12.10.1984
Sameinað þing: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég sé nú ekki hv. 5. þm. Reykv. hér í salnum svo að ég verð sennilega að sleppa því sem ég vildi við hann sagt hafa.

Þessar umr. í upphafi þings um skýrslu ríkisstj. vegna hinna alvarlegu kjaradeilna og hugmyndir um lausn þeirra hafa um margt verið athyglisverðar. Ekki fyrir það að nýjar og ferskar tillögur eða hugmyndir hafi komið fram frá hv. stjórnarandstæðingum eftir sumarfrí þeirra, heldur fremur þá köldu staðreynd að sumir forustumenn stjórnarandstöðunnar, þó vil ég undanskilja hv. 5. þm. Reykv., hafa haldið hér æsingaræður sem augljóslega hafa þann eina tilgang að gera tilraun til að torvelda mat manna á skynsamlegri lausn þessara viðkvæmu deilumála. Eru erfiðleikar almennings og þjóðarbúsins í heild, sem blasa við öllum, ekki nægjanlega miklir þó ekki sé vísvitandi verið að reyna að blekkja fólk með því að snúa staðreyndum við og draga úr möguleikum til sátta?

Ég get nefnt lítið dæmi. Hv. þm., formaður Alþfl., sagði hér í þingræðu í gærkveldi að matvæli hefðu hækkað um 80% meðan laun hefðu aðeins hækkað um 12%. Samkvæmt skýrslu Verðlagsstofnunar, sem er nýkomin út og menn hafa ekki viljað vefengja, hefur verðlag almennt hækkað á fyrstu átta mánuðum ársins samkvæmt framfærsluvísitölu um 9.9% og matvörur hafa ekki hækkað, sem betur fer, að meðaltali nema 14%. Þar vega hæst landbúnaðarvörur og mesta hækkun þar er um 30%. Á sama tíma hafa sumar matvörur lækkað, eins og sykur og fleiri vörutegundir, þjónusta alls konar staðið í stað þessa níu mánuði ársins, svo sem gjöld Pósts og síma, rafmagn og margt fleira mætti til nefna.

Ég er ekki að segja þetta hér til að draga úr þeim mikla framfærsluþunga sem er á heimilum hér í landi. Ég er aðeins að draga þetta fram hér til að sýna fram á að það er ástæða til að taka hið jákvæða með þegar menn eru að rökræða vissa þætti og halda ekki fram svo grófum fullyrðingum að það blekki til umræðna. Auðvitað er okkur öllum ljóst að verðlag á ýmsum vöruflokkum og þjónustu hefur hækkað allt of mikið og veldur það erfiðleikum í rekstri heimila í þjóðfélaginu. Þetta bitnar auðvitað fyrst og fremst á afkomu láglaunafólks, um það eru allir sammála. Þess vegna vil ég sérstaklega undirstrika ummæli hæstv. forsrh., að það verður að finna möguleika á því að þær peningahækkanir launa, sem hægt er að veita, verði fyrst og fremst til þeirra sem eru í lægstu launaflokkunum. Ég fæ alls ekki skilið og hef aldrei getað skilið hvernig á því stendur að þetta er ekki samstillt krafa forustu launþega í landinu, svo augljóst réttlæti er þetta í mínum huga. (GHelg: Hverjir eru það sem eru í lægstu launaflokkunum?) Þetta er góð spurning, hv. þm., og ég vonast til þess að hv. þm. hafi tekið þátt í því að leita að svari við þessu.

Við reyndum á síðasta þingi, hv. þm., að fá svör við því hverjar eru almennar launatekjur í landinu, þegar verið var að ræða um þá mikilvægu ákvörðun að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum. Við höfum ekki fengið svar við þessu enn. Það er núna rannsókn í gangi til að reyna að kanna þetta. Ég hef m.a. staðið fyrir því að láta kanna með skilvirkum hætti launakjör og aðstöðu einstæðra foreldra hér á landi og hef gefið út skýrslu um það sem ég vona að allir hv. þm. hafi undir höndum. En það þarf að leita að þessum staðreyndum. Þarna er meinsemd sem þarf að lækna í meðferð kjaramála ekki síst.

Ég vænti þess að aðilar vinnumarkaðarins, þar með talin samninganefnd BSRB, taki opnum huga ábendingum hæstv. forsrh. um möguleika til að leysa kjaramálin, sem hann skýrði þingheimi frá hér í ræðu sinn í gær, þar sem aðalatriðin yrðu að tryggja kaupmátt launa eins og hann var á síðasta ársfjórðungi 1983. Sem betur fer er nú hafin af fullum krafti vinna við að athuga á hvern hátt hægt er að beita lækkun tekjuskatts og útsvara sem beinni kjarabót í stað peningalækkunar launa. Það er mjög jákvætt að allir aðilar vinnumarkaðarins hafa tjáð sig fúsa til þess verks.

Vegna þess hve afstaða sveitarfélaga er mikilvæg í þessu máli, með tilliti til lækkunar á útsvari, samþykkti ríkisstj. að minni tillögu í gær að fulltrúi sveitarfélaga tæki sæti í þeirri nefnd er vinnur að málinu. Ég veit að sveitarstjórnarmenn eru almennt reiðubúnir til þátttöku í skynsamlegum leiðum til lausnar á efnahagsvanda þjóðarinnar. En þátttaka sveitarfélaga byggist á beinni þátttöku í meðferð mála er að þeim snýr. Þetta er augljós staðreynd.

Ég get vel tekið undir áhersluatriði BSRB í samningunum, það sem fram kemur m.a. um lækkun vaxta og afnám vísitölubindingar á lán vegna húsakaupa og aukna lánafyrirgreiðslu til húsnæðismála. Ég geri mér fyllilega grein fyrir þeim gífurlega vanda sem fjöldi fólks hér á landi stendur frammi fyrir þessa dagana, sem getur ekki staðið í skilum með afborganir og vexti af lánum vegna húsbygginga eða húsakaupa, fyrir utan þá sem eru að byggja eða kaupa íbúð og þurfa að bíða eftir lánum, þar sem fjármagn er ekki fyrir hendi. Ég skil þetta vel, þar sem ég er daglega í þessum málum og ræði m.a. við fjölda fólks sem er í þessum vanda statt. Ég veit vel hvað vextir og bankaviðskipti hafa hér mikið að segja. Það er ekki sama fyrir þetta fólk hvort vextir umfram verðtryggingu eru 2–5% eða 1(~15% . Það var minnt á það hér í umr. að ég hefði sagt á fundi í Borgarnesi að ákvörðun um vaxtahækkun í haust hefði verið slys. Það þarf ekki að vera neitt launungarmál að ég hef þá skoðun að vextir eigi að lækka í takt við verðbólguþróun í þjóðfélaginu. É g held því fram að það sé yfirlýst stefna ríkisstj. að svo verði. Ég held því einnig fram að Seðlabanki Íslands hafi ekki framkvæmt það aðhald sem honum ber að hafa, og ríkisstj. fól honum m.a. í byrjun þessa árs, með viðskiptabönkum og þróun peningamála í landinu. Til að skýra nokkuð mitt mál vil ég tilfæra dæmi. Í skýrslu um bankamálin, sem fjallar m.a. um hvernig lausafjárstaða bankanna hefur þróast þetta tímabil, kemur fram að 1. jan. 1984 var þessi staða mínus um 1 milljarð og 68 milljónir. Þar af voru erlendar skuldir 41 milljón. Hinn 31. ágúst s.l. var lausafjárstaða bankanna mínus 3.4 milljarðar. Þar af voru erlendar skuldir 1.3 milljarðar. Ég hef gagnrýnt þessa þróun vegna þess að ég held því hiklaust fram að þarna hafi það aðhald sem Seðlabankanum er ætlað brugðist. Og það hefur raunar verið viðurkennt.

Þegar við tölum meira um þessi mál þykir mér rétt, af því að vaxtamálin eru það mikilvæg í þessu tilliti, að skýra það eins og það kemur fyrir í opinberum skýrslum að í febrúar s.l. veitti Seðlabankinn innlánsstofnunum heimild til að ákveða sjálfar kjör innlána, sem bundin eru til minnst sex mánaða, svo og kjör á milli bankalána. Varð það til þess að þeir buðu til sölu innlánsskírteini og fleiri innlánsform með betri kjörum en áður. Í ágústmánuði fengu svo innlánsstofnanir heimild til að ákveða sjálfar alla vexti aðra en vexti almennra sparisjóðsbóka sem Seðlabankinn hækkaði 11. ágúst úr 12 í 17% á ári. Það er þetta sem ég tel að hafi verið að vissu leyti slys. En það voru sett um þetta skýr ákvæði sem áttu að tryggja eftirlit með þessu. Ákvarðanir innlánsstofnana urðu að fá samþykki Seðlabankans til að öðlast gildi. Um miðjan ágúst tóku flestar innlánsstofnanir ákvörðun um vaxtahækkanir á bilinu 2–7%. En það hefur komið í ljós síðan að Seðlabankinn hafnaði engri beiðni um vaxtahækkanir. Þetta hef ég gagnrýnt. Auðvitað er það ljóst, þegar við lítum á dæmið í heild þar sem vextir algengra útlána eru nú 25–30% og vextir þriggja mánaða innlána 20–21%, hve sá samanburður er óeðlilegur að ígildi vísitöluhækkana lánskjaravísitölu er 16.8% síðustu þrjá mánuði og 14% í ágústmánuði. Það sjá allir sem sjá vilja og ræða um þessi mál að þetta er óeðlileg þróun og ég tel mér skylt að láta í ljósi mína skoðun á þessu og vinna að því að þessu verði breytt. Ég tel að einmitt þetta sé ein orsökin fyrir því að svo hefur farið sem nú er öllum ljóst í sambandi við vaxtaþensluna og peningaþensluna. Það er mín skoðun að ef bankarnir, þ.e. viðskiptabankar og sparisjóðir, auka þenslu um of á peningamarkaðinum eigi ekki að hjálpa þeim út úr þeim vanda með því að heimila þeim hækkun vaxta án harðra eftirlitsaðgerða. Hækkun vaxta bitnar strax á atvinnuvegunum og almenningi, ekki síst þeim sem skulda vegna húsbyggingar eða íbúðarkaupa. Ríkisstj. er að vinna að þessum málum og mun taka þau föstum tökum, eins og raunar hefur komið fram hér í þessum umræðum.

Þar sem ég mun svara fsp. hér á Alþingi næstu daga um stöðu húsnæðismála tel ég ekki ástæðu til að ræða þau í þessum umræðum. En þar sem fyrrv. félmrh., hv. þm. Svavar Gestsson, og raunar fleiri ræðumenn slógu því föstu að ríkisstj. hefði ekki staðið við neitt í húsnæðismálum vil ég aðeins koma þessu á framfæri:

Samkvæmt lánsfjárlögum 1984 er gert ráð fyrir að lán úr Byggingarsjóði ríkisins á þessu ári nemi 1167 millj. kr. Þann 30. sept. s.l. var búið að veita 2800 lán úr Byggingarsjóði ríkisins að fjárhæð 1 milljarður 33 millj. kr. Samkvæmt lánsfjárlögum er gert ráð fyrir að lán úr Byggingarsjóði verkamanna á þessu ári nemi 405 millj. kr. Þann 30. sept. s.l. námu lánveitingar úr sjóðnum 302 millj. kr. Þá þrjá mánuði sem eftir eru af þessu ári er eftir að afgreiða lán samkvæmt lánsfjárlögum samtals að fjárhæð 237 millj. kr. Ég get fullyrt hér og tel það öruggt að þetta takist að fullu. Að sjálfsögðu mun ég skýra þetta nánar þegar ég svara þeim fyrirspurnum sem hér liggja fyrir, væntanlega í næstu viku. Þá mun ég koma nánar inn á þessi mál. Hins vegar er alveg ljóst að mikið fjármagn þarf til að geta fullnægt eftirspurn eftir lánum vegna mikillar aukningar í byggingu og húsakaupum á þessu ári, sem er langt umfram allar þær áætlanir sem Húsnæðisstofnunin hafði sett fram. Ég er alls ekki og get ekki verið bjartsýnn á að það takist að útvega miklu meira fjármagn en lánsfjárlögin gera ráð fyrir, ekki síst miðað við stöðu og afkomu lífeyrissjóðanna í landinu, en að þessu er að sjálfsögðu unnið.

Ég get ekki stillt mig um að segja það í sambandi við innskot hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem hér er mættur, að auðvitað er það tilhlökkunarefni hjá mér að fá tækifæri til að ræða við hann um þessi mál, miðað við þá fsp. sem hann hefur lagt fram og ég mun að sjálfsögðu svara. En eitt vil ég sérstaklega segja við hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson: Þegar við tölum um lífeyrissjóðina þá er það ekkert einfalt mál. Það eru engin lög til, sem lífeyrissjóðir taka gild um skyldur þeirra til að veita fjármagni í fjárfestingarsjóðina. Þau eru ekki til. Og ég vænti þess að hv. þm. muni standa mér við hlið þegar að því kemur nú mjög fljótlega að taka ákvörðun um það hvernig við tryggjum að það fjármagn sem lífeyrissjóðirnir hafa yfir að ráða renni til húsnæðismála í landinu bæði í nútíð og framtíð. Ég vænti þess.

Hitt vil ég segja hér, og nota tækifærið af því að við erum að ræða um lífeyrissjóði, að það er vissulega mikið áhyggjuefni hvernig við eigum að meðhöndla lífeyrissjóðina í landinu í allra næstu framtíð. Mér brá óneitanlega í brún hér um daginn þegar ég uppgötvaði að sjóðsstaða stærsta lífeyrissjóðs landsins, Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna, er þannig þessa dagana að það er alveg ljóst að það verður mínusstaða upp á 40–50 milljónir næstu tvo mánuði. Ríkið verður því að leggja fram fé til þess að sjóðurinn geti staðið við þær skuldbindingar sem hann hefur gagnvart lífeyrisþegum, 40–50 milljónir á næstu vikum. Svona er komið fyrir stærsta lífeyrissjóði landsins. Þetta er vissulega áhyggjuefni og hlýtur að benda okkur þm. á að taka þarf höndum saman um að finna skynsamlega lausn á málum lífeyrissjóða landsins, hvernig þeim skuli skipa miðað við það að þeir eigi að geta staðið við þá skuldbindingu, sem fyrst og fremst er þeirra hlutverk, að tryggja lífeyri sinna sjóðfélaga.

Vegna ummæla hv. þm. Svavars Gestssonar get ég ekki stillt mig um að setja hér upp nokkrar einfaldar staðreyndir varðandi Byggingarsjóð ríkisins. Árið 1982, á síðasta heila starfsári fyrrv. húsnæðisráðherra Svavars Gestssonar, námu heildarlán úr Byggingarsjóði ríkisins 393 millj. kr. Þar af voru á fjárlögum sem framlag ríkisins 69.7 millj. kr. Þá var upphæð láns til fjögurra manna fjölskyldu 205 þús. kr. Hinn 30. sept. 1984, þ.e. fyrir níu mánuði þessa árs, nema heildarútlán úr Byggingarsjóði ríkisins 1 milljarði 33 millj. kr. og lánsupphæð til fjögurra manna fjölskyldu 667 þús. kr.

Það væri fróðlegt að rekja hér ýmislegt fleira, en ef menn vilja leita sér upplýsinga þá geta þeir lesið í áliti Þjóðhagsstofnunar að fyrstu sex mánuði þessa árs námu húsnæðislán Byggingarsjóðs ríkisins 872 millj. kr. á móti 387 millj. fyrstu sex mánuði ársins 1983, sem þýðir 46.6% raungildishækkun húsnæðislána 1984. Og ef menn lesa fjárlagafrv. fyrir árið 1985, sem liggur hér á borðum hv. þm., þá sjá þeir að gert er ráð fyrir 100% hækkun fjármagns til Byggingarsjóðs ríkisins frá fyrra ári, þ.e. að í ár er það 400 millj. en í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er það 800 millj. kr. Ég ætla ekki að ræða þetta meira að sinni. Það geta allir hugsandi menn gert sér grein fyrir því hvort um svik ríkisstj. er að ræða eða ódugnað núv. félmrh. í þessu máli. En þetta kemur fram í síðari umr.

Herra forseti. Ég vil að lokum taka undir orð hv. 7. þm. Reykv., Guðmundar J. Guðmundssonar, sem hann lagði áherslu á í ræðu sinni hér í gærkvöld, að menn ættu að halda ró sinni og óskiptri skynsemi, eins og hann orðaði það, við að leysa svona kjaradeilur. Við hljótum að leggja okkur fram til að ná sáttum og meta þjóðarhag ofar öllu í þessum málum.

Nú er hæstv. fjmrh. sennilega ekki í húsinu, en mig langaði til að láta þá skoðun í ljós að ég tel að hann hafi ekki í alvöru viljað túlka viðhorf sitt til kennarastéttarinnar eins og skilja mátti af orðum hans hér í ræðustól í gærkvöld, eða a.m.k. vona ég að ég meti það rétt. Ég þekki nefnilega persónulega vel til um kjör kennara, það vill svo til að í minni fjölskyldu eru kennarar. Ég þekki þess vegna vel stöðu þeirra í launakerfinu öllu og mér er það alveg ljóst að ekki verður komist hjá því að endurskoða stöðu þeirra í launakerfi ríkisins. Nú er það svo að við tölum gjarnan um það að við séum á eftir öðrum þjóðum að tileinka okkur nýja tækni og ný viðhorf til framfara sem kalla á meiri kröfur til aukinnar menntunar og þar með til kennara í landinu til að gera slíkt mögulegt. Það er mín skoðun að þjóðin hafi ekki efni á því að missa af hæfu fólki í kennarastétt. Þess vegna vil ég leggja sérstaka áherslu á það af þessu tilefni að menn geri sér grein fyrir því að það er ekki hægt að tala með léttúð um þessi mál.

Ég vil svo endurtaka að forsrh. hefur fyrir hönd ríkisstj. bent á færar leiðir til lausnar kjaramála í landinu og ég leyfi mér að vona að allir, og þá ekki síst hv. alþm., gangi að lausn þessara mála heils hugar. Þjóðin hefur ekki efni á öðru.