30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4618 í B-deild Alþingistíðinda. (3915)

435. mál, uppeldisstörf á dagvistarheimilum

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Á 103. löggjafarþingi flutti ég frv. til l. um breytingu á lögum um byggingu og rekstur dagvistarheimila. Það hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Gerð verði námsskrá á vegum menntmrn. er kveði nánar á um markmið og leiðir í uppeldisstarfi á dagvistarheimilum í samráði við þá aðila er að uppeldis- og skólamálum vinna.“

Frv. þetta varð að lögum vorið 1981 með þeirri breytingu einni að í stað orðsins „námsskrá“ kom inn í frv. orðið „starfsáætlun“. Frv. þetta var flutt vegna þess að verulega skorti á stefnumótun varðandi uppeldishlutverk dagvistarheimila, sem annast nú í vaxandi mæli það hlutverk sem fjölskyldan sinnti áður. Breyttir þjóðfélagshættir krefjast þess að vel sé búið að allra yngstu börnunum ekki síður en börnum á grunnskólaaldri og starfsfólk dagvistarheimila finnur vitanlega mjög fyrir vaxandi ábyrgð í starfi sínu.

Með bréfi dagsettu 2. júlí 1982 skipaði þáv. hæstv. menntmrh. nefnd til að semja starfsáætlun um uppeldisstörf á dagvistarheimilum, sbr. lög nr. 40/1981, um breytingu á lögum um byggingu og rekstur dagvistarheimila. Í nefndina voru skipuð Arna Jónsdóttir fóstra, Elín Edda Árnadóttir nemandi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Elín G. Ólafsdóttir kennari, Ingibjörg G. Guðmundsdóttir félagsfræðingur, Kristjana Stefánsdóttir dagvistarfulltrúi, Margrét Pála Ólafsdóttir fóstra, Sigríður M. Jóhannsdóttir dagvistarfulltrúi og til vara Jón Björnsson sálfræðingur, Svandís Skúladóttir fulltrúi í menntmrn. og Valborg Sigurðardóttir skólastjóri Fósturskóla Íslands.

Forstöðu fyrir þessari nefnd hafði Valborg Sigurðardóttir skólastjóri og hefur haft allan tímann. Í erindisbréfi til hennar segir m. a. að starfsáætlunin skuli byggjast á fræðilegum grunni í samræmi við þá þekkingu sem menn hafa í barnasálfræði og uppeldisfræði og með hliðsjón af álitsgerðum sem hafa verið lagðar fram af ýmsum aðilum sem rn. hefur leitað álits hjá. Nefndin hefur starfað frá því í ágúst 1982, tafðist að vísu nokkuð vegna veikinda, en hefur nú lokið störfum og skilað fyrir nokkrum mánuðum ítarlegri skýrslu. Og þar með sýnist vera næst á dagskrá að til framkvæmda komi.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. menntmrh. hvað verði næst á dagskrá, hvert verði næsta skref rn. í þessu máli. Þskj. með fyrirspurninni er ég ekki með í höndunum, herra forseti, ég vænti að það komi ekki að sök.