30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4612 í B-deild Alþingistíðinda. (3904)

411. mál, hvalveiðar

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er sjálfsagt rétt að hér sé um flókið mál að ræða ef það er skoðað frá öllum hliðum. Hitt er annað að þetta er mál sem okkur varðar miklu. Hér við land hafa hvalveiðar verið stundaðar áratugum saman. Það hafa ekki verið þræddir neinir leynistigir í þeim efnum. Það hefur verið farið að lögum og unnið fyrir opnum tjöldum. Þetta er allgildur þáttur í atvinnu landsmanna og útflutningi. Þess vegna getum við ekki lokað augunum fyrir því hver afdrif málsins verða. Það er því ekki seinna vænna en að krefja stjórnvöld upplýsinga og svara nú einmitt þegar „síðasta hvalveiðivertíðin“ fer í hönd.

Ég legg áherslu á að þessar hvalveiðar hér við land hafi verið stundaðar af mikilli gát. Og þær hafa veitt margvíslegar upplýsingar um hvalastofnana og annað sem okkur liggur á að vita í þessu efni. Hitt er sjálfsagt rétt að það er fjölmargt sem við vitum ekki nógu vel enn þá. Ég vil þess vegna láta þá skoðun í ljós að full ástæða sé til þess að krefjast þess af ríkisstjórn og ráðamönnum að mál þessi verði öll könnuð rækilega nú þegar, að vísu með fullri gát, en þó með slíkri festu að unnt verði að halda áfram hvalveiðum við Ísland hér eftir sem hingað til.