveðinn greiðslutíma og greiðslukjör, þ. e. þau fiskiskip sem seld mundu verða á nauðungaruppboði. Eftir því sem birtist í Morgunblaðinu er samþykkt ríkisstjórnarinnar svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. beinir því til stjórnar Fiskveiðasjóðs að þeim fiskiskipum, sem sjóðurinn kann að eignast á næstu mánuðum, verði ráðstafað með eftirgreind meginsjónarmið í huga:

Fiskveiðasjóður ákveði viðmiðunarverð fyrir einstök fiskiskip miðað við ákveðinn greiðslutíma og greiðslukjör.

Útgerðaraðilum í þeim byggðarlögum, sem hafa byggt afkomu sína á útgerð skipanna, verði að höfðu samráði við sjútvrn. gefinn kostur á að semja um kaup á skipunum með framangreindum kjörum, enda bjóði aðrir aðilar ekki betra heildarverð og greiðslukjör.“

Í umræðum um þessa samþykkt ríkisstj. heyrðist hvort tveggja: að ákveða ætti viðmiðunarverð þannig að skipin yrðu metin út frá heildarmati miðað við gerð og stærð skipa þannig að nokkurn veginn verði vitað fyrir fram hvað slíkt skip mundi kosta, og svo á hinn veginn, sem samþykktin virðist frekar benda til, að í hverju einstöku tilviki yrði ákveðið viðmiðunarverð. Nú bíða nokkur skip uppboðs hjá Fiskveiðasjóði. Þau byggðarlög sem þessi skip eru staðsett í búa sig til að reyna að halda skipunum á heimaslóð og bíða m. a. eftir því að Fiskveiðasjóður gefi út viðmiðunarverð á skipin svo að heimaaðilar geti verið viðbúnir því, þegar skipin verða boðin upp, að ganga til samninga við Fiskveiðasjóð á slíkum grundvelli.

Fsp. mín er: „Hefur stjórn Fiskveiðasjóðs orðið við þeirri beiðni ráðherra að ákveða viðmiðunarverð er gildi við endursölu á þeim skipum sem kunna að verða seld á nauðungaruppboði?“ Fsp. minni er beint til hæstv. sjútvrh.