30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4614 í B-deild Alþingistíðinda. (3909)

411. mál, hvalveiðar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég átti ekki sæti á því Alþingi sem tók þá ákvörðun sem hér er til umræðu að nokkru leyti árið 1983. Það vildi hins vegar svo til að ég fylgdist með störfum hv. Alþingis héðan ofan af áhorfendapöllum og mér eru þingstörfin þennan dag nokkuð minnisstæð. Reyndar var drjúgum hluta dagsins varið til að ræða annað málefni, sem var ríkisábyrgð á láni til gullleitar á Skeiðarársandi, og er mér þetta nokkuð minnisstætt. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að sýnu gæfulegri hafi sú afstaða verið sem menn tóku hvað varðar það mál er hér er til umr. Ég vil taka undir með hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni að ég held að á því leiki ekki tvímæli að staða okkar er sterkari í dag vegna þeirrar ákvörðunar sem Alþingi bar gæfu til að taka á árinu 1983. Menn ættu að hugleiða hvort ekki væri erfiðara að sækja fram og fá viðurkenningu á stöðu okkar á grundvelli vísindalegra rannsókna og undir vísindalegu eftirliti ef við hefðum ekki staðið svona að málum. Ég er alveg sannfærður um það. Ég tel að málið hafi sem sagt þróast á nokkuð gæfulegan máta og hvet hæstv. sjútvrh. til að halda áfram á þeirri braut sem þegar hefur verið mörkuð í málinu. Ég vænti þess að það geti skilað okkur meiru en ef hefði verið staðið öðruvísi að.

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við Íslendingar fylgjumst með því hvað aðrar þjóðir í kringum okkur, sem svipaða stöðu hafa, eru að gera í þessum efnum, t. d. viðleitni Norðmanna til að fá viðurkennda ákveðna sérstöðu sinna strandhvalveiða og einnig að fylgjast með því hvernig málefnum Grænlendinga og Kanadamanna reiðir af í þessum efnum. Ég tel að með því að halda áfram á þeirri braut sem þegar hefur verið mörkuð muni staða okkar verða nokkuð sterk hvað þetta varðar. Ég hvet til þess að það verði gert og vara eindregið við því að rasa um ráð fram nú sem áður.