30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4608 í B-deild Alþingistíðinda. (3898)

411. mál, hvalveiðar

Fyrirspyrjandi (Valdimar Indriðason):

Herra forseti. Hinn 2. febrúar 1983 var samþykkt með naumum meiri hl. hér á hv. Alþingi að mótmæla ekki samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um það að algjört bann yrði sett á hvalveiðar frá og með árinu 1986. Að öllu óbreyttu mun því þetta bann taka gildi hér á landi vorið 1986. Sú hvalvertíð sem nú fer í hönd eftir rúman mánuð mun því verða hin síðasta á Íslandi gangi eftir áður gerðar samþykktir. Þá mun leggjast niður starfsemi hvalstöðvarinnar í Hvalfirði eftir 38 ára starf starfsemi sem hefur veitt um 200 manns góða sumaratvinnu. Slík stöðvun mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér fyrir lítið hreppsfélag eins og Hvalfjarðarstrandarhrepp, sem byggir tekjur sínar að stórum hluta á þeirri starfsemi sem þarna fer fram, auk þess mannafla sem þarna missir atvinnu.

S. l. sumar voru veiddar frá stöðinni 167 langreyðar og 95 sandreyðar. Í sumar hljóðar aflakvótinn upp á 201 dýr, 161 langreyði og 40 sandreyðar, eða 61 dýri færra en í fyrra. Á s. l. ári var leyft að veiða hér við land 170 til 180 hrefnur sem einkum voru unnar á Brjánslæk og við Eyjafjörð. Í ár verður leyfð veiði á um 140 dýrum.

Margir halda að hvalafurðir mæli svo lítið í okkar útflutningi að það taki varla að tala um það. Árið 1984 voru hvalafurðir 1.4% af heildarútflutningi þjóðarinnar en 2% af sjávarútflutningi. Til samanburðar mætti t. d. nefna það að hlutur kísilgúrs í heildarútflutningi 1984 var 0.8%.

Hvalveiðar við Ísland hafa verið undir ströngu eftirliti mörg síðustu ár. Stjórnendur hvalveiðistöðvarinnar hafa verið þar vel á verði og gert sér fullkomlega ljóst að í þessum veiðiskap skyldi farið varlega og ekki gengið á stofninn, heldur leitast við að halda þar jafnvægi. Vísindamenn okkar hafa einnig fylgst þar með og skýrslur þar um lagðar fyrir Alþjóðahvalveiðiráðið. Mat okkar manna, sem þarna hafa um fjallað, hefur verið á þann veg að þarna hafi vel og gætilega verið að staðið. Þess vegna er það harður dómur fyrir okkar litlu eyþjóð, sem lifir að stærstum hluta á sjávarfangi sem allt er tekið innan 200 mílna fiskveiðilögsögunnar, að þurfa að hlíta úrskurði erlendra þjóða í þessum efnum sem afgreiða málin undir þrýstingi öflugra hópa sem kenna sig við náttúruvernd.

Íslendingar hafa sýnt það á undanförnum árum að þeir hika ekki við að taka upp takmarkanir á veiðum nytjafiska og algjör veiðibönn þegar stofnarnir eru í hættu. Allir minnast algjörs banns veiða á suðvesturlandssíld, algjörs banns loðnuveiða og nú verulegs samdráttar í þorskveiðum. Þetta höfum við allt gert þó við höfum átt við verulega efnahagsörðugleika að stríða. Dettur þá nokkrum í hug að við hefðum frekar einhvern sérstakan áhuga á því að útrýma hvalastofninum hér við landið?

Ég geri mér fullvel ljósan þann mikla vanda sem ríkisstj. okkar á við að etja á erlendum vettvangi í hvalveiðimálinu og að lausn þess máls verður að vinna á mjög rökfastan og markvissan hátt. Það verður að takast að sannfæra hina erlendu aðila um að hér verði hvalveiðar stundaðar undir vísindalegu eftirliti og það sé á engan hátt ætlun Íslendinga eða markmið að ganga svo nærri hvalstofninum innan sinnar fiskveiðilögsögu að honum stafi hætta af.

Hvalveiðimálum hefur lítið verið hreyft hér í þingsölum á þriðja ár. Nú þegar síðasta veiðitímabil er að fara í hönd hef ég leyft mér að spyrja hæstv. sjútvrh. eftirfarandi spurninga á þskj. 673:

„Hafa verið teknar ákvarðanir um framhald hvalveiða, og þar með hrefnuveiða, við Ísland eftir þetta ár? Sé ekki svo: Hvað hyggst sjútvrh. leggja til í þessum efnum?“